01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 654 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Magnús Jónsson:

Ég var upphaflega andvígur bifreiðaskatti, og þá einnig því, að hann væri hækkaður, og loks er ég mótfallinn því, að ákvæðið um, að hann skuli vera tímabundinn, sé fellt niður. Ég hefi aldrei getað skilið, að afla þyrfti sérstaks fjár til vegagerða, þótt þær séu nauðsynlegar, sem ég skal viðurkenna, að þær eru. Ég sé ekki annað en að fé til þeirra megi leggja af almennum tekjum ríkissjóðs, eins og til svo margs annars. Annars er það ekki tilgangur minn að ræða málið almennt, en ég vildi bara minna á þetta.

Að vegalengdir séu hlutfallslega meiri hér og vegir verri en í öðrum löndum má satt vera. En að réttlæta þennan skatt með því nær engri átt. Það má alveg eins snúa því við og segja, að vegna vondra vega hér sé óhæfa að skattleggja umferðina, sem af þeirri ástæðu verður vitanlega miklu dýrari hér en annarsstaðar miðað við sömu vegalengdir. Ég stóð aðallega upp í þetta sinn til þess að mæla með brtt. á þskj. 66, sem ákveður, að 1. um bifreiðaskatt skuli aðeins framlengd um eitt ár. Það er þó ekki aðeins til þess að 1. haldi áfram að vera bráðabirgðal., heldur vegna þess, að í fyrra var talið, að stór þörf væri á endurskoðun þessara 1., og var þá lofað endurskoðun á þeim. Sú þörf er enn fyrir hendi, því engin endurskoðun hefir enn farið fram á þessari löggjöf. Var talað um, að gott væri að fá reynslu um þessa löggjöf áður en endurskoðað væri. Breyt. þær, sem gerðar eru á 1. með þessu frv., eru nær engar, og geta því ekki talizt gagngerð endurskoðun. Eina stóra breyt. er sú, að koma í veg fyrir endurskoðun, með því að gera 1. ótímabundin. Ég vil alls ekki gefa stj. kvittun fyrir því, að hún hafi látið hina lofuðu endurskoðun fara fram, og vil því, að l. séu ekki framlengd lengur en eitt ár. Í aths. þeim, er fylgja frv. og vegamálastjóri hefir samið, er stungið upp á ýmsum breyt. frá núgildandi 1., t. d. að kaupstaðir og kauptún fengju hluta af skattinum, án þess þó að það sé neitt tekið til greina í frv. Ég vil því enn undirstrika álit mitt og skora á ríkisstj. að láta rækilega endurskoðun fara fram á þessum 1.