03.05.1933
Efri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 792 í C-deild Alþingistíðinda. (4931)

171. mál, innflutningur á kjarnfóðri o.fl.

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Það hefir nú verið kveðinn allmikill dómur - líklega dauðadómur - yfir þessu frv. En þar sem það er ekki dæmalaust, að aths. séu gerðar við dóma, þá ætla ég að leyfa mér að gera nokkrar aths. við þennan dóm. Mér heyrðist, að í hinu langa máli, sem upp var lesið, væri það dregið í efa, að hin miklu kjarnfóðurkaup frá útlöndum gætu framleitt eins mikla mjólk og áætlun er gerð um í grg. frv. En sé svo, þá verður líka gagnið af kjarnfóðurkaupunum miklu minna en þar er ráð fyrir gert. Ég held ég hafi heyrt það rétt, að í hinu upplesna bréfi sé sagt, að innflutta kjarnfóðrið geti ekki gefið meira en 800 þús. lítra mjólkur. Yrði þá kraftfóðurgjöfin fyrir hvern lítra mjólkur um 40 aurar. Ef þetta er borið saman við það verð, sem bændur hér við Reykjavík fá fyrir mjólk sína - og hér er þó markaðurinn langbeztur -, þá skýtur nokkuð skökku við um forsendurnar fyrir þeim dómi, að innflutningur kjarnfóðurs sé arðvænlegur. Þær fara a. m. k. að verða nokkuð óljósar.

Þá hjó ég eftir því, að í þessum dómi, sem felldur er af þeim manni, sem bezt vit hefir á þessum málum á öllu landinu, að dómi hv. 4. landsk., er komizt svo að orði, að kýr geti ekki mjólkað yfir 3000 kg., nema hún fái fóðurbæti. En þarf sá fóðurbætir endilega að vera útlendur? Ég hefi sjálfur átt kú, sem fékk töðu og mjólkaði þó 4300 lítra. Hún fékk engan erlendan fóðurbæti, aðeins lítið eitt af soðinni síld. Ég verð að trúa eigin reynslu eins vel og bréfinu, sem lesið var upp. Þá var það annað atriði í bréfinu, sem ég hjó eftir, og það var, að kolvetnisfóður væri ekki til í landinu. Ég veit nú ekki betur en að í t. d. rófum séu mikil kolvetni. Og ég hygg, að engin ræktun borgi sig betur en garðávextir, sem eru einmitt ríkir af kolvetnum. Þar sem kartöflur eru ræktaðar til sölu, þá er svo, að ekki er seljanlegt nema það stærra úr þeim. Eftir verður þá smælkið, og er því ekki á annan hátt betur varið en til kúafóðurs. Fæst þá þar kolvetnisríkt fóður til uppbótar öðru fóðri. Ef mikið væri ræktað af kálmeti, mætti fá álitlegan viðbótarskerf af kolvetnum, ekki sízt ef ræktun hnúðkáls gefst vel. - Jafnvel þótt bréf það, sem lesið var upp, sé frá fróðum manni um þessi efni, þá get ég ekki að því gert, að ég efast um réttmæti ýmsra atriða, sem þar er frá sagt.

Það vill nú svo til, að þetta frv., sem er samið af einum hinum merkasta bónda í Sjálfstæðisfl., hinum eina bónda í þeim flokki, sem sæti á á þingi, er gert í samráði við annan búnaðarmálastjóra og ræktunarráðunaut Búnaðarfél. Íslands. Ég vil byggja töluvert mikið á þessum mæta bónda og þingmanni, og miklu meira en sá hv. þm., er síðast talaði, vildi gera.

Það verður aldrei nógsamlega brýnt fyrir mönnum á þessum tímum að búa sem mest að sínu, líka með því að auka heyfeng sinn og nota innlendan fóðurbæti. Þótt hægt sé að fá góða útkomu með erlendan fóðurbæti í nokkra mánuði, þá held ég, að menn taki það ekki með í reikninginn, hve vanhöld eru miklu meiri í þeim kúm, sem fá lítið hey og mikið kjarnfóður, en hinum, sem lifa á innlendu grasfóðri. Ég hefi ekki skýrslur um þetta, en hygg, að öllum, sem fengizt hafa við kúarækt, bæði í sveitum og kaupstöðum, sé kunnugt um þennan mun. Margir, sem ekki hafa þekkt vanhöld í kúm í sveitum, hafa reynt, að við sjávarsíðuna hafa vanhöldin gleypt verulegan hluta af gróðanum. Skepnunni er eðlilegast, að hún sé sem mest fóðruð á því sama fóðri, sem kynstofninn hefir frá öndverðu lifað á. Ef vélar eru yfirkeyrðar, kemur það fram á endingunni. Töluverð ástæða er til að ætla, að svipað gildi um skepnurnar. Ég hefi ekkert á móti því, að fóðurbætir sé notaður til uppbótar. En það þarf ekki endilega að vera erlendur fóðurbætir. Ég treysti því, að finna megi blöndu af innlendum og erlendum fóðurbæti, sem jafnist fyllilega á við hinn erlenda eintóman. Ef frv. þetta verður að lögum, mun ég styðjast við niðurstöðu rannsókna á þessum efnum og geri ráð fyrir, að ekki verði um bann að ræða, heldur aðeins takmarkanir.