04.03.1933
Efri deild: 16. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 646 í C-deild Alþingistíðinda. (4834)

57. mál, hámarkslaun

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég þarf aðeins lítilsháttar að svara hv. flm. út af þessari seinni ræðu hans. Hann er að gera leik að því að flækja sig í einskonar neti, sem hann vefur í þessu máli. Hann talar um, að þessar tekjur muni verða 2,4 millj. í Reykjavík, en svo er sagt í grg.: „Hér verður engin tilraun gerð til að spá, hve miklu þessar tekjur myndu nema“. Það er sem sé í grg. ekki gerð nein tilraun til að áætla, hve mikið af þessum 2½ millj. kr. mundi koma með þessum skatti. Það er mikil ástæða til að halda - og má alveg ganga út frá því sem gefnu -, að mikill hluti þessarar upphæðar kæmi ekki þegar til framkvæmdanna drægi á þessu frv. Í grg. hv. flm. er ýmislegt, sem bendir í þessa átt. Ég veit ekki, hvoru á að treysta, því sem þar stendur, eða ræðu flm.

Hv. flm. lézt skilja mig svo, að ég hefði verið að finna að því, að frv. næði ekki til konunglegra embættismanna, en svo var ekki. Ég var bara að benda á það, að í frv. fælist alls ekki sú skoðun, sem virðist eiga nokkrar rætur með þjóðinni, og fundargerðir nokkurra þingmálafundargerða vitna um, að laun embættismanna séu of há. Það er fráleitt, að þessi skoðun liggi á bak við þetta frv., heldur alveg öfugt, því með því er slegið föstu, að 8 þús. kr. séu þurftarlaun, og þar sem engir embættismenn nema ráðherrar hafa svo há laun, er óbeinlínis sagt, að embættismenn hafi ekki þurftarlaun. Þetta frv. fer því alveg í öfuga átt við þær till., sem hv. flm. las upp úr þingmálafundargerðunum. Annars er mér ekki vel ljóst, hvers vegna ekki á að reikna til tekna hlunnindi þeirra, sem hafa 8 þús. kr. laun, hvort það er af því, að hv. flm. hafi þessar tekjur auk hlunninda, eða af einhverju öðru, en ekki virðist það ákvæði færa frv. nær skoðunum almennings. Hinsvegar tel ég, að skoðun almennings í þessu efni sé algerlega röng, laun embættismanna séu frekar of lág heldur en hitt. Almenningur mun ekki hafa fylgzt með því, að laun embættismanna hafi lækkað mikið hin síðari ár, ég hygg allt að því um 1/3 frá því þau voru hæst. En það er eins og þetta sé ekki komið inn í meðvitund almennings, þó dýrtíðaruppbótin hafi fallið úr 137% í 15%, eða m. ö. o. sé sama sem horfin. Allt þetta almenna tal um há laun embættismanna er því órökstutt og byggt á misskilningi.

Ég upplýsti í fyrri ræðu minni, að frv. næði ekki til bankaeftirlitsmannsins, því laun hans hafa lækkað á síðari árum niður fyrir 8 þús. kr. vegna ókunnugleika hv. flm. hefir hann því skotið hér hjá marki. Það kann að vera, hefði hann fylgzt betur með um þessi laun, að hann hefði við samningu frv. reynt að hitta þau, en eins og frv. liggur hér fyrir, má hann slá því alveg föstu, að það hefir ekki tekizt. Ef hitt er aftur á móti meining flm., að fara að innheimta skatt af tekjum manna á undanförnum árum, svo sem af 40 þús. kr. launum bankastjóra Íslandsbanka eða 16 þús. kr. launum bankaeftirlitsmannsins, þá hygg ég, að sú innheimta geti orðið erfið, auk þess sem frv. gerir ekki ráð fyrir því.

En þessar bollaleggingar hv. flm. staðfesta það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni, að frv. væri byggt á tekjum manna á undanförnum árum, en ekki á yfirstandandi tíma.