04.03.1933
Efri deild: 16. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í C-deild Alþingistíðinda. (4831)

57. mál, hámarkslaun

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég vil benda á, að þessar þingmálafundargerðir, sem hv. flm. hefir verið að lesa upp, fjalla um allt annað en það, sem kemur fram í frv. Þær tala einvörðungu um lækkun launa embættismanna, en sá skattur á tekjum manna, sem lagður er til í frv., er utan og ofan við laun flestra þeirra, eins og hv. flm. hlýtur að vera kunnugt.

Annars fer frv. að verða skiljanlegt, þegar athugað er, hvernig það er orðið til. Grundvöllurinn virðist vera sá, að Eggert Claessen hafi einhverntíma verið ákveðnar 40 þús. kr. í bankastj.laun. En af þessum launum geta þó engar tekjur komið í ríkissjóð, því að launin eru ekki lengur til. Sama er að segja un 16 þús. kr. laun bankaeftirlitsmannsins. Þau heyra fortíðinni til, og laun hans nú myndu ekki falla undir þennan nýja skatt.

Það er því augljóst, að frv. snertir næstum enga opinbera starfsmenn. Um aðra starfsmenn er óhætt að segja það, að búast mætti við, að tekjur yrðu litlar af launum þeirra, vegna þess að fyrirtækin færu vart að greiða mönnum mikið fram yfir 8000 kr. með það fyrir augum, að það, sem fram yfir væri, rynni í ríkissjóð, en ekki til starfsmannanna sjálfra. Hvort reynt yrði að fara í kringum lögin í launagreiðslum til þessara manna, skal ég ekki segja um, en augljóst er, að tekjur ríkissjóðs af launum þeirra yrðu litlar, og næstum engar af launum opinberra starfsmanna.