08.03.1933
Efri deild: 19. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í C-deild Alþingistíðinda. (4905)

74. mál, eignarnámsheimild á ábúðar- og erfðafesturétti

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að fara að karpa um vitsmuni okkar hv. 5. landsk., en sýna aðeins í fáum orðum ókunnugleik og fávizku þessa hv. þm. í þessu máli. Það ræktanlega land, sem hér hefir verið rætt um, er alls ekki land það, sem hv. þm. hefir verið að bjóða Hafnarfirði upp á. Svo er nefnil. mál með vexti, að þegar Hafnarfirði var skipt úr Garðalandi, átti beitilandið að vera sameiginlegt. En seinna, að mig minnir í tíð séra Jens Pálssonar, fóru svo Hafnfirðingar fram á að fá sérstakt beitiland, og þá varð það úr, að kirkjujarðasjóður seldi þeim land fyrir 60 þús. kr. Út af þessu varð svo óánægja meðal Garðhverfinga.

Þá eru það ósannindi, sem hv. þm. vildi halda fram, að sonur bóndans á Hvaleyri fengi ekki land það, er hann var að biðja um. Málaleitun hans verður aðeins að ganga á milli réttra aðila. Ég átti í gær tal við bæjarstjórann, og tjáði hann mér, að málið væri ekki útrætt enn.

Að bændur í Garðahverfi hefðu ekki getað byggt upp á kotum sínum fyrr en skiptin á hinu umrædda Garðalandi hefðu farið fram, er blátt áfram helber vitleysa. Þeir hafa hreint og beint ekki byggt upp á einu einasta koti síðan.

Út af ummælum hv. þm. um þennan 50 ára samning, sem hann segir, að gerður hafi verið við Flygenringsættina um Hvaleyrarlandið, vil ég geta þess til upplýsingar, að þegar Ingólfur Flygenring hætti að búa á Hvaleyri, framseldi hann samninginn, með alveg sömu kjörum og hann hafði öðlazt hann, fátækum og fötluðum fjölskyldumanni. Manni, sem nær er handarvana og á því erfitt með að vinna fyrir sínum stóra barnahóp. Ingólfur gerði því stórt drengskaparbragð, sem hann eða ætt hans á sízt skilið niðrun fyrir. En það er eins og vant er hjá hv. 5. landsk., þegar hann kemst í röksemdaþrot, þá bara níðir hann og svívirðir andstæðinga sína, kallar þá fífl og asna og annað því líkt. Slík rök eru að sjálfsögðu léttvæg hjá heiðarlegum mönnum, þó að þau séu þessum þm. samboðin.