27.02.1933
Efri deild: 11. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í C-deild Alþingistíðinda. (4769)

41. mál, eignarnámsheimild á afnotarétti landsvæðis úr Garðalandi

Jón Baldvinsson:

Ég hafði nokkur afskipti af máli þessu á síðasta þingi, sem enduðu með því, að samþ. var þál. til stj. um það, að sjá Hafnarfjarðarkaupstað fyrir nægilegu landi, sem fengist við skipti á landi Garðakirkju. Það má sjá það nú eftir á, að hv. 5. landsk. hefir alltaf spyrnt á móti þessu máli. Hann var fyrst á móti þáltill. og síðan fór hann í kringum vilja þingsins í framkvæmdinni. Ég býst nú við, að það liggi öllum ljóst fyrir, að það var og er alveg lífsskilyrði fyrir Hafnarfjarðarbæ að fá gott land til ræktunar. Að ræktun þess mátti t. d. vinna í atvinnubótavinnu. Skipti þessa umrædda Garðalands fóru nú, eins og kunnugt er, þannig, að Hafnarfjarðarbæ voru boðnir lélegustu skæklarnir, en aðrir fengu það bezta. Ég er því alveg sammála hv. flm. frv. þessa í því, að heimila beri stj. að taka lönd þau eignarnámi, sem úthlutað var síðastl. vor af hinu umrædda Garðalandi. Jafnframt tel ég, að sömuleiðis beri að heimila stj. að taka önnur lönd þar eignarnámi, ef ástæða er til, eins og t. d. land Eyjólfs Jóhannssonar, enda þótt réttur hans til landsins kunni að vera eitthvað fyllri en hinna.

Þá kom það fram undir þessum umr., að ennþá væri möguleiki fyrir því, að prestur settist að í Görðum, og því væri eitthvað af landi jarðarinnar ætlað honum. En það veit bæði hv. 5. landsk. og aðrir, að kemur ekki til mála að verði, því að í Hafnarfirði búa fleiri þús. manna, en í Garðahreppi aðeins örfáir menn. Það myndi því aldrei verða kosinn þarna prestur, sem ætlaði sér að setjast að í Görðum.

Hv. 5. landsk. talaði m. a. um lönd, sem forráðamenn Hafnarfjarðarkaupstaðar hefðu látið af hendi til einstakra manna. Það er alveg rétt að áfellast slíkt. En hv. 5. landsk. er bara sömu sökinni seldur og þeir, sem hann er að ásaka. Hann hefir sjálfur afhent einstaklingum lönd, sem að réttu lagi áttu að falla undir Hafnarfjörð. Hv. þm. hefir því í þessu efni hegðað sér eins og argasti íhaldsmaður.

Að afhenda einstökum mönnum lönd, þar sem jafnauðsæ þörf er fyrir landsvæði til ræktunar handa fjölmennum kaupstað, er hreinasta ranglæti. Hvorki Hermann né Tryggvi munu fjölga býlum þarna, heldur hafa lönd þessi sér til gamans. Það má vel vera, að þeir eins og margir fleiri menn hafi áhuga fyrir ræktun, og því sé rétt, að þeir fái lönd til ræktunar, en þau lönd má ekki láta á kostnað Hafnarf jarðarkaupstaðar.

Hv. 5. landsk. hefir afsakað gerðir sínar frá í fyrra í þessu máli með því, að hann hafi haft sér til ráðuneytis mann frá Búnaðarfél. Ísl. Ég veit ekki, hver það hefir verið, en hitt er víst, að það var ekki sá ómerkasti af starfsmönnum Búnaðarfél., sem lagði máli þessu lið í fyrra, með því að senda til þingsins meðmæli sín með því. En sá maður var Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri.

Því verður nú alls ekki neitað, að Hafnarfjarðarkaupstaður hefir mikla þörf fyrir land það, sem hér hefir verið deilt um, og mun hafa einna bezta aðstöðu allra til þess að notfæra sér það. Hitt kemur þessu máli ekkert við, þó að hv. 5. landsk. kunni að geta bent á einhverjar vitleysur hvað snertir leigu á löndum kaupstaðarins fyrr á tímum. - Að endingu vil ég taka það fram, að ég tel sjálfsagt, að mál þetta gangi til nefndar, og þar verði einnig athugaðir möguleikarnir fyrir því, að Hafnarfjarðarkaupstaður geti fengið meira land en það, sem hér er um að ræða.