06.03.1933
Efri deild: 17. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í C-deild Alþingistíðinda. (4865)

62. mál, niðurjöfnunarnefnd í Reykjavík

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Mín fáu ummæli bar ekki að skilja svo, að ég legði á móti því, að frv. verði vísað til 2. umr. og nefndar. Ég vildi geta þess af því að ég stóð upp, að mín ósk sem þm. um þetta mál er helzt sú, að n. skili aftur till. til þál. um bæjargjöld, veltuskatt og tekjuskatt, og væri svo lagt fyrir næsta þing frv. um fastar reglur í þeim efnum. Það er engin fyrirmynd, að niðurjöfnun fari eftir því, hvernig veltur um meiri hl. bæjarstjórnar, og að gerólíkar reglur séu hér í Rvík því, sem er í öðrum kaupstöðum. Mín skoðun er, að stefna beri að því, að samræmi verði um niðurjöfnunarreglur hvar sem er á landinu. Það er einn kostur, sem núv. fyrirkomulag hér í Rvík hefir, og hann er sá, að það skapast meira samræmi ár frá ári en ella mundi, af því að skattstjórinn er fastur maður í niðurjöfnunarnefnd. Þessu á ekki að breyta fyrr en ríkið setur fastar reglur um niðurjöfnun í sveitar- og bæjarfélögum, sem eru komin á það stig að geta fylgt slíkum reglum. Hv. 1. landsk. minntist á það, að hann og hv. 2. landsk. væru sammála um jöfnuð, og það er meðal annars vegna þess, að ég hygg, að jöfnuðurinn sé sæmilega tryggður með núverandi fyrirkomulagi, að ég hefi látið mig þetta mál nokkru skipta.