14.03.1933
Efri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í C-deild Alþingistíðinda. (4954)

96. mál, eignarnámsheimild á nokkrum löndum og afnotarétti landsvæða í Hafnarfirði

Flm. (Jón Baldvinsson):

Þegar frv. um eignarnámsheimild á löndum og afnotarétti landa handa Hafnarfjarðarbæ voru hér til umr. um daginn, gerði ég þegar ráð fyrir að bera fram breyt. í þá átt, að meiri lönd yrðu tekin eignarnámi til handa kaupstaðnum en þau gerðu ráð fyrir. Frv. þessi, sem flutt voru af hv. 5. landsk. og hv. þm. Hafnf., hljóðuðu um eignarnám á býlum á Hvaleyri við Hafnarfjörð og afnotarétti landsvæðis í Garðalandi. Þar sem nú frv. þessi taka aðeins yfir lítinn hluta þess lands, sem teljast verður rétt, að Hafnarfjarðarbær fái til umráða, þá hefi ég flutt frv. þetta, þar sem farið er fram á, að taka megi eignarnámi sumpart erfðafestulönd og sumpart lönd, sem seld hafa verið á leigu til lengri tíma. Og til viðbótar þessu land, sem selt hefir verið á leigu Eyjólfi Jóhannssyni framkvstj. hér í Rvík, land, sem talið var, að fallið hefði í hlut jarðarinnar Bakka í Garðahreppi og Eyjólfur hafði ábúðarrétt á. Þetta land liggur á sömu slóðum og lönd þeirra Hermanns Jónassonar og Tryggva Guðmundssonar.

Þá legg ég ennfremur til, að tekinn verði eignarnámi afnotaréttur jarðanna Digraness og Kópavogs í Seltjarnarneshreppi. Þó er ekki ætlazt til að taka afnotarétt allra jarðanna, því gert er ráð fyrir, að hvoru býlinu um sig fylgi 20 ha. af ræktanlegu og ræktuðu landi. Þá er í fjórða lagi lagt til, að taka megi land jarðarinnar Arnarness í Garðahreppi, sömuleiðis að undanskildum 20 ha. Í fimmta lagi er lagt til, að taka megi allt óræktað land jarðarinnar Jófríðarstaða í Hafnarfirði. Um a- og b-lið 1. gr., afnotarétt

Hvaleyrar og landsvæði þeirra Hermanns Jónassonar og Tryggva Guðmundssonar úr Garðatorfunni, hefir nokkuð verið rætt hér áður. Aftur hefir ekkert verið minnzt á jarðirnar Kópavog, Digranes, Arnarnes og land Jófríðarstaða. Eins og hv. dm. mun kunnugt, hafa komið fram sterkar óskir frá Hafnfirðingum um að fá aukið land eða lönd, er þeir geta notað til ræktunar. Þessi áhugi hefir skiljanlega aukizt, þegar atvinna til sjávarins tók að þverra, og hugir manna beindust því til landsins. Eru því með öllu ómakleg þau ummæli, sem fallið hafa hér áður undir umr. um þessi mál, sérstaklega hjá hv. 5. landsk., að Hafnfirðingar hafi á undanförnum árum sýnt lítinn áhuga á ræktunarmálum, og það því fremur, þegar þess er gætt, að allt fram á síðustu ár hefir atvinna bæjarbúa nær eingöngu verið bundin við sjóinn. Auk þess, sem áhugi á ræktun, a. m. k. í stórum stíl, hefir fyrst vaknað til alvöru á síðastl. 15-20 árum, og það meira að segja hjá bændum, sem einvörðungu hafa stundað landbúnað. Er þess því ekki að vænta, að aðrir þegnar þjóðfélagsins, sem aðra atvinnuvegi hafa stundað, taki þeim fram, sem sjálfir eiga að hafa lífsframfærslu af ræktun landsins og gróðri jarðarinnar. Löndin hafa legið ónotuð allt frá landnámstíð fram að síðustu árum, enda þótt nægilegur vinnukraftur hafi lengst af verið til í sveitunum til þess að yrkja þau. Áhuginn fyrir ræktuninni og þekkingin vaknar fyrst nú hin síðustu ár. Má því til sönnunar t. d. nefna, að enda þótt góðar mýrar og ræktanlegar hafi legið rétt hjá túnunum, þá er það fyrst nú á síðustu árum, sem farið er að taka þær til framræslu og þurrkunar, enda þótt ræktun þeirra sé miklum mun auðveldari en ræktun holtanna, sem þegar hafa verið ræktuð upp í kringum kaupstaðina. Það er því ekki með neinum rétti hægt að áfellast kaupstaðabúana fyrir áhugaleysi í ræktunarmálum, þegar sú stéttin, sem á þeim byggir lífsafkomu sína, vaknar ekki fyrr en þetta. Í þessum ummælum mínum felast að sjálfsögðu engin ámæli til bændastéttarinnar; síður en svo. Ég segi aðeins frá staðreyndum.

Lönd þau, sem hér er farið fram á að heimila, að taka megi eignarnámi, myndu engum verða til neins gagns á móts við það, sem þau gætu orðið Hafnarfirði. Það ætti t. d. að vera öllum bændum ljóst, að ræktun landsins hefir hvergi orðið stórstígari en í kringum kaupstaðina. Ef við tökum Rvík t. d., þá verður ekki annað sagt en að ræktunin hafi orðið gífurleg hér á seinni árum. Allt land fyrir innan bæ, í hinum svonefndu Sogamýrum, hefir verið ræktað o. fl. o. fl., svo gera má ráð fyrir, að þess verði ekki langt að bíða, að öll landsvæðin kringum bæinn, sem áður voru og eru enn að nokkru holt, urðir og óræktarmýrar, verði að grænum og gróðurríkum túnum. Er ræktun slíkra landa þó að miklum mun erfiðari en ræktun yfirleitt í sveitum landsins. Munurinn er því sá, að hér er meira fé hægt að leggja fram til ræktunarinnar en bændur geta yfirleitt látið af hendi.

Eins og kunnugt er, þá er Hafnarfjarðarbær aðgirtur brunahrauni. Liggur því land það, sem hér er talað um að leggja undir bæinn, að mestu fyrir utan hraunið, aðeins lítill hluti þess innan takmarka bæjarins. Í frv. eru gerðar hinar venjulegu ráðstafanir, sem með þarf, er taka skal land eða lönd sem þessi eignarnámi. En ég vil bæta því við, að svo er ekki til ætlazt, að greiðsla fyrir löndin fari fram strax að öllu leyti, heldur að greiðslutíminn fyrir Rvík og Hafnarfjarðarkaupstað verði 20-25 ár. Þó má vel vera, að vissara sé að bera fram brtt. við frv. í þessu skyni, þar sem hér eru tekin með lönd, sem gera má ráð fyrir, að Rvíkurbær vilji fá, og gert er líka ráð fyrir í frv., að Hafnarfjarðarbær og Rvík skipti með sér. Viðvíkjandi löndum þessum vil ég taka þetta fram fyrst og fremst: Jörðina Kópavog fékk kvenfélagið Hringurinn fyrir skömmu og lét reisa þar hressingarhæli fyrir berklaveikt fólk. Verður þó ekki séð, að þar þurfi á meira landi að halda en 20 ha., sem gert er ráð fyrir í frv.

Arnarnes var þjóðjörð, en seld árið 1923, en að því er bezt verður séð á móti þjóðjarðasölulögunum, því að þar er beinlínis tekið fram, að ekki megi selja þær jarðir, sem liggi rétt hjá kaupstöðum eða á milli kaupstaða. Þó er jörð þessi seld, og það fyrir mjög lágt verð, 6000 krónur.

Þá er hér prentaður aftan við aths. við frv. útdráttur úr fundargerð bæjarstj. Hafnarfj. frá 21. maí 1929, sem ég læt fylgja í tilefni af ummælum hv. 5. landsk. í umr. hér á Alþingi og grg. með frv. hans á þskj. 99, þar sem hann hefir haft í frammi ávítur við meiri hl. bæjarstj. í Hafnarfirði á þá leið, að hún hafi ekki sinnt um að taka í sínar hendur býli í nágrenni kaupstaðarins, sem hún átti ráð á, heldur hafi hún selt það á leigu til einstaklingsnota, í stað þess að skipta því í smáreiti milli bæjarbúa.

Ég tel rétt að gera samanburð á þeim samningi, sem bæjarstj. hefir hér gert um jörðina Sveinskot á Hvaleyri annarsvegar, þar sem hún hefir leigt þessa jörð til 5 ára gegn 350 kr. ársafgjaldi, við þann samning, sem bæjarstj. Hafnarfj. gerði 1916, þar sem hún leigði Hvaleyrina alla fyrir 150 kr. á ári, og einnig við þá samninga, sem hv. 5. landsk. gerði í fyrra við þá Hermann Jónasson og Tryggva Guðmundsson, er hann leigði þeim til 50 ára skákir úr Garðalandi hinsvegar, til þess að sýna breytta stefnu bæjarstj. í þessum efnum í seinni tíð, og einnig hve vel hún stendur að vígi gagnvart aðfinnslum hv. þm. í þessum efnum, samanborið við þá samninga, sem hann hefir gert. Eftir samningum bæjarstj. um Sveinskot er jörðin laus eftir 5 ár, og getur bærinn þá tekið hana, ef hann vill, en hv. þm. hefir leigt skákirnar í Garðalandi til 50 ára. Hér er því ólíku saman að jafna og kemur greinilega í ljós, að ummæli hv. þm. um sekt bæjarstj. eru harla óréttmæt og láta illa í eyrum frá þessum hv. þm. Þá get ég ennfremur vitnað til grg. þessa frv., sem sýnir það mjög ljóslega, hve ummæli hv. 5. landsk. eru óréttmæt.

Ég skal geta þess, að frv. þetta flyt ég samkv. tilmælum bæjarstjóra Hafnarfj., og þykist ég ennfremur vita, að það sé í samræmi við vilja meiri hl. bæjarstj., þó ekki hafi gefizt tækifæri til þess að fá hennar umsögn enn.

Að lokum vil ég leggja til, að frv. verði að lokinni umr. vísað til hv. landbn. eins og hinum tveimur frv. sama efnis, sem nú eru til meðferðar í hv. d. Ég vænti þess, að sú hv. n. leiti umsagnar bæjarstj. Hafnarfj. um frv. og að afgreiðslu þess verði hraðað nægilega til þess, að það nái fram að ganga á þessu þingi. Jafnframt vænti ég þess, að þeir hv. þm., sem flutt hafa frv. á þskj. 41 og 99, fallist á að taka þau aftur, þar sem þau eru nú orðin þýðingarlaus, með því að efni þeirra beggja felst í mínu frv., og þar að auki er bætt við miklu meira landi handa kaupstaðnum, sem hann hefir fulla þörf fyrir. Mér er sagt, að flm. annars frv., hv. þm. Hafnf., sé veikur, og beini ég því þessum ummælum mínum til hv. 5. landsk. og vona, að hann taki sitt frv. aftur, þar sem annað frv. er nú fram komið, sem felur í sér efni hans frv. og auk þess tryggir kaupstaðnum meira land, því mér dettur ekki í hug að efast um, að á þessu máli hafa hann óskiptan áhuga.