28.02.1933
Efri deild: 12. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í C-deild Alþingistíðinda. (4810)

46. mál, kaup á skuldum

Flm. (Jónas Jónsson):

Mér sýnist líta vel út með, að frv. nái þeim tilgangi, að vekja menn til umhugsunar um þá hættu, sem er svo nátengd viðskiptalífi okkar nú. Hitt kemur mér engan veginn á óvart, þó að menn séu ekkj samdóma um það, hvernig skuli taka á þessu máli.

Eins og hv. þm. Snæf. tók eftir, þá álít ég, að gera megi ýmsar fleiri öryggisráðstafanir í svona margþættu máli eins og þetta er. Eitt af því, sem þar kemur fyrst til greina, er réttur sveitar-, sýslu- og bæjarfélaga til að koma þar til skjalanna, ef hætta er á ferðum.

Út af ræðu hv. 2. landsk. vil ég geta þess, að það vakti fyrir mér, að þetta væri almennt, enda er ekki talað um neinn vissan félagsskap í frv. Það mun líka vera eins mikið um það, eða öllu meira, að skuldunautar kaupmanna verði hart úti vegna hastarlegrar aðgöngu harðdrægra innheimtumanna. Það hefir myndazt ákaflega sterkt nafn, „blóðhundar“, um þá menn, sem hafa tekið að sér innheimtu á þessum skuldum, og það eitt sýnir, að almenningur hefir fundið þá hættu, sem stafar af þessari innheimtu. En einmitt einn af slíkum mönnum nýtur alveg sérstakrar verndar íhaldsmanna nú sem stendur.

Ég get ekki fallizt á það, sem hv. 2. landsk. sagði, að þetta frv. yrði til að rýra lánstraust manna, vegna þess að frv. leggur engar hindranir á það, að lánardrottinn geti sjálfur gengið að skuldunaut sínum. Í sambandi við þetta vil ég segja út af ræðu hv. 1. landsk., að það er ákveðinn tilgangur þessa frv. að gera glöggan mun á því, hvort lánardrottinn innheimtir sína skuld eða einhver kaupir hana og gengur síðan hart að í ábataskyni. Samkv. frv. á lánardrottinn að hafa sinn óskerta rétt. Hann hefir myndað skuldina, trúað öðrum fyrir fé sínu, og þeir, sem lánið hafa tekið, hafa gert það með ráðnum hug. En þar að auki eru oft milli þessara tveggja aðilja einhver persónuleg bönd, sem hindra það, að lánardrottinn gangi harkalega að, t. d. mundu flestir lánardrottnar hika við að taka einustu kú fátæka mannsins, jafnvel þótt þeir hefðu lagalegan rétt til þess. En „blóðhundarnir“, eða sú stétt manna, sem svo er kölluð, mundu ekki hika við að ganga hart að mönnum, heldur taka allt af þeim, jafnvel ekki hlífa þeim, sem bágast eiga. Það getur líka verið, að milli lánardrottins og lántakanda hafi verið sérstakt samkomulag um greiðslu skuldarinnar, t. d. um langan greiðslufrest, sem hafi þó ekki verið skriflegt, en til þess er auðvitað ekkert tillit tekið af þeim, sem skuldina kaupir og gerir sér að atvinnu að innheimta hana.

Það er ekki rétt, sem hv. þm. sagði, að hér ætti að hanna að selja skuldir, en það er tilraun til að gera það erfitt að selja þær, tilraun til að láta lánsstofnanirnar og aðra, sem lána fé, innheimta sjálfa. Þessi tilgangur miðast við þá þörf, sem er í landinu, því að það er mjög sjaldan, að þeir, sem lán veita, hvort sem það eru bankar, sparisjóðir, kaupmenn eða kaupfélög, gangi að mönnum, sem vilja standa í skilum, með mikilli ósanngirni.