27.03.1933
Efri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í C-deild Alþingistíðinda. (4871)

129. mál, verslunar- og siglingasamningar

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég vil taka vel undir meginhugsun þessa frv., sem er sú, að fá ríkisstj. vald í hendur til að mæta ráðstöfunum annara þjóða vegna viðskiptanna við okkur. - Í mörgum löndum hefir á síðustu árum verið sett löggjöf um aukna tolla og codaheimildir, sem ríkisstj. geta beitt hver gegn annari, þegar þær telja slíkt nauðsynlegt vegna viðskiptamálanna. Í okkar löggjöf vantar öll slík ákvæði, og er sjálfsagt, eins og viðskiptunum nú er háttað, að bæta úr þessu. Hafði ég í þessu efni hugsað mér, að stj. væri veitt heimild til að leggja 100% hærri toll á aðfluttar vörur, þegar hún teldi ástæðu til slíks. Að setja coda kemur ekki að sama gagni fyrir okkur, enda er það venja, þegar slík l. eru sett, að framkvæmdarvaldið sé ekki bundið að þessu leyti, heldur sé þetta í heimildarformi og undir dómi stj. á hverjum tíma, hvernig og hvenær heimildina skuli nota. Í frv. er settur frestur fyrir því, að hin lögbundnu refsiákvæði gangi í gildi, sem yrðu eftir frv., en sá frestur þyrfti að vera lengri en hann er ákveðinn í frv., ef þessi leið verður farin, sem ég tel ekki heppilegt, enda kemur að sama gagni að láta það vera undir dómi framkvæmdarvaldsins, hvernig og hvenær þessu er beitt.

Eins og hv. flm. réttilega tók fram, heyrir þetta mál eftir eðli sínu undir utanríkismálanefnd, en þótt ekki sé hægt vegna þingskapanna að vísa málinu þangað, tel ég þó sjálfsagt, að utanríkismálanefnd verði látin fjalla um málið, og mun ég eiga nánara tal við hana um það.