14.03.1933
Efri deild: 24. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í C-deild Alþingistíðinda. (4956)

96. mál, eignarnámsheimild á nokkrum löndum og afnotarétti landsvæða í Hafnarfirði

Magnús Torfason:

Ég stend ekki upp sökum þess, að ég ætli að lýsa skoðun minni á frv., heldur vegna orða, er féllu af vörum hv. flm., 2. landsk. Hann lýsti því talsvert áþreifanlega og endurtók það, að verulegur áhugi meðal bænda fyrir ræktun landsins hefði ekki vaknað fyrr en nú fyrir nokkrum árum. Mér finnst ekki rétt að láta þessum ummælum með öllu ómótmælt. Ég veit það ósköp vel, að bændurnir hér í hv. d. skilja, hvert þessum ummælum er stefnt og að hverjum sneitt er með þeim, þó þeir kannske ekki hirði um að bera hönd fyrir höfuð sér. Ég þykist sem óvilhallur maður standa vel að vígi með að leggja orð í belg um þetta atriði, og vil ég þá fyrst segja það, að ég hygg, að áhugi á ræktunarframkvæmdum hafi alls ekki verið minni hér á landi en í öðrum löndum. Eftir að bændur kynntust þeim verkfærum, sem nothæf voru, hófust þeir handa um framkvæmdir. Þeir tóku undirristuspaðanum tveim höndum og hófu jarðræktina með handaflinu.

Þess er getið, að þegar á landnámstíð beitti Hjörleifur landnámsmaður þrælum sínum fyrir arðinn, og er það upphaf ræktunarsögu okkar Íslendinga. Það hafði nú þær afleiðingar, sem kunnar eru, að þrælarnir, sem þótti erfið vinnan, gerðu samsæri gegn húsbónda sínum og drápu hann.

Þegar ristuspaðinn kom til sögunnar, þá var hann ekkert annað en plógur fyrir mannshöndina, og fyrir þennan plóg beittu bændur sér undir eins. Ég veit ekki til, að bændastétt nokkurrar annarar þjóðar hafi leikið þetta eftir íslenzku bændunum; ég held því, að það sé algerlega ómaklegt að áfellast bændur fyrir það, að þá hafi skort áhuga fyrir ræktun á jörðum sínum. Hitt er annað mál og mér næst að halda, að ræðumaður hafi átt við það, að framkvæmdir í ræktun hafi ekki orðið stórfelldar fyrr en á síðustu áratugum, en það voru aðrar ástæður, sem komu þá til greina, fyrst og fremst þær, að bændur eignuðust vélar til að vinna jörðina með, og nú á allra síðustu árum hafa ræktunarskilyrðin aukizt hvað mest vegna innflutnings á útlendum áburði, því vitanlega eru fyrst nú, eftir að útlendi áburðurinn kom til sögunnar, orðin skilyrði þess að framkvæma jarðrækt í stórum stíl. Þó ég sé ekki bóndi, þá hefi ég áður verið bóndi og þekki því dálítið til ræktunar af eigin reynd, og ég fékk þá reynslu, að það þýddi ekkert að taka meira land til ræktunar í einu heldur en áburðarframleiðslan leyfði í hvert skipti, en þess eru meira að segja dæmi, að miðað við þetta var jarðræktaráhuginn sumstaðar of mikill, þannig að meira var erjað af landinu heldur en áburður var fyrir hendi til að fullnægja. Ég segi þetta ekki til þess að vita hv. þm., en ég áleit rétt að leiðrétta þessi ummæli hans. Ég hygg, að hann hafi nú átt við það, að stórar framkvæmdir hafi ekki orðið fyrr en á síðari árum vegna stórum vaxandi vélanotkunar. Hinsvegar kæmi mér ekki á óvart, þó nú drægi nokkuð úr ræktunarframkvæmdum að sinni, vegna hins lága verðs, sem nú er á afurðum bænda, svo að ræktun borgar sig ekki á þessum tímum nema fyrir þá, sem hafa fé aflögu, en þó af þessum ástæðum eitthvað dragi úr ræktuninni að sinni, þá vil ég taka fram, að ég tel það ekki koma af skorti á áhuga, heldur af því, að ástæðurnar geta ekki fylgt áhuganum eftir.