01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Magnús Jónsson:

Hæstv. forsrh. sagðist ekki hafa gefið loforð um, að lög þessi yrðu endurskoðuð, og vildi ekki setja neitt slíkt ákvæði í lögin. Það, sem ég fór eftir, stendur skýrum stöfum í ástæðunum fyrir stjfrv. Þar segir svo: „Lög nr. 84, 6. júlí 1932 um bifreiðaskatt gilda aðeins til ársloka 1933. Var ákvæði þetta sett í lögin til þess að tryggja það, að þau yrðu endurskoðuð á Alþingi 1933“. Þessa ástæðu tel ég fyrir hendi enn, að endurskoða þurfi l., og því sé sjálfsagt að tímabinda þau. Það er alveg rétt, að hægt er að afnema 1. þó að þau séu ekki tímabundin, en munurinn er sá, að séu þau tímabundin, þá er stj. neydd til þess að leggja þau fyrir þingið, áður en tími sá, sem þau gilda, er útrunninn.

Ég skal ekki eyða tíma í að karpa um þann skoðanamun, sem virðist vera á milli mín og hæstv. forsrh. um það, hvort rétt sé að leggja sérstaka skatta á í ákveðnum tilgangi. Það er eins og sumir menn virðist trúa því, að ef hægt er að leggja á sérstaka skatta til fastákveðinna hluta, þá komi þeir ekkert við bak landsmanna. Séu ókeypis. Þessari skoðun vil ég mótmæla. Ég tel, að greiða eigi öll hin opinberu gjöld af hinum almennu sköttum, og sé það rétt að greiða gjald af bifreiðum til viðhalds vega, þá eiga hinir almennu skattar að lækka að sama skapi.

Ég get vel skilið, að stj. vilji halda í þennan skatt eins og nú standa sakir, en hitt get ég ekki viðurkennt, að vegirnir eigi að standa undir sér sjálfir.

Þá sagði hæstv. ráðh., að nú þyrftu bifreiðar 1/3—½ minna benzín milli Akureyrar og Rvíkur en fyrir nokkrum árum. Ég get vel trúað, að hæstv. ráðh. hafi aflað sér ábyggilegra upplýsinga um þetta hjá kunnugum mönnum, og þetta sé því rétt. En þá verð ég að segja það, að ef þessar ferðir eru svo þarfar, að verja beri til þeirra fleiri hundruðum þús., þá eigi fargjöldin að lækka eftir því sem vegirnir eru bættir meir og ferðirnar verða ódýrari.

Mér þykir ekkert einkennilegt þó að sumir háttv. þm. vilji ekki láta smábáta og traktora greiða skatt til vegaviðhalds, og vilji því fá endurgreiðslur á þeim tolli, sem lagður er á benzín það, er þeir nota. En hitt furðar mig, að þeir sömu menn skuli þá ekki geta verið með því að undanþiggja þær bifreiðar benzínskattinum, sem aldrei koma á vegakerfi landsins, en svo er ástatt um hundruð bifreiða á landinu, og m. a. fjölda bifreiða hér í Rvík. Það er því eins ósanngjarnt að skattleggja þær til viðhalds vega eins og traktora og báta.

Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um frv. þetta, því að ég býst við, að afgreiðsla þess sé þegar ráðin hér í hv. d.