04.03.1933
Efri deild: 16. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í C-deild Alþingistíðinda. (4832)

57. mál, hámarkslaun

Jón Baldvinsson:

Ég hefi áður bent á það, að þjóðhagslegur sparnaður væri að því, að laun háttlaunaðra starfsmanna við einstök fyrirtæki lækkuðu nokkuð frá því, sem nú er. Ég álít, að frv. nái til þessara starfsmanna, nema þeirra, er vinna við félagsfyrirtæki, og ég tel það kost á frv., að gert er ráð fyrir, að þeim tekjum, sem af því kunna að koma, verði varið til sérstakra verkefna. Við jafnaðarmenn höfum jafnan haldið fram stighækkandi skatti, eins og tillögur fulltrúa okkar í skattanefnd bera ljósastan vott um. Hinsvegar erum við ekkert hrifnir af að vera að samþykkja skattalög fyrir stjórn, sem sýnir sig fjandsamlega verkalýðnum og ver fé ríkissjóðs til að kosta ríkislögreglu og annars álíka þarflegs. Því tel ég það kost á frv., að hv. flm. skuli draga fé það, sem kann að aflast samkv. því, undan ráðstöfunarrétti þeirrar stjórnar, er hann styður.

Þó er ég honum ekki fyllilega sammála um það, hvernig fénu skuli varið. Líklegt er, að bæjarsjóður Reykjavíkur myndi missa nokkurs í, ef frv. yrði að lögum, því að allmikið af útsvörum hvílir einmitt á háum tekjum. Ég tel því rétt, að talsvert af fé því, sem kynni að aflast samkvæmt frv., rynni í sjóð þess bæjar- eða sveitarfélags, sem féð kemur frá.

Nokkra fleiri smíðagalla hefi ég þótzt sjá á frv., en þetta getur nú lagazt í meðferðinni. Frv. gerir eingöngu ráð fyrir skatti á hreinar peningatekjur, en ekki á hlunnindi, sem þó eru oft veruleg. Ég þekki t. d. mann, sem hefir 8000 kr. árslaun og frítt húsnæði, hita og ljós, sem óhætt er að reikna á 4000 kr. Þessi maður kæmi því ekki undir lögin, þó að hann hafi raunverulega 12000 kr. árslaun.

Ég mun fylgja frv. þessu til nefndar, en mun hinsvegar koma fram með brtt. um það, hversu fénu skuli varið, og ef til vill gera tillögur um að laga aðra smærri smíðagalla. Ég álít, að frv. geti orðið grundvöllur fyrir þeim vilja, sem kemur fram í þeim þingmálafundagerðum, sem hv. þm. las upp, og tel það því spor í rétta átt.