06.03.1933
Efri deild: 17. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í C-deild Alþingistíðinda. (4862)

62. mál, niðurjöfnunarnefnd í Reykjavík

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Ég vil geta þess um 2. gr. frv., þar sem rætt er um kostnaðinn af niðurjöfnun útsvara, þá er það nú svo, þegar niðurjöfnunarnefnd og skattstofa jafna niður um 2½ millj. kr. á ári í útsvörum og tekju- og eignarskatti, sem nemur um 1 millj. kr., að þá ætti kostnaðurinn af skattstofunni að greiðast að hálfu úr bæjarsjóði og að hálfu frá ríkinu. Þessi skipting væri réttlát, vegna þess að það þarf jafnmikið undirbúningsstarf fyrir hvoratveggja þessa niðurjöfnun. Að öðru leyti vil ég geta þess, að í nágrannalöndum okkar munu bæjarstjórnum settar fastar reglur um niðurjöfnun útsvara, sem verður að hlíta, þó að þær séu rúmar. Ég efast um, að rétt sé að breyta til hér í Reykjavík um skipun niðurjöfnunarnefndar fyrr en settur yrði fastur skattstigi, svo rúmur sem nauðsyn heimtaði, og þá fyrir alla kaupstaði landsins.