01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Hv. síðasti ræðumaður lýsti því svo, að ríkisstj. hefði svipt bændur á Suðurlandsundirlendinu 20 þús. kr. styrk, er samþ. var á síðasta þingi vegna þessara l. Þetta er ekki rétt, því ráðuneytið hefir enn enga ákvörðun tekið um það, hvernig þessari upphæð skuli verja. Saga þessa máls er sú, að málaleitun mun hafa komið bæði frá Flóabúinu og sýslumönnum Árnes- og Rangárvallasýslna, er telja sterkar líkur til, að sýslun. þar óski, að þessu fé verði varið til vegagerða þar. Ráðuneytið hefir enga ákvörðun um þetta tekið og mun ekki taka, nema í samráði við héraðsbúa þar. En þetta, ef svo reynist, sýnir, að þeir meta það mest að fá vegi sína bætta. Ég sé nú ekki öllu sterkari rök fyrir þessum skatti og því, hve mikil nauðsyn vegir eru umfram allt annað, en einmitt þessar málaleitanir.

Hv. þm. kvað þetta frv. hafa verið talið kreppuráðstöfun fyrst þegar það var borið fram. Vitanlega sagði ég og fleiri á þingi í fyrra, að nauðsynin væri meiri þá að taka þennan skatt í 1. en nokkru sinni áður, vegna árferðis. En þetta frv. hefir oft verið borið fram áður, þótt ekki næði samþ., og jafnan með þeim tilgangi, að það yrði frambúðarskattur.

Þá bar hv. þm. þennan skatt í okkar vegapólitík saman við járnbrautapólitík annara þjóða og það, að styrkur væri veittur víðast hvar af ríkisfé til járnbrautagerða. Ég hygg, að með þessum samanburði verði útkoman allgóð fyrir okkur Íslendinga. Því að það er tekið flutningsgjald á öllum járnbrautum, og þjóðunum þykir yfirleitt nóg, ef þær gefa stofnkostnað. Járnbrautirnar eiga svo að bera sig, og þær streitast við það í öllum löndum. (SvbH: En hvernig gengur sú streita?) Vitaskuld gengur það misjafnlega, enda koma fram raddir þar rétt eins og hér, gegn þeirri viðleitni að láta hlutina bera sig. Og þessi vegaskattur, sem hér er um að ræða, nemur ekki nema ca. helmingi af venjulegu vegaviðhaldi, svo að það þarf ekki að kvarta um það, Nei, um það verður ekki deilt, að svona skattur bætir sannarlega bæði fyrir þeim, sem í byggðum landsins búa, og þeim, sem búa í kaupstöðum. Ég vil nefna sem dæmi, hvað slíkur skattur hefir að segja, að á þremur síðustu árunum hefir benzíneyðslan á leiðinni frá Akureyri til Rvíkur orðið tvöfalt til þrefalt minni en fyrir þremur árum. Ætli benzínskatturinn fáist nú ekki þarna endurgreiddur? Það þarf því enginn að kvarta yfir raunverulegum útgjöldum.

Hv. 4. þm. Reykv. taldi mjög óeðlilegt að setja slíkan skatt og vegagerð í samband hvað við annað. En það er ófrávíkjanleg regla, að á móti auknum útgjöldum þurfi að koma auknar tekjur. Og útgjöldin til vega hafa farið svo gífurlega í vöxt síðan bifreiðanotkun tók að aukast, að það mátti til að fá auknar tekjur. Þegar árlegt viðhald er 450—600 þús. kr., þá þarf eitthvað á móti. Finnst þm. þá eðlilegra, að t. d. sé lagður aukinn skattur á skófatnað, af því að honum sé slitið á vegunum? Eða vill hv. þm. koma með till. um að ná þessum tekjum með beinum skatti, t. d. hátekjuskatti? Hlusta myndi ég á till. hans, en tel þó, að þessi nýja og mikla umferð bifreiðanna eigi að bera nokkuð af þessum aukna kostnaði, og þar er benzínið beztur mælikvarði. En komi aðrar till., má taka við þeim, því að það er ekki svo, að þessi skattur jafnist móti hinum gífurlega hækkuðu útgjöldum.

Um það, að stj. hafi lofað á síðasta þingi, að hér skyldi fara fram endurskoðun á frv., eins og það þá var afgreitt, þá er það að segja, að slíkt loforð var ekki gefið af mér. Að vísu heyrðust óánægjuraddir um frv., og eina ástæðan fyrir því, að ég gekk inn á, að l. væru bundin við eitt ár, var sú, að vafasamt var, hvort hægt væri að koma því fram með öðru móti. En endurskoðun á rækilega undirbúinni löggjöf eftir eins árs notkun kom ekki til greina. En það varð einkum togstreita um það, hvað mikið af þessum skatti skyldi til bæja og hvað mikið til sveita. Ég býst við, að þessi togstreita haldi áfram og hún hafi verið á bak við ræðu hv. þm. En að svo stöddu er stj. og vegamálastjóri sammála um það, að skatturinn eigi heldur að fara til þess að lengja vegina úti um landið heldur en í stutta og mjög dýra vegi í kaupstöðum. Annars hafa bæir fullt gagn af vegum úti um byggðir landsins. Vegirnir eru til sameiginlegs gagns fyrir kaupstaðina, hafnirnar og sveitirnar, sem þeir liggja um. Á það á að leggja aðaláherzlu nú um skeið, að byggja sem lengsta vegi, — sæmilega vandaða, en helzt ekki mjög dýra, — en ekki að svo stöddu að leggja tugi þúsunda í stutta, malbikaða vegaspotta.

Ég vona nú, að þetta frv. verði samþ. til frambúðar, án tímatakmarks. Ég skal geta þess, að það er rétt hjá hv. þm. N.-Ísf., að ég sagði af vangá, að hann gerði till. um, að skattur félli niður af lækna- og yfirsetukvennabifreiðum. Hann hefir aðeins gert till. um helmingslækkun.