01.06.1933
Efri deild: 86. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í C-deild Alþingistíðinda. (4789)

41. mál, eignarnámsheimild á afnotarétti landsvæðis úr Garðalandi

Frsm. (Pétur Magnússon):

Hv. 2. þm. N.-M lét í ljós þá skoðun, að rétt væri að heimila eignarnám á Hvaleyrinni, en meiri hl. n. leit svo á, að engin ástæða væri til þess, þar sem Hvaleyrin er svo að segja öll ræktað land, helmingur hennar eign kaupstaðarins, en hinn helmingurinn eign stofnunar í Hafnarfirði. Þar að auki mun sá hluti, sem Hafnarfjörður á og leigður hefir verið einstaklingum, geta verið laus hvenær sem eru. N. leit því á Hvaleyrina sem fullkomið innanbæjarmál fyrir Hafnarfjörð.

Hv. 2. landsk. taldi rétt, að landspildurnar, ef þær yrðu teknar eignarnámi, yrðu látnar til Hafnarfjarðarkaupstaðar, en ekki til bændanna í Garðahverfinu, því það væri meira hagsmunamál fyrir Hafnarfjörð að fá landið en þá. En ef hv. þm. hefir tekið eftir þeirri skýrslu, sem ég las í fyrri ræðu minni um afkomu þessara manna, þá hlýtur hann að sjá, að þeir geta ekki misst allt landið. (JBald: Þeir nota það þó ekki nú). Ekki síðan það var tekið af þeim, en þeir notuðu það áður til sumarbeitar, og til þess er það mjög vel fallið. Annars má sjá það af skýrslunni, að þeir hafa hver um sig svo lítið bú, að engin von er til þess, að þeir geti lifað af þeim. Þeir hafa margir hverjir ekki nema þrjár til fjórar kýr, enda ekki nema tvær, og aðeins fjórir af þessum bændum hafa sex kýr hver eða fleiri, og þó að mjólkurmarkaðurinn sé sæmilega góður, þá er varla hægt að vefengja það, að þetta er það allra minnsta, sem hugsanlegt er, að hægt sé að framfleyta heimilunum á. N. er því þeirrar skoðunar, að þessum mönnum sé nauðsynlegt að fá auknar landsnytjar. Það var fyrst og fremst þess vegna, að n. taldi rétt, að eignarnám á þessum landspildum færi fram, en hinsvegar taldi n., að þó þessum mönnum væri úthlutað því landi, er þeir þyrftu, þá væri samt nokkuð eftir af landi, sem henni fannst ekkert athugavert við, þó að Hafnarfjörður fengi. Ég sé ekki betur en að það sé hártogun á brtt., að land jarðarinnar Bakka hverfi til hennar aftur. N. ætlast til, að sú jörð sé lögð niður sem sérstakt býli, til þess að Hafnarfjörður þurfi ekki að verða á hakanum. Hinar spildurnar tvær eiga að gera Garðahreppi úrlausn, en Bakki mundi koma í hlut Hafnarfjarðar. Ég skal játa, að lengi má deila um það, hvort ekki sé réttmætt að leyfa eignarnám á stærra svæði, t. d. eins og talað er um í 1. gr. frv. á þskj. 138. En n. komst að þeirri niðurstöðu, að þess væri nú ekki brýn þörf. Hafnfirðingar fá allgóða úrlausn með afgreiðslu þessa frv., svo að nægja ætti í bráðina. Það er þá alltaf hægurinn hjá að bæta við það síðar, ef Hafnfirðingar gætu ekki komizt að jarðakaupum með frjálsu samkomulagi.

Ýmsar þeirra jarða, sem um hefir verið rætt, eru nú í eign opinberra stofnana, líknarfélaga o. s. frv., og er hart að gengið, eigi að taka þær eignarnámi, og má slíkt ekki verða, nema knýjandi nauðsyn beri til. Og n. áleit, að sem bezt væri hægt að gera þessa heimild víðtækari síðar, ef reynslan sýndi þörf á því.