01.03.1933
Efri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í C-deild Alþingistíðinda. (4816)

47. mál, sjórnarskrárbreytingu

Flm. (Jón Baldvinsson):

Það eru mörg verkefni, sem liggja fyrir þessu þingi, og mörg vandamál úr að ráða. E. t. v. eru eitthvað skiptar skoðanir um, hver af þessum málum ættu að ganga fyrir. Að sjálfsögðu verða gerðar miklar kröfur til þingsins um að það greiði á einhvern hátt úr þeim miklu fjárhagsörðugleikum, sem nú steðja að landsmönnum. Þetta er vandamál, sem vel þarf að velta fyrir sér, og er nauðsynlegt að fá, með nýrri varanlegri skattalöggjöf, fé til þess að ráða bót á erfiðleikum kreppunnar. En það er líka annað mál, sem vænzt er, að þetta þing ráði fram úr, mál, sem ekki krefst aukinna útgjalda, mál, sem meiri hl. þjóðarinnar væntir fastlega, að þingið ráði fram úr. Þetta mál er stjórnarskrármálið og kjördæmaskipunarmálið, sem hvorttveggja tvinnast mjög saman og hafa legið fyrir 3 undanförnum þingum. Ég þarf ekki að rifja upp fyrir þm. sögu þessa máls. Allt því viðkomandi er enn í fersku minni. En þó má henda á, að Framsfl. rauk til og rauf Alþ. vegna lítilfjörlegrar stjskr.breyt., sem fram kom á þingi 1931. Lét flokkurinn síðan fara fram nýjar kosningar og vann á því glæsilegan sigur, að telja bændum trú um, að ef þeir veittu Framsókn ekki mikinn meiri hl. á Alþ. nú, mundu þeir aldrei framar fá að neyta kosningarréttar síns. Þetta var undiraldan í allri starfsemi framsóknarmanna við kosningu eftir þingrofið. Síðan fór þó svo, að flokkurinn neyddist til að taka þetta mál upp. Það átti svo sterk ítök í þjóðinni, að þrátt fyrir meiri hl. í þinginu höfðu framsóknarmenn ekki nema 1/3 hluta kjósendanna að baki sér. Mikill meiri hl. þessara 2/3 hluta kjósenda hefir auk þess látið í ljós við kosningar og tugir þúsunda beinlínis sent þinginu skrifl. áskoranir um að leysa stjórnarskrármálið á þann hátt, að jafnrétti fáist og að allir alþ.kjósendur fái jafnan áhrifarétt á skipun þingsins, hvar á landinu sem þeir eru búsettir. Þetta er það, sem fram að þessu hefir gerzt í málinu, frv. hafa komið fram, mþn. skipuð, en árangur hefir enginn orðið. Tvö undanfarin þing hafa að vísu verið samtök milli þeirra flokka, er töldu sig og sína kjósendur mestum órétti beitta með núv. kjördæmaskipun, um að standa á móti því, að ýms mál Framsóknarflokksstjórnarinnar gengju fram, nema því aðeins, að stj. léti undan í kjördæmamálinu og héldi ekki rétti fyrir kjósendum, eins og nú er gert. En Sjálfstæðisfl. hefir bilað í þessum samtökum gegn stjórninni. Á þinginu 1931 var það e. t. v. skiljanlegt, að þm. vildu bíða og sjá, hvort ekki yrði einhver árangur af starfi mþn., sem Framsókn lagði til, að skipuð yrði; en þegar enginn árangur varð af starfi þeirrar n., var ekki um annað að gera en knýja þetta mál fram, því að svo sterkar stoðir voru undir það runnar, að Framsókn hefði ekki nema fáa mánuði getað staðið á móti stjskr.breyt., ef fast hefði verið fylgt á eftir. Í stað þess að standa fast við málstaðinn á síðasta þingi, samþ. Sjálfstfl. að ganga til stj.myndunar með Framsókn og fella þar með niður kröfurnar, sem haldið hafði verið fram áður um lausn kjördæmamálsins. Skyldi nú bíða eftir því, hvort samsteypustj. gæti ekki leyst málið. Allt var byggt á loforði hæstv. forsrh. því viðvíkjandi, og birtist nú efnd þess í formi frv. þess, er útbýtt hefir verið hér í þinginu í dag. Ég held, að auðveldara hefði verið að fá fram stjskr.breyt. í fyrra en það verður nú. Byggi ég það á því, að í fyrra var komið mikið lát á ýmsa þm. Framsóknar, og sögðu þeir, að ekkert væri annað að gera en ganga inn á breyt. Þingmálin stóðu föst. Heyrði ég í þinginu, að ýmsir þm. óskuðu eftir því, að þingi yrði frestað, svo að þeir gætu farið heim og ráðgast við kjósendur um málið, en koma síðan aftur til þings, og hefði það getað orðið síðla sumars 1932. Hefði þetta því aðeins orðið, að ekki hefði verið sleppt við stjórnina þeim málum, sem hún þurfti á að halda til að geta stjórnað landinu. En þegar málinu var þannig komið, breyttist allt á örfáum dögum. - Framsókn og Íhald slógu saman pjönkum sínum og mynduðu stjórn saman. Ég hefi minni trú á, að sjálfstæðismenn standi fastir fyrir nú í þessu máli, eftir að þeir hafa bilað tvisvar. Er ólíklegra, að framsóknarmenn taki þá nú alvarlega, þótt þeir beri fram slíkar kröfur. Ég þarf ekki að taka það fram, að við Alþýðuflokksmenn höldum fast við þessar kröfur um breytta kjördæmaskipan. Aðstaða okkar er í engu breytt. Við höfum í undanfarin 15 ár haldið fram svipuðum kröfum og þeim, er við höfum nú lagt fyrir þetta þing. Þetta frv., sem ég hefi borið fram af hálfu Alþfl., er ekki nein nýjung, því að næstum allt efni þess felst í þeim brtt., sem fluttar voru af hálfu Alþfl. á Alþ. í fyrra. Aðalatriðið er, að kjördæmaskipun sú verði bundin í stjskr., að landið sé allt eitt kjördæmi og allir alþm. og varamenn kosnir hlutbundnum kosningum samtímis um land allt. Ég þarf heldur ekki að taka það fram, því að þm. vita, að þingflokkar eiga að fá þingsæti í samræmi við atkvæðatölu þá, er þeir hljóta við kosningar. Þetta ákvæði er mjög nauðsynlegt í stjskr., svo að ekki verði með kosningal. gert minna úr því en til var ætlazt með frv. Þá er atriði í frv., sem hefir að vísu verið borið hér fram á þingi einu sinni áður. Það er, að þm. skuli allir skipa eina málstofu. Þetta ákvæði er til þess að gera einfaldari gang þingmála og auðveldari afgreiðslu mála, þótt hún verði hinsvegar jafnörugg. Því að þegar þm. vita, að þeir eiga að afgr. eitthvert mál til fullnustu út úr þinginu, munu þeir leggja meiri alúð við íhugun þess heldur en þegar þeir vita, að það fer til annarar deildar. Líka má fjölga umr., ef þurfa þykir, skipta málum milli nefnda o. s. frv. Hvað önnur atriði snertir er rétt að taka það fram, að kosningarréttur er í frv. ákveðinn í samræmi við það, sem borið var hér fram í fyrra, að allir eldri en 21 árs fái kosningarrétt. Ennfremur er í frv. numið burt það ákvæði, að þeginn sveitarstyrkur varði missi atkv.réttar, og held ég, að flestir þm. séu nú orðið sammála þessum atriðum eða treystist ekki, þótt þeir kunni að vera á móti þeim, að ganga á móti því sterka almenningsáliti, er að baki þeim stendur. Í frv. er lagt til, að niður falli skilyrðið um 5 ára búsetu í landinu. Þetta var sett í stjskr. 1920 því til tryggingar, að Danir neyttu ekki atkv.réttar hér og hefðu áhrif á kosningar. Nú er slíkri hættu ekki til að dreifa, en hinsvegar hefir þetta komið hart niður á ýmsum Íslendingum, er dvalið hafa erlendis. Vildi ég fá þessu breytt í fyrra, og skildist mér, að sumir sjálfstæðismanna myndu því ekki andvígir. En þær breyt. voru á þá lund, að ekki skyldi nein skilyrði setja um dvöl í landinu. Hér er aftur á móti lagt til, að eins árs búsetuskilyrði verði lögtekið.

Ég skal játa, að ég hefi því miður ekki mikla von um, að frv. þetta nái samþykki eins og ég ber það nú fram. En mér þótti ekki rétt að draga lengur að bera fram stjskr.frv. hér í þinginu.

Það hefir verið sagt, að svo sem viku af þingi myndi ríkisstj. bera fram frv. það til stjskr.breyt., sem forsrh. hafði lofað að bera fram. Það leið nú svo fyrsta vika þingsins, að ekkert frv. kom, og þá var það, að Alþfl. ákvað að bera fram frv., sem nú er hér til umr. Síðan kom sú yfirlýsing frá hæstv. forsrh., að ég ætla fyrir hálfum mánuði, að þá í næstu viku á eftir myndi koma frv. frá stj. Sú vika leið fram til föstudags, og ekkert frv. kom. Þá var það, að Alþflþm. álitu rétt að láta frv. sitt koma fram, til þess að Alþingi gæti tekið stjórnarskrármálið til meðferðar. Við höfum því dregið það lengur en vera bar, en það var aðeins verið að bíða eftir því - af einskonar kurteisi við hæstv. stj. - að lofa henni að koma fyrst með sitt frv.

Ég býst ekki við, að frv. verði samþ. eins og það er. Ég hefi samt skýrt frá því, að afstaða okkar Alþ.flþm. er ekki breytt frá því í fyrra. Við verðum kannske að sætta okkur við einhverja minni úrlausn en þá, sem við nú förum fram á, svipað því, sem við töldum okkur geta unað við í fyrra. Hitt er annað mál, að ef stjskr.málið á nú að ganga milli flokkanna eins og það gekk í fyrra, er sýnilegt, að enginn árangur verður.

Þetta fyrirkomulag, sem stungið er upp á í frv., er sá grundvöllur, sem við viljum byggja á í stjskr.málinu. Af því að það er svo knýjandi nauðsyn að fá stjskr.breyt., þá höfum við viljað teygja okkur langtum lengra en við upphaflega stungum upp á. Það er sú knýjandi nauðsyn til breytinga á kjördæmaskipuninni, sem því veldur. Þetta hefir aldrei komið eins greinilega í ljós og eftir kosningarnar 1931, þegar 1/3 kjósenda gat fengið meiri hluta allra þm. Það hefir aldrei komið fyrir áður í þingsögu vorri.

Ég vil að lokinni þessari umr. mælast til þess við hv. d., að hún skipi sérstaka n. til þess að fjalla um þetta mál, svo sem venja er til með breytingar á stjórnarskránni. Ég ætla jafnframt að skýra flokkunum frá því, að ég mun koma fram með sérstakan lista af hálfu míns flokks við kosninguna til n. Hvort sem þetta verður tekið til greina eða ekki, þykir mér rétt að láta það koma fram nú.