01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (491)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Ég vil nota hina stuttu aths. til þess að þakka háttv. frsm. meiri hl. fjhn. fyrir það, að hann í síðustu ræðu sinni gekk inn á till. okkar (BSt: Ekki rétt). Hann sagði, að sín skoðun væri sú, að endurgreiða ætti skatt af öllu benzíni, sem ekki væri notað til bifreiða. En því miður liggur ekki fyrir till. um það, en till. okkar gengur lengst í þá átt, og því vænti ég, að háttv. frs.m. skoði ekki lengi huga sinn um að greiða henni atkv. Fyrir þetta þakka ég háttv. frsm.

Þá vil ég benda á, að meginhluti þess benzíns, sem ekki er notað til bifreiða, er notað af trillubátum, og mun algengast, að bátarnir noti frá 300—400 1., því að benzínið nota þeir aðeins til þess að koma vélunum í gang, en að öðru leyti nota þeir steinolíu. Með till. okkar myndu þeir því fá að mestu leyti endurgreiddan skattinn, en með samþykkt frv. eða till. háttv. fjhn. yrðu bátar þessir að greiða til viðhalds vegum í landinu. Ég vænti því að háttv. dm. geti tekið undir ummæli háttv. frsm. fjhn. og fylgi brtt. okkar.