01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 651 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Sveinbjörn Högnason:

Við 2. umr. þessa máls lét ég þess getið, að nokkrir þm. mundu flytja brtt. við 3. umr. þess efnis, að 1. skyldu afgreidd sem bráðabirgðalög og aðeins gilda til ársloka 1934. Við lítum svo á, að eins og þinginu í fyrra þótti ástæða til að láta þau aðeins gilda til eins árs, þá sé það ekki síður viðeigandi nú, vegna yfirstandandi erfiðleika almennings, sem hafa farið vaxandi síðan í fyrra. Það eina, sem tekið var gilt til réttlætingar því á síðasta þingi að gera þær bráðabirgðaráðstafanir til tekjuöflunar, sem felast í þessum l., var tekjuskortur ríkissjóðs vegna kreppunnar. Þó að sú ástæða kunni enn að vera fyrir hendi, þá verður það að teljast bráðabirgðaástand.

Við, sem erum flm. þessarar brtt. á þskj. 66, sættum okkur við, að l. gildi til ársloka 1934, enda þótt við óskum þess helzt, að þau verði nú þegar numin úr gildi.

Ég vil svo endurtaka það, sem ég sagði við 2. umr., að það er óneitanlega hart fyrir bændur, sem eiga örðugast um alla flutninga, að þurfa að búa undir þessum álögum, þegar Alþingi er að leita bjargráða eftir ýmsum leiðum til þess að hjálpa framleiðendum í landinu og draga úr erfiðleikum kreppunnar. Það virðist óeðlilegt, að ríkið skuli á sama tíma skattleggja þann kostnaðarlið í rekstri framleiðslunnar, sem flestum bændum er þyngstur í skauti. Þeir mjólkurframleiðendur, sem þurfa að flytja mjólk sína 70 km. langan veg til mjólkurbús, verða að borga 4—5 aur. flutningsgjald fyrir hvern litra af 12—15 aura mjólkurverði. M. ö. o., flutningsgjaldið nemur fullkomlega ¼ hluta af verði mjólkurinnar. Og svo er með þessum 1. verið að taka þennan kostnaðarlið sem gjaldstofn fyrir ríkissjóð, þegar sú nauðsyn er mest aðkallandi að styðja framleiðslu bænda og halda henni í verði.

Það eru þegar fyrir hendi fjölmörg dæmi þess, að flutningskostnaður á ýmiskonar þungavörum úr kaupstað til þeirra héraða, sem verst eru sett um flutninga, jafngildir verði varanna á hafnarstað. Má því til sönnunar nefna kol o. fl. Hvernig getur nokkrum réttsýnum manni dottið í hug í fullri alvöru, að sanngjarnt sé að skattleggja slíka flutninga hér á land, þar sem aðstaðan er sú, sem ég hefi hér lýst.

Ég tek það enn fram, að ég óska eindregið eftir, að þetta frv. verði fellt, og að 1. verði ekki framlengd, heldur numin úr gildi. (BSt: Hvaða tekjur eiga að koma í staðinn?). Ég ætlast til, að leitað verði sanngjarnari úrlausna um tekjuöflun heldur en bifreiðaskatturinn er. En þar sem ég get búizt við því, að ýmsir hv. þdm. verði eigi sanngjarnari í þessu efni en hv. frsm. meiri hl. n., þá viljum við flm.brtt. á þskj. 66 leggja til, að frv. verði samþ. sem bráðabirgðaráðstöfun til eins árs, er eigi niður að falla jafnskjótt og kreppunni léttir. Þetta vona ég, að hv. þdm. viðurkenni, að sé réttmætt, eigi síður nú en í fyrra. Hvað því viðvíkur, að óheppilegt sé að samþ. skattstofna fyrir ríkissjóð aðeins til eins árs í senn, þá getur það vel verið. En ég hygg, að þegar þjóðfélögin leggja á sérstaka skatta t. d. vegna kreppunnar, þá sé það venjulegt að láta þá gilda aðeins eitt ár í senn, eða um takmarkaðan tíma, en eigi ótakmarkað, eins og farið er fram á með þessu frv. Og þó að vitanlega sé hægt að bera fram frv. síðar til breyt. á 1., þá er hitt auðveldara, að láta þau falla úr gildi af sjálfu sér, þegar þörfin er ekki lengur fyrir hendi og tíminn útrunninn.