06.03.1933
Efri deild: 17. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í C-deild Alþingistíðinda. (4870)

62. mál, niðurjöfnunarnefnd í Reykjavík

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég stóð upp vegna þess, að hæstv. forsrh. komst svo að orði, að fyrirkomulag það, sem nú væri á niðurjöfnun útsvara, væri demokratiskt. Þessi staðhæfing hæstv. ráðh. kemur mér nú talsvert kynlega fyrir sjónir. Og þar sem hv. 1. landsk. hefir nú notað sinn ræðutíma, vildi ég ekki láta þetta svo fram hjá fara, að ég gerði ekki við það örlitla aths. Ég skal þá benda á þann möguleika, sem óneitanlega er fyrir hendi og hefir meira að segja verið orðaður, þótt ólíklegt megi þykja, að í fullri alvöru hafi verið gert, að meiri hl. niðurjöfnunarn. neiti að jafna niður þeirri upphæð, eða jafnhárri upphæð og bæjarstjórnarmeirihl. er búinn að samþ., að jafna beri niður. Þetta má hugsa sér að geti komið fyrir, og hvað er þá orðið af lýðræðinu? Til hvaða sérstakra ráða á þá að grípa? Þetta hefir verið orðið og er alls ekki útilokað. Og þá verður vitanlega, ef slíkt kemur fyrir, að neyta óvenjulegra ráðstafana til að kippa þessu í liðinn. Meiri hl. niðurjöfnunarn. getur misbeitt valdi sínu gegn meiri hl. bæjarstjórnar, til þess í pólitískum tilgangi að hnekkja valdi hans. Og eftir því sem fram hefir farið um ýmsa hluti, þá er ekkert fjarskylt að hugsa sér, að þessu valdi verði beitt til pólitísks ávinnings.

Viðvíkjandi skiptingu á kostnaði milli skattstofu og niðurjöfnunarn. vil ég benda á það, að honum má ekki jafna á þær upphæðir, sem koma fram á hvorum stað, heldur eftir því hve mikil vinna er lögð í starf hvors um sig. Ef fulltrúar bæjarstj. í niðurjöfnunarn. reikna út öll útsvörin sjálfir, sem ég hygg, að sé, en skatturinn af starfsliði skattstofunnar, þá ber að taka fullt tillit til þess við skiptingu kostnaðarins.