01.06.1933
Efri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í C-deild Alþingistíðinda. (4787)

41. mál, eignarnámsheimild á afnotarétti landsvæðis úr Garðalandi

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Við 1. umr. málsins gat ég þess, eins og hv. frsm. drap á, að ég teldi það ekki fullnægjandi fyrir Hafnarfjörð, þótt bætt yrði í frv. heimild fyrir eignarnámi á nokkrum hluta af' Hvaleyrinni, af því ég tel bæinn vanta meira land til ræktunar. Annars er ég í efa um það, að nokkurt eignarnám þurfi að koma til á Hvaleyrinni, vegna þess, að samkomulag er líklegt milli umráðenda Flensborgareignarinnar og bæjarstj. Hafnarfj. um það land. Þess vegna lagði ég aðaláherzlu á aðra viðbót á landi fyrir Hafnarfjörð. Ég verð að segja það, að mér þykir afgreiðsla n. á málinu miklu betri heldur en ef því væri aðeins vísað til stj., því stj. getur nú haft hliðsjón af því, sem n. vildi gera í málinu, og gæti það því leitt til endanlega betri afgreiðslu á því. (PM: Það verður að lögum á þessu þingi). Ég væri mjög ánægður, ef svo yrði, en mér heyrðist á hv. form. n., að svo mundi ekki verða; en ef svo fer, að það verður að lögum, þá er ég mjög ánægður.

Fleiru þarf ég ekki við þetta að bæta. Um landkosti á Hvaleyrinni og það, hvernig ræktun væri þar bezt fyrir komið, hefi ég að sjálfsögðu mínar skoðanir, en ég hirði ekki um að fara út í þá sálma að þessu sinni, enda var um það rætt við 1. umr.