03.05.1933
Efri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 796 í C-deild Alþingistíðinda. (4935)

171. mál, innflutningur á kjarnfóðri o.fl.

Jón Þorláksson:

Allir, sem rætt hafa um 1. gr. frv., viðurkenna, að hún er ótímabær. Jafnvel hv. 3. landsk., sem þó vildi taka mjúkum höndum á frv., var ákveðinn í þeim ummælum sínum, að stj. yrði að beita heimildarákvæðum þeirrar greinar með mikilli varúð. Þar með er viðurkennt, að hér sé stj. fengið vald í hendur, sem geti orðið til skaða. Og jafnframt liggur í greininni sú vantraustsyfirlýsing á bændur, að löggjafinn telji þá óhæfa til að dæma um sitt eigið gagn. Hæstv. atvmrh. talaði um, að engin hætta væri á því, að stj. misbeitti heimildinni. Ég held, að ekki sé óhætt að treysta því. Þessi ráðstöfun tekur aðeins til nokkurs hluta bænda, en öðrum hluta þeirra yrðu þessar aðgerðir ef til vill til stundarhagnaðar. Úr þessu yrði því hagsmunaárekstur. Annarsvegar væru einkum smábændur kringum þorp og bæi, sem stunda ræktunarbúskap. En hinsvegar bændur í dreifðum byggðum, sem hefðu gamalræktuð tún og þyrftu því síður eða ekki fóðurbæti. Það er því vel hægt að beita þessari heimild af ráðnum hug gegn búskap í bæjum og þorpum, svo að mjólkursala hinna batnaði eitthvað. Ég vil ekki leggja þá heimild í hendur nokkurrar stj., að hún geti lagt hömlur á eðlilega rás búnaðarins, sem á síðari árum hefir verið örust kringum bæi og þorp. Menn verða að sætta sig við, að aukningin á hverjum tíma leiti þangað, sem skilyrðin eru bezt. En við bæi og þorp eru þau að miklu leyti bundin við notkun kjarnfóðurs. Ég held, að hæstv. ráðh. geti enga tryggingu gefið þessu smábýlafólki fyrir því, að stj. misbeiti ekki þessari heimild.

Þetta fólk hefir ástæðu til að vera á verði, því fremur sem löggjafarvaldið hefir litla rækt lagt við það og stj. ekki efnt við það gefin loforð. Ég á hér við loforðið um smábýladeild Búnaðarbankans, sem er óstofnuð enn.

1. gr. er því varhugaverð og byggð á þeim misskilningi, að torvelt verði að fá menn til að nota innlent kjarnfóður frekar en erlent, ef kostur er á því og rannsóknir hafa sýnt, að það sé eins hagkvæmt. En það er fullkominn misskilningur að gera ráð fyrir slíku í löggjöfinni. Líklegasta leiðin til að vinna innlendri vöru útbreiðslu er fyrst og fremst sú, að framleiða hana, sem lítið hefir verið gert að, þótt nú sé talað um fóðurblöndu, og útbreiða síðan þessa framleiðslu, eins og við sjáum nú gert í íslenzku vikunni.

Ég get ekki leitt hjá mér að minnast á það, að undir eins og stj. hefir fengið þessa heimild, yrði það til þess, að þessar vörur yrðu lagðar í höft, hversu lítil breyting sem á yrði. En kaupstaða- og þorpsbúar eru orðnir svo leiðir á hverskonar höftum af hálfu hins opinbera, að slíkt er ekki gerandi að nauðsynjalausu, eins og hér. Ég álít, að hver stj. ætti að kappkosta að stjórna landinu á þann hátt, sem fólkinu er geðfelldastur, meðan það rekur sig ekki á réttmæta hagsmuni. Og ég held, að kaup á gripafóðri geti ekki rekið sig á almenna hagsmuni, sízt þar sem notendurnir, íslenzkir bændur, hafa sýnt það, að þeir kunna tök á starfi sínu í þessum efnum og eru dómbærir um sitt eigið gagn. Það ætti að mega treysta því, að ráðunautur Búnaðarfélags Íslands væri ekki að gera alvarlegar árásir á þjóðarhagsmuni, þó hann ráðleggi að láta notendurna sjálfa velja sér kjarnfóður. Niðurstaðan af því, sem ég hefi nú sagt, verður þá í stuttu máli sú, að ég mun greiða atkv. móti 1. gr. frv., en 2. gr. get ég verið með, þó ég álíti, að stj. hefði getað verið búin að láta framkvæma þessa rannsókn í skjóli þeirrar heimildar, sem ég tel hana þegar hafa til þess í lögum.