08.03.1933
Efri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í C-deild Alþingistíðinda. (4889)

63. mál, tóbaksvörugerð

Flm. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Tilgangurinn með þessu litla frv. er að reyna að koma hreyfingu á það mál, að nokkuð af þeirri vinnu, sem gengur til framleiðslu á tóbaksvörum þeim, sem seldar eru í landinu, geti fallið til innlendra manna. En það getur því aðeins orðið, að komið verði á stofn hér á landi iðnaðarfyrirtæki til framleiðslu á þessum vörum. Nú er svo högum háttað hér á landi eins og víða annarsstaðar, að það er sérstök nauðsyn að halda til landsmanna sjálfra þeirri atvinnu, sem unnt er, og ég hugsa, að hvað tóbaksvörugerð snertir höfum við algerlega sérstöðu nú sem stendur, þar sem ekki er nokkurn skapaðan hlut unnið að slíkum iðnaði í landinu sjálfu, en varningurinn þó töluvert notaður. Alstaðar annarsstaðar, þar sem ég þekki til, fylgist notkun þessara vara og framleiðsla þeirra að í löndunum, og neyzluþörfum landsmanna að meira eða minna leyti fullnægt. Nú er svo ástatt hér, að verzlun með tóbaksvörur er í höndum einkasölustofnunar, sem ríkið rekur. Af því leiðir, að útilokað er, að tóbaksvörugerð geti komizt á hér á landi nema með alveg sérstaklega náinni samvinnu við einkasölu ríkisins á tóbaksvörum. Mætti hugsa sér þetta framkvæmt þannig, að ríkissjóður eða einkasalan sjálf setti á stofn iðnaðarfyrirtæki í þessari grein og ræki það sem einn hluta starfsemi sinnar. Ég hefi þó ekki viljað stinga upp á þessu, fyrst og fremst vegna þess, að nokkurt stofnfé þarf að leggja í þetta, en ríkissjóður mun ekki vera aflögufær til slíkra útgjalda eins og nú standa sakir. Hinsvegar er ekki nauðsynlegt, að stofnfé slíks fyrirtækis sé að öllu leyti eign ríkissjóðs. Til þess að brjóta ekki í bága við gildandi ákvæði um einkasölu ríkisins á tóbaki, er aðeins nauðsynlegt að gera samning mill iðnaðarfyrirtækisins annarsvegar og einkasölunnar hinsvegar um það, að tóbakseinkasalan leggi iðnaðarfyrirtækinu til það hráefni, sem hún ein hefir rétt til að flytja til landsins, og kaupa svo aftur af iðnaðinum þær tóbaksvörur, sem einkasalan ein hefir rétt til að hafa í heildsölu hér á landi. - Ég geri ráð fyrir því í frv., að stj., sem gengist fyrir því að koma slíku fyrirtæki á stofn, hefði heimild til þess að útvega stofnfé til fyrirtækisins með almennum hlutaútboðum innanlands að því leyti sem þyrfti jafnframt heimild til þess að einkasalan leggi fram fé til þessa. Þó hefi ég ekki álitið rétt að setja nein takmörk fyrir þessu í frv. Það er aukaatriði fyrir mér, hvaðan féð er fengið, en aðalatriðið, að fyrirtækið komist á fót, til þess að hæfilega mikill hluti af vinnu við þessa framleiðslu geti færzt í hendur innlendra manna. Ég hefi í frv. stungið upp á því, að ákveðið yrði, að á öðru rekstrarári skyldi einkasalan kaupa ekki minna en ¼ hluta allra innkaupa sinna af vindlum og vindlingum af þessu innlenda fyrirtæki. Hækki þetta svo upp í helming eigi síðar en á fimmta rekstrarári. Auðvitað er álitamál um hlutföllin og tímatakmörkin, en ég áleit þó rétt að taka ákvæði um þetta í frv., til þess að gera það ljóst frá upphafi, hvaða stærð þyrfti að ætla fyrirtækinu, og þar af ákvarðast svo fjármagnið, sem þarf, og atvinnuvonirnar, sem gera má sér í sambandi við það. Af minni hálfu er frv. fyrst og fremst atvinnubótafrv.

Það er svo um þennan iðnað, að atvinnu við hann getur notið ýmiskonar starfsfólk, sem ekki er fallið til allrar erfiðrar stritvinnu. Og það er ekki síður vöntun á atvinnu fyrir slíkt fólk. - Ég tel fyrir mitt leyti ekki ástæðu til að ræða einstök atriði frv. við þessa umr. og leyfi mér að óska þess, að frv. gangi að þessari umr. lokinni til 2. umr. og iðnn.