13.03.1933
Efri deild: 23. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 686 í C-deild Alþingistíðinda. (4940)

92. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þetta er nú í þriðja skiptið, sem þetta frv. er borið fram í þessari hv. d. Fer það fram á að veita kauptúnum, sem hafa 200 íbúa eða fleiri, rétt til að hafa sérstaka sveitarstj. og verða sérstakt hreppsfélag. En þetta er ekki nema tölubreyting frá þeim lögum, sem gilt hafa í þessu efni, að í staðinn fyrir töluna 300 komi 200.

Ég hefi komizt að raun um, að það eru a. m. k. 2 kauptún, sem óska þess fastlega, að þetta nái fram að ganga, og það eru Vopnafjörður og Hvammstangi. Ég sé ekki ástæðu til að halda þessum rétti fyrir þeim, því að mörgum sínum málum vildu þau á annan veg skipa en þau geta í sambandi við þær sveitir, sem þau heyra nú til.

Ég vil svo mælast til, að frv. verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.