27.02.1933
Efri deild: 11. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í C-deild Alþingistíðinda. (4778)

41. mál, eignarnámsheimild á afnotarétti landsvæðis úr Garðalandi

Magnús Torfason:

Ég get ekki verið sammála hv. 2. þm. N.-M. um það, að rétt sé að vísa þessu máli til allshn. Hélt ég þvert á móti, að það væri kjörið að vísa málinu til landbn., af þeirri ástæðu fyrst og fremst, að fyrsta spurningin, sem fyrir þeirri n. liggur, er fær þetta mál til meðferðar, verður einmitt að athuga, á hvern hátt þetta land verður ræktað. Skilst mér, að það verði fyrsta verk n. að fara þarna suður eftir og athuga alla landsháttu þar, til þess þannig að ganga úr skugga um allt það, er að þessu atriði lýtur, því að ræktunarspursmálið kemur einmitt til að ráða miklu um úrslit málsins, að mínu áliti. Get ég ekki neitað því, að ég er því mjög hlynntur, að ekki sé verið að skerða litla hreppa á þennan hátt vegna kaupstaðanna, sem enda þegar hafa goldið ærið í manngjöldum til kaupstaðanna, þótt ekki sé farið að taka af þeim lönd þeirra líka og leggja undir kaupstaðina. Af reynslu okkar Árnesinga í þessum efnum verð ég og að líta svo á, að hæpið sé að taka þetta í mál. - Vegna þess, að hér hefir verið hnýtt í Reykvíkinga, vil ég taka það fram, að við Árnesingar erum þvert á móti glaðir yfir hverjum Reykvíking, sem tekur sér land til ræktunar eystra. Fyrir aðgerðir Reykvíkinga hefir risið upp stóryrkja á 2 jörðum í Ölfusinu, og eru þessir 2 Reykvíkingar þannig orðnir þar sannir hreppsstólpar og fyrirgangsmenn. Og til þessa þykir okkur gott að vita. - Ég ber fullt traust til landbn., að hún sjái, hvað rétt er að gera, ekki sízt til hv. form. n.