28.04.1933
Efri deild: 58. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 781 í C-deild Alþingistíðinda. (4914)

171. mál, innflutningur á kjarnfóðri o.fl.

Jón Þorláksson:

Hæstv. atvmrh. gaf þá upplýsingu, að fyrir sér vekti, a. m. k. að einhverju leyti, að koma á framfæri fóðurblöndu úr síldarmjöli. (Atvmrh.: Ég gat þess í minni fyrri ræðu). Og hann sagði, að hún hefði reynzt eins vel og útlent fóður, og nefndi þar til olíukökur. Það er ekkert við það að athuga, þó að stj. vilji fá heimild til að koma slíkri blöndu sérstaklega á framfæri, en ég verð að vera fastur á því, að það má ekki hindra þá, sem geta ekki fengið slíka blöndu, frá því að fá aðrar fóðurtegundir, því að það getur staðið misjafnlega á fyrir mönnum, hvers þeir þurfa til að bæta upp það fóður, sem þeir hafa fyrir. Ég hefi mikla trú á allri upplýsingastarfsemi frá forstöðumönnum landbúnaðarins, en megna ótrú á því, að stj. taki fram fyrir hendurnar á mönnum um að banna innflutning til landsins á því, sem menn telja sér hentugast að fá. Hæstv. ráðh. sagði, að skaðlaust væri að ýta undir menn með að auka heyfeng sinn. Þetta er rétt, en einmitt þeim, sem eru að auka heyfeng sinn, er einna mest þörf á að fá að vera frjálsir í vali á kjarnfóðri. Þar á ég við þá menn, sem eru að auka sitt ræktaða land. Þeir eru oft af ýmsum ástæðum knúðir til að hafa stærra bú en land þeirra ber á meðan það er að komast í ræktun. Kjarnfóðurskaupin eru þannig hjá fjölda manna ekki eingöngu til þess að framleiða þá innlendu vöru, mjólkina, heldur eru þau líka eitt skilyrðið til, að þeir geti fullræktað land sitt. Þeir þurfa að hafa það stórt bú, að þeir geti framfleytt öllu, meðan jarðræktunin er að komast í kring, fyrir utan það áburðarhagræði, sem af því stafar.

Það má því ekki líta svo á, að hér sé eingöngu að ræða um samkeppni milli heyfóðurs og erlends kjarnfóðurs, heldur er kjarnfóðrið nauðsynleg hjálp til þess að heyaflinn komist á hærra stig.

Ég geri ekki mikið úr þessu atriði sem gjaldeyrisráðstöfun, því að ef framleiðendurnir hafa hag af því að kaupa það erlenda kjarnfóður, þá kemur þar fram meira verðmæti en sem kjarnfóðurskaupunum nemur. Það er ekki rétt hugsað, að við getum ekki að einhverju leyti farið hér að dæmi langfremstu landbúnaðarþjóðarinnar í heiminum, sem hefir drifið búnað sinn upp á mjög hátt stig með því að stækka búin og auka framleiðsluna með kaupum á aðfluttu fóðri. Ég á hér við Dani, sem eru nú komnir lengst allra þjóða í landbúnaði. Þeirra landbúnaður er í raun og veru orðinn iðnaður, sem byggist á aðfluttum erlendum hráefnum. Þeir hafa kunnað að fá velsæmi í búnaði lands síns á þennan hátt. Ég játa, að við stöndum á öðru stigi, þar sem við eigum nú mikið ónotað ræktanlegt land, en þar kemur þetta, sem ég áður minntist á, að fyrir þá einstaklinga, sem eru að rækta land sitt, eru einmitt kjarnfóðurskaupin nauðsynlegust, meðan þeir eru að koma ræktun sinni á.

Þá vill hæstv. ráðh. mótmæla því, að þessi ákvæði séu öfug hallærisráðstöfun, af því að undanþágur verði veittar, ef harðæri vofi yfir. En hvenær yrði það gert nógu snemma? Það er ekki auglýst í útvarpinu mánuði fyrirfram, hvenær harðæri skelli á. Ég hefi alltaf verið ákaflega andvígur öllum ráðstöfunum, sem brjóta upp á að hindra aðflutning á kjarnfóðri eða annari fóðurvöru til þessa lands. Mér er í of fersku minni, þó að það sé aðeins bernskuminning, þegar sá landshluti, sem ég ólst upp í, leið skort ár eftir ár vegna þess, að þessar útlendu vörur voru ekki fáanlegar á landinu, þegar vetur varaði lengur en almennt gerðist og menn höfðu búizt við.

Þá sagði hæstv. ráðh., að reynslan frá 1920 hvetti menn ekki til þess að halda lífinu í búfé sínu á fóðurbætiskaupum. En hér skjátlast hæstv. ráðh. alveg. Reynslan frá 1920 sannar ekkert um þetta. Hún sýnir aðeins, hvernig fer, þegar svo stendur á um peningamál og vöruverð og þá var. Þá stóð nefnilega svo á, að vöruverð hafði farið hækkandi, fyrst í 4 stríðsár, sem menn höfðu búizt við, og svo í 2 friðarár, sem kom mönnum á óvart og gerði menn bjartsýna á, að þetta háa verð héldi áfram. Því var það, að haustið 1919, þegar verðið var mjög hátt, þá lóguðu menn almennt miklu minna en þeir hefðu átt að gera. Svo kom veturinn, sem varð svo harður, að menn urðu að kaupa mikið af fóðurbæti til að framfleyta búfé sínu, og þá voru útlendar vörur í því hæsta verði, sem þær hafa nokkurn tíma komizt í. Sú verðhækkun hélt áfram þar til í byrjun sumarsins 1920. Þá kom það mesta verðhrun, sem nokkurntíma hefir komið, ennþá stórkostlegra en það verðhrun, sem núv. kreppa er samfara. Haustið 1920 voru því innlendar afurðir komnar niður í skítinn - ef svo mætti segja -, samanborið við það, sem var vorið 1920. Svo þegar haustið 1920 fékkst ekki nema svo afarlítið fyrir afurðirnar, þá kom það fram, að kjarnfóðurskaupin frá síðasta vetri höfðu ekki borgað sig. Hitt væri skakkt, ef af þessu ætti að draga þá almennu ályktun, að það borgi sig alls ekki fyrir bændur að kaupa kjarnfóður í harðæri. Ég hygg, að þessi kaup hefðu borgað sig undir stöðugu verðlagi, og stöðugt verðlag er það, sem menn gera venjulega ráð fyrir. Menn búast a. m. k. ekki við eins óskaplegu verðfalli og því, sem varð árið 1920, og þetta veit ég, að hæstv. ráðh. sannfærir sig um við nánari athugun þessara mála.