27.02.1933
Efri deild: 11. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 585 í C-deild Alþingistíðinda. (4771)

41. mál, eignarnámsheimild á afnotarétti landsvæðis úr Garðalandi

Jónas Jónsson:

Hv. 2. landsk. talaði hér nokkur orð, og var ræða hans ágæt sönnun þess, sem ég hefi áður sagt um þetta mál. Það er auðskilið, að fyrir honum sem sócíalista sé það talsvert atriði, að leggja lönd frá Garðahreppi undir Hafnarfjörð. Hann skoðar sig vitanlega sem fulltrúa bæjanna, en ekki sveitanna, því að þar eru hans kjósendur allflestir. Þessi afstaða hans kom skýrt fram, og með því hefir hann skýrt vel fyrir þeim, sem aftur á móti eru hér staddir sem fulltrúar sveitanna, hvað það þýðir í raun og veru, sem hér er um að ræða. Fylgi hans við þetta mál sannar, að t. d. hv. þm. G.-K. og þeir, sem líkt stendur á um, eiga að vera á móti því; móti því að rífa niður einstök heimili í hreppnum, sem liggja að kaupstöðunum, aðeins til þess að styrkja kaupstaðina.

Ég hefi áður svarað því, sem hv. þm. Hafnf. talaði um „lélegasta skikann“, sem Hafnfirðingar áttu að fá. En ég get tekið það fram strax, að lýsing sú á landinu, sem hv. þm. vitnaði í, er alls ekki sú sama, sem ég talaði um. Ég fékk bréf frá Pálma Einarssyni, þar sem hann mælir með þeirri skiptingu, sem gerð var. Kom honum mjög á óvart og leit á það eins og hverja aðra læknisvillu hjá bæjarstj. Hafnarfjarðar, að hún skyldi ekki vilja landið. Og það er óhugsandi, að Pálmi Einarsson hefði mælt með því landi handa Hafnarfirði, sem ónothæft er til ræktunar. (BSn: Lýsingin, sem ég las úr, er undirskrifuð af Pálma Einarssyni). Það kemur ekki málinu við. Það eru engin mótmæli gegn því, að land geti verið gott til kartöfluræktar, þó það sé sendið og óheppilegt til túnræktar. (BSn: Það stendur hér „grýtt holt og hraun“). Hv. þm. veit nú, að kartöflur þrífast oft bezt þar, sem hraun er, því að þar er skjólgott. En ég get vel trúað, að hann treysti á, að ég hafi ekki aðgang að skjölunum í stjórnarráðinu nú, en þau eru þar nú samt, nema ef hann býst við að fá þeim stungið undir stól af vinum sínum þar, til þess að þau komi ekki fram til að sanna rökvillur hans.

Þá sagði hv. 2. landsk., að aldrei mundi verða kosinn sá prestur í Hafnarfirði, sem sitja vildi að Görðum, en ekki inni í bænum. Í þessu kemur fram fyrirlitning á sveitunum og mjög ókristilegur hugsunarháttur, sem hv. þm. ætti að leggja niður, því hann bendir til þess, að hv. þm. sé ekki vel í kirkju hæfur, eins og tekið var fram í stólræðu nýlega. Ég hefi ekki heyrt orðað, að það hafi verið sett upp við prestinn, að hann sæti ekki að Görðum, mér finnst einmitt, að hann ætti að sitja þar og styðja sveitina sem gjaldandi í sinni sveit.

Ég vil benda hv. 2. landsk. á, hvað það er fráleitt af Hafnarfirði að leigja þau lönd sín, sem bezt eru til garðræktar eða bæjarbúrekstrar fallin, einstökum mönnum til langs tíma, en vera svo að seilast inn í aðra hreppa eftir löndum og þrýsta á rétt þeirra.

Þá efaðist hv. 2. landsk. um, að sjálfstæð nýbýli yrðu reist á þessu landi, sem Hafnarfjörður er nú að ásælast. Það er þó a. m. k. ætlazt til þess og gert ráð fyrir því í leigusamningnum. Landið var reiknað út af Pálma Einarssyni með það fyrir augum, að þar væri hægt að reka sjálfstætt bú. Það er ekki von, að byrjað sé að byggja þar enn, því fyrst þarf að ræsa landið fram og girða það.

Hv. þm. kvað búnaðarmálastjórann hafa mælt með því fyrir sitt leyti, að Hafnarfjörður fengi þetta land. Þetta getur vel verið. En hann hefir ekkert athugað þetta mál sérstaklega, og þó hann sé mætur maður, þá býst ég við, að ráðunautur hans sé eins dómbær í þessu máli, þar sem hann hefir rannsakað það.

Ég skal ekki metast á við hv. þm. Hafnf. um það, hvort ég hefi unnið Hafnfirðingum gagn sem þm. eða ekki. Hann gat ekki véfengt það, sem ég sagði um stykkið úr Garðalandi, sem ég hjálpaði þeim til að fá. Eru því ummæli hans um, að ég hafi ekki viljað styðja þá að réttu máli, afsönnuð í þessu eina máli, og myndi ég geta tilfært fleiri dæmi um, að ég hafi verið þarfari Hafnarfirði í opinberum málum en þm. sjálfur, sem ég veit ekki til, að hafi unnið bæjarfélagi sínu sýnilegt gagn með þingmennsku sinni. Hitt, að hv. þm. vill ekki biðja um land það, sem Eyjólfur Jóhannsson hefir fengið við hliðina á lögreglustjóranum og ráðsmanninum á Kleppi, sýnir, hvað mál þetta er af persónulegum rótum runnið. Að vísu segir hv. þm. eftir á, að Hafnfirðingar vilji taka við þessu landi líka, ef það er að þeim rétt, en hann hefði auðvitað krafizt þess á sama hátt og hins, ef hann hefði í raun og veru óskað eftir, að það væri tekið. (BSn: Það stendur um þetta síðast í grg. frv.). Hv. þm. ætti að vita, að grg. er ekki lög.

Þá er það algerlega misskilningur hjá hv. þm., að það hafi verið af persónulegum ástæðum, að þessir menn fengu land þarna, en ekki einhverjir aðrir. Að vísu voru ýmsir fleiri, sem vildu koma til greina, þegar landinu var skipt, en engir, sem voru eins líklegir til að koma þar upp sjálfstæðum býlum eins og þessir menn, sem allir eru bráðduglegir og áhugasamir um ræktun. Það voru t. d. menn, sem vildu hafa landið undir öðrum jörðum. En það, sem mest veltur á í þessu máli, er það, hvort það eiga að verða til fleiri sjálfstæð býli í hreppnum eða ekki. Ég átti fyrir nokkrum árum þátt í því, að stofnuð var hér bankadeild, sem heitir byggingar- og landnámssjóður. Var í sambandi við það gert ráð fyrir, að hægt yrði að stofna fleiri sjálfstæð býli í sveitum landsins. Frv. um þetta mál mætti hinni mestu mótstöðu, skilningsleysi og hatri hjá flokksbræðrum hv. þm. Hafnf., á meðan þeir voru nokkurs megnugir. Kom þá glögglega fram stefnumunur framfaramannanna og afturhaldsmannanna. Íhaldsmennirnir sáu enga ástæðu til þess að koma upp nýbýlum í sveitunum; þeir hafa gert allt, sem í þeirra valdi stóð, til þess að hindra slíkt. Þeir vilja gjarnan, að fólksfjölgunin verði eingöngu í bæjunum og gera sveitirnar að einskonar selstöðuverum handa kaupstaðarbúum. Hinir fáu stuðningsmenn sócíalistaforingjanna geta auðvitað líka vel hugsað sér, að byggðin sé öll í bæjunum, að sveitir séu engar til, nema eins og kálgarðar út frá bæjunum. Mín afskipti af þessum málum hafa miðazt við það, að hinum sjálfstæðu býlum geti fjölgað. Sumstaðar annarsstaðar á landinu hefir tekizt að koma því til leiðar, að stórum jörðum hefir verið skipt upp í fleiri smábýli. Fyrir norðan var t. d. einu prestssetri skipt í fimm býli. Það var ekki lítið til þess með neinni velvild af biskupi landsins, en býlin eru nú komin samt. Og þarna búa nú 4 sjálfstæðir bændur við hliðina á prestinum, sem einnig býr eins og áður.

Það var annars skemmtilegur sá hluti af ræðu hv. þm. Hafnf., sem laut að biskupi. Hann segir, að biskup hafi aldrei viljað láta taka land Garða til notkunar, heldur hafi hann viljað láta geyma það óskipt handa einhverjum einhverntíma í framtíðinni. Það er leiðinlegt, þar sem biskup hefir verið svona áhugasamur um þennan stað, að hann skuli hafa látið hina fögru kirkju, sem Þórarinn heitinn Böðvarsson lét reisa að Görðum, grotna þar niður. Hún mun nú vera verr með farin en nokkur önnur sveitakirkja á landinu. Mér finnst, að fyrst hv. þm. er að hæla biskupi fyrir afskipti hans af Görðum, þá hefði hann átt að benda á þetta sem dæmi um umhyggjusemi hans fyrir staðnum, að hann lætur þessa merkilegu kirkju grotna niður af hirðingarleysi, sjálfsagt með góðu samþykki „allra heilagra“. Hv. þm. beygði sig í auðmýkt fyrir því, að biskup vildi ekki láta rækta Garðaland. Hann segir, að engum hafi dottið í hug að fá þessa mýri, meðan biskup stóð á móti því, að hún væri látin af hendi. (BSn: Það var ekki hægt að fá hana, meðan ríkisstj. vildi fara eftir tillögum biskups). Það var hægt að bera fram frv. um það, eins og nú er gert. En hinir ágætu menn beygðu sig í duftið fyrir því, að „smáfólkið“ gat ekki fengið land til garðræktar, af því að biskup ætlaðist til, að einhverntíma yrði eitthvað með það gert. En þegar þeir verða varir við, að það á að fara að byggja þarna nýbýli og rækta landið, sveitinni til styrktar, þá kemur annað hljóð í strokkinn. Þá má taka landið til að leggja það undir bæinn. Ég held, að það hefði verið betra fyrir hv. þm. að hafa ekki þennan kafla um biskupinn í ræðu sinni, því hann sýnir, hvað áhuginn fyrir þessu máli stendur grunnt. Hið sama sýnir hitt, að „beztu menn“ Hafnarfjarðar, vinir hv. þm., hafa leigt út eitt stærsta tún bæjarins til 50 ára fyrir 150 krónur á ári. Það var auðheyrt, að hv. þm. var að tryggja sig fyrir því, ef stungið yrði upp á, að bærinn notaði sjálfur þetta land, þegar hann var að tala um, að ekki mætti taka land af fátækum mönnum. Hann segir, að það séu fátækir menn, sem hafa þetta land, og því megi ekki hreyfa við því. En það er nú bezt að sjá, hvað setur; það kemur e. t. v. í ljós á sínum tíma hvað bláfátækir þeir eru, sem að því leigulandi standa.

Það kemur nú í ljós hjá hv. þm., að þrátt fyrir hinn nývaknaða, brennandi áhuga, sem fram kom þegar biskup gat ekki lengur haldið verndarhendi sinni yfir mógröfunum þarna suður frá fyrir því að taka landið af þeim, sem eru að rækta það, veit hann ekki, hvað með það á að gera. Hann hefir bara séð í Morgunblaðinu - ég held, að sú upplýsing sé þaðan -, að þarna mætti fá 1200 hesta af töðu eða fóður handa 30 kúm. En hann veit ekkert, hvort þarna á að vera smábýlabúskapur eða bæjarbúrekstur, hvort það á að leigja landið út í smáspildum eða hvort láta á það af hendi á sama hátt og þau tún, sem Hafnarfjörður hefir áður leigt út. Í fám orðum sagt, málið er algerlega óundirbúið, og hv. þm. veit ekki upp né niður í því, sem er ekki við að búast, þar sem það er borið fram af löngun til málþófs hér á þingi og til að ganga á rétt Garðahrepps.

Hv. þm. var hissa á, að ég skyldi vilja bera leigusamninginn saman við aðra slíka samninga. Mér hefði auðvitað ekki dottið í hug að fara að minnast á hann hér og sýna, hvað hann er hagstæður fyrir landið, ef hv. þm. hefði ekki farið að „kritisera“ hann. Nú ætla ég innan fárra daga að láta prenta upp nokkra leigusamninga, sem vinir og flokksbræður þessa hv. þm. hafa gert, svo þeir sjáist í þingskjölunum. Svo lítið er ég hræddur við samanburðinn. Hv. þm. á það upp á sjálfan sig, að farið er að rannsaka, hvernig íhaldsmenn hafa gengið frá leigusamningum á erfðafestulöndum. Ég hefi ekkert á móti því, að mínir samningar séu bornir saman við samninga íhaldsins; ég veit, að það verða fremur mínir, sem framtíðin byggir á.

Þá var það ekki lakasti kaflinn í ræðu hv. þm., þegar hann fór að tala um, að fyrrv. stj. hefði náttúrlega ætlað að láta mæla upp Garðaland, sem skipt var milli 12-13 býla, án þess að vesalings Hafnfirðingar fengju nokkuð að vita um það. Allar þessar mælingar stóðu yfir meira en misseri, þarna rétt við nefið á hv. þm., og margir fundir voru haldnir um málið. Ég skil ekki, hvernig þessi skipti hefði verið hægt að gera án þess að hvert mannsbarn á þessu svæði vissi af því. En svona eru nú rök hv. þm. veik, að hann heldur fram, að skiptin hafi átt að fara leynt.