03.05.1933
Efri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í C-deild Alþingistíðinda. (4932)

171. mál, innflutningur á kjarnfóðri o.fl.

Pétur Magnússon:

Mér fannst það ganga nærri hártogun hjá hæstv. atvmrh., þegar hann sagði, að eftir útreikningi ráðunautsins ætti mjólkurlítrinn að kosta 40 aura með erlendu kjarnfóðri. Ráðunauturinn segir í bréfi sínu: „en ættu kýrnar líka að lifa á þessu fóðri, mundi ekki vera hægt að framleiða á því meiri mjólk en 800 þús. lítra mjólkur“. Ég efast ekki um, að þetta sé rétt. En ég held, að hæstv. atvmrh. geti ekki bent á nein dæmi þess, að nokkur bóndi hafi látið kýr sínar lifa á erlendu kjarnfóðri einu saman, enda mun það tæpast mögulegt til lengdar.

En ráðunauturinn segir ennfremur, að ef fóðurbætirinn væri gefinn sem viðbótarfóður kúm, sem hafa nægilegt viðhaldsfóður, myndi það nægja til að framleiða 3,5 millj. lítra mjólkur, og mundi sú viðbót þá ekki kosta meira en 9-10 aura á lítra.

Hæstv. ráðh. má vita, að bændum í nágrenni Reykjavíkur þykir gott að geta framleitt mjólk fyrir 9 aura lítrann. Þeir munu fá um 25 aura fyrir hann, svo að hagnaðurinn verður 15-16 aura á lítra, og má það teljast góður hagnaður.

Ég tel það virðingarvert af ráðunautnum, að hann skuli hafa leiðrétt firrurnar í grg. frv. Það kemur fram í grg., að fóðurbætir fyrir rúmar 300 þús. kr. nægi til að framleiða mjólk, sem nemur allt að 6 millj. lítrum. Ef þetta væri svo, liggur í augum uppi, hve ótvíræður hagur væri að því að nota erlendan fóðurbæti. En þetta er auðvitað hreinasta fjarstæða og sýnir, hvernig höfundarnir komast í mótsögn við sig sjálfa, er þeir vilja láta banna innflutning á fóðurbæti.

En aðalröksemdir ráðunautsins eru þó í þeim útreikningi, er sýnir hlutföllin í prósentum milli viðhaldsfóðurs og afurðafóðurs. Þær tölur sýna, að því nythærri sem kýrin er, því meiri þörf er henni á kjarnfóðri. Þetta verður ekki hrakið. Ég þekki að vísu dæmi þess, að kýr hafa mjólkað yfir 3000 lítra, þótt þeim hafi ekki verið gefið kjarnfóður. En það eru undantekningar, sem á engan hátt afsanna regluna.

Um vanhöld vegna kjarnfóðurs er ég ekki bær að dæma, en ráðunautnum hefir ekki þótt ástæða til að geta þeirra, enda ætla ég, að þau séu ekki jafnmikil og hæstv. ráðh. vildi telja þau, ef fóðurbætirinn er gefinn með skynsemd.