01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (492)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Sveinbjörn Högnason:

Ég vil nota aths. mína til þess að svara hæstv. forsrh. Hann gat þess, að komið hefði til stjórnarráðsins málaleitun að austan, þar sem farið væri fram á, að þeim 20 þús. kr., sem veittar eru í núgildandi fjárl. til þess að létta undir með flutningum þaðan, væri varið til vegagerða. Ég þori nú að fullyrða, að þessar óskir eru ekki almennar þar eystra, og ég býst við, að fáum sé kunnugra um það en mér, því að ég hefi kynnt mér þetta mál töluvert, m. a. hjá samvinnufélögum þeim, sem þar eru starfandi o. fl. Mun því Mjólkurbú Flóamanna, eða stjórn þess, hafa breytt um skoðun skjótlega, ef sú er ósk þess nú, og vera nær eitt um það að vilja fá fé þetta til vegagerða. Annars sé ég engan mismun á því, hvort við fáum þessar þúsundir í styrk, eða að upphæðin sé tekin upp í fjárl. beint til vegagerða, ef nota á féð til þeirra hluta hvort sem er. Það kemur alveg jafnþungt niður á atvinnurekstrinum hvor leiðin, sem farin er. Flutningarnir verða bændunum jafntilfinnanlegir.

Þá hélt hæstv. ráðh. því fram, að benzínskatturinn kæmi aftur til hagsbóta almenningi í bættum vegum og greiðari samgöngum. Þetta má vel vera, en hvaða skattur er það, sem á er lagður og ekki kemur aftur í einhverri mynd? Hann er ekki til. Það er hið algilda lögmál um alla skatta, að þeir koma aftur til þegnanna í umbótum á ýmsum sviðum. Hér er því um ekkert annað að ræða en það lögmál, sem gildir um alla skattalöggjöf, hvernig sem hún er.

Háttv. frsm. fjhn. vildi mótmæla því, að frv. þetta hefði verið borið fram í fyrra sem kreppuráðstöfun, og að þingið hefði samþ. það sem kreppuráðstöfun, og því til sönnunar vildi hann færa það, að frv. hefði verið borið fram oft áður í þinginu. Að búið var að bera frv. oft fram í þinginu áður en það náði samþ. þess, sýnir bezt, að hér var um kreppuráðstöfun að ræða. Því fyrst þegar kreppan sverfur alvarlega að, er talið forsvaranlegt að samþ. það. Alþingi í fyrra hefir því beinlínis skoðað skatt þennan sem kreppuskatt. — Það hefir verið dregið hér í efa, hvort flutningar með bifreiðum hafi yfirleitt hækkað síðan skattur þessi var lagður á. Ef svo væri, að bifreiðaeigendur gætu rekið flutningana fyrir sama gjald og áður en benzínskatturinn var lagður á, þá er það sönnun þess, að flutningarnir hefðu getað lækkað, og á því hefðu bændur almennt haft fulla þörf.

Háttv. þm. N.-Ísf. sagði, að mjólkurflutningarnir með Djúpbátnum væru 12 aur. á lítra, en þá ber þess að gæta, að þá er mjólkin komin á markaðsstaðinn. En í dæminu, sem ég tók, þá er hún aðeins komin á vinnslustaðinn. Eftir er flutningskostnaður austan yfir Hellisheiði til Rvíkur. Er þetta tvennt því ekkert sambærilegt. Ég vænti nú, að allir háttv. þm. viðurkenni, hversu mjög það er óréttlátt að leggja þennan þunga skatt á flutninga á nauðsynjavörum manna og létti honum því af. Eða þá a. m. k. lofi því, að hann skuli ekki standa lengur en brýn nauðsyn krefur.