28.02.1933
Efri deild: 12. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í C-deild Alþingistíðinda. (4807)

46. mál, kaup á skuldum

Halldór Steinsson:

Það væri sjálfsagt gott og blessað, ef hægt væri að koma í veg fyrir það með lögum, að gengið sé mjög harkalega eftir skuldum, sérstaklega nú á þessum tímum, þegar fjárhagur manna er yfirleitt mjög þröngur. En ég get ekki með nokkru móti séð, að þetta frv. miði að nokkru leyti í þá átt. Mér finnst það satt að segja að mörgu leyti vanhugsað og fljótfærnislega samið. Í frv. er ætlazt til, að sá, sem skuld hefir keypt, skuli jafna þeirri upphæð, er innheimta á, niður á alla skuldunauta eftir kaupverðinu, en í hlutfalli við nafnverð skuldanna. Síðan er skuldareiganda heimilt að innheimta hjá hverjum einstökum skuldunaut hans hlut af hinu nýfundna sannvirði skuldanna, að viðbættum 10% af þeirri upphæð fyrir áhættu við innheimtuna. Ef t. d. 100 þús. kr. skuld er seld fyrir 20 þús. kr., þá er ætlazt til, að leyfilegt sé að innheimta 1/5 af henni, að viðbættum 10% af kaupverði skuldarinnar.

Það er venjulega svo, að útistandandi skuldir eru mjög mismunandi. Sumar skuldir eru ágætar, svo að gera má ráð fyrir, að þær verði greiddar að miklu eða öllu leyti. Aðrar eru aftur miðlungsskuldir, sem gera má ráð fyrir, að helmingur náist af eða þar um bil. Svo er þriðji flokkurinn, en í honum eru þær skuldir, sem eru annaðhvort algerlega ófáanlegar eða lítt fáanlegar. Þess vegna er það svo í slíkum þrotabúum, að venjulega lætur búið sjálft innheimta beztu skuldirnar, og er þá venjulega ekki annað eftir en ruslið, sem er þá selt. Ég get þess vegna ekki séð, að þetta frv. kæmi að verulegum notum, þótt að lögum yrði, eða næði þeim tilgangi, sem til er ætlazt, en getur hinsvegar orðið til að rýra viðkomandi bú eða þá til að skaða þá, sem skuldirnar kaupa, en að mínu viti er hvorugt heilbrigt.

Ef ætti að koma í veg fyrir óþægindi af slíkri skuldainnheimtu, þá finnst mér bezt og eðlilegast að fara þá leið, sem hv. flm. benti á, að viðkomandi hreppsfélag eða skuldunautarnir sjálfir hefðu forgangsrétt að þessum skuldum. Þá mundi ekki vera gengið of hart að mönnum með skuldagreiðslur, en hitt get ég ekki séð, að sú leið, sem hv. flm. stingur upp á í frv. sjálfu, verði til mikilla bóta.

Ég mun ekki leggjast á móti því, að frv. gangi til n., og treysti ég þá n. til að laga frv. og bæta úr þeim stóru göllum, sem að mínu áliti eru á því.