27.03.1933
Efri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 766 í C-deild Alþingistíðinda. (4869)

129. mál, verslunar- og siglingasamningar

Flm. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Efni þessa frv. er það, að setja í íslenzka löggjöf ákvæði um, að þær þjóðir, sem ekki láta Ísland njóta beztu kjara samkv. gildandi verzlunar- og siglingasamningum eða annara kjara, sem íslenzka stj. telur jafnhentug fyrir Ísland, skuli ekki sæta sömu kjörum sem hinar að því er snertir aðflutningsgjald og skipagjald. Þótt gildandi verzlunar- og siglingasamningar milli Íslands og annara ríkja muni allir geyma ákvæði, sem veita þeim þjóðum beztu kjör hér á landi, sem láta okkur njóta beztu kjara hjá sér, hafa þetta verið orðin tóm, vegna þess, að ekki eru til nein lög, sem ákveði, að aðrar þjóðir skuli njóta annara eða lakari kjara. Kann þetta að eiga fordæmi í annara þjóða löggjöf, en það mun þó tíðkast, að löggjöf þjóðanna geymi mismunandi taxta um tolla og gjöld, tvo eða fleiri, og gildir lægri eða lægsti taxtinn um þær þjóðir, sem veita á móti beztu kjör eða tilsvarandi ívilnanir hjá sér. Þetta lagaleysi gerir það að verkum, að afstaða okkar til að gera verzlunar- og siglingasamninga er miklu verri en hún á að vera, og kom þetta berlega í ljós nýverið, þegar við fundum ástæðu til að segja upp verzlunar- og siglingasamningum við eina af nágrannaþjóðum okkar, til þess þannig að öðlast sterkari aðstöðu til samninga við þessa þjóð um hagsmunamál okkur til handa á þessu sviði. Uppsögnin reyndist vindhöggið eitt, af því að eftir íslenzkum l. lá ekki annað fyrir en að þessi þjóð nyti hér sömu kjara og aðrar þjóðir áfram, enda þótt ekkert yrði af nýjum verzlunar- og siglingasamningum. Tel ég rétt, að úr þessu verði bætt, og hefi ég stungið upp á því, að þær þjóðir, sem ekki láta okkur njóta beztu kjara hjá sér eða annara jafnhagkvæmra fyrir okkur, skuli greiða hér þreföld aðflutningsgjöld og skipagjöld. Má um það deila, hvort ég hefi hitt á réttan mælikvarða eða mismun, en með tilliti til þess, að hér hjá okkur eru yfirleitt lægri innflutningsgjöld af fjölda vörutegunda en hjá öðrum þjóðum, einkum þó af öllum nauðsynjavörum, svo að þreföld gjöldin yrðu ekki há samanborið við tolltaxta annara þjóða, fannst mér ég ekki geta farið lægra en að setja þrefaldan taxta fyrir þær þjóðir, sem ekki láta okkur njóta góðra kjara hjá sér. Ég hefi ekki stungið upp á, að taxtarnir yrðu nema tveir, þótt þeir séu fleiri hjá ýmsum öðrum þjóðum og til séu þær kringumstæður, sem gerðu þetta æskilegt. Ég legg áherzluna á það, að rétt sé að setja í löggjöfina ákvæði um þetta efni. Ef íslenzka stj. lendir í erfiðleikum út af samningsleysi við aðrar þjóðir, má að vísu segja, að stj. geti gert þá bráðabirgðaráðstöfun að setja á refsigjöld gagnvart þeirri þjóð, sem í hlut ætti, en það vekur óþægilegar tilfinningar að þurfa að grípa til slíks, og getur á ýmsan hátt verið óheppilegt að þurfa að hafa í hótunum um að gera slíkt. Skapar það stj. betri aðstöðu, ef til eru almenn l. um þetta efni, sem ákveða, hver gjöld tækju við sjálfkrafa, eftir hæfilegan drátt, fyrir þær þjóðir, sem ekki fengjust til að gera við okkur verzlunar- og siglingasamninga á beztu kjara grundvellinum.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv. hér við 1. umr., ef ekki koma fram andmæli gegn því, en legg til, að frv. verði vísað til allshn.umr. lokinni, þar sem hér í d. er ekki um aðra n. að ræða í þessu sambandi. En ég teldi hinsvegar rétt, að utanríkismálan. þingsins tæki frv. jafnframt til athugunar, og ætti slíkt að geta orðið engu að síður.