18.03.1933
Efri deild: 28. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í C-deild Alþingistíðinda. (4973)

102. mál, fimmtardóm

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Þrátt fyrir töluverða söguþekkingu er hv. 5. landsk. ekki enn búinn að átta sig á því, hvað það var, sem þjóðirnar unnu á, þegar frelsishreyfingin, sem hófst í Frakklandi í lok 18. aldar, gekk yfir heiminn. Ég vil því endurtaka það, sem ég áður sagði í þessu efni, að það, sem þjóðirnar unnu á, var þessi þrískipting valdsins, sem ég talaði um, í löggjafarvald, sem fulltrúar þjóðarinnar sjálfrar fara með, dómsvald, sem er í höndum óháðra dómenda, sem eru óháðir ríkisvaldinu og óafsetjanlegir af því, og framkvæmdarvald í höndum stj., sem stjórnar landinu í samræmi við löggjafarvaldið á hverjum tíma. Hv. 5. landsk. hefir enn ekki áttað sig betur á þessu en svo, að honum finnst, að úr því að rétt er, að almenningsviljinn birtist í 1., hljóti líka að vera rétt, að vilji almennings komi fram í dómunum, sem taki á sig þá mynd, og eigi dómararnir þannig ekki að dæma eftir l., heldur eftir einhverju öðru. Þessir menn, sem höfðu fengið reynslu miðaldanna af því, hvað það þýddi, að dómararnir væru bundnir geðþótta valdhafanna, sem réðu skipun og útnefningu dómaranna, og jafnvel tilveru sjálfra dómstólanna, vildu komast burt frá því ástandi, að dómstólarnir væru undir áhrifum annara en 1., og þeir settu fram þá kröfu, að dómstólarnir dæmdu eftir l., og ákvæði um það hafa verið sett í stjskr. allra lýðfrjálsra ríkja, og er einnig í okkar stjskr. Hv. 5. landsk. er svo geðríkur flokksmaður, að hann getur óefað ekki hugsað sér það um sjálfan sig í nokkru máli, að hann fari eftir öðru en flokkssjónarmiðum og flokkshagsmunum, og hv. þm. virðist ekki átta sig á því, að flestir aðrir menn eru öðruvísi gerðir að þessu leyti. Flestir menn, sem eitthvað er í spunnið a. m. k., eru svo gerðir, að ef þeir gegna skyldustörfum, sem þeir samkv. l. og venjum eiga að láta önnur sjónarmið ráða gerðum sínum við en flokkssjónarmið og flokkshagsmuni, þá eru þeir líka menn til að losa hugann undan áhrifum slíkra flokkshagsmuna, og dómararnir láta l. ráða í dómum sínum. Til þess að tryggja, að dómararnir geri þetta, þarf ekki að vera að rekast í því, hverri stefnu dómararnir fylgi í landsmálum, að því leyti, sem þeir kynnu að taka þátt í þeim, því að ef þeir eru þroskaðir menn, þá vita þeir, að þeir eiga að setja allt slíkt til hliðar og fara eftir l. Ef landsmenn vilja áfram, að dómararnir dæmi eftir l., en ekki hverfa aftur í þá miðaldatilhögun, að dómararnir dæmi eftir vilja og geðþótta valdhafanna, eiga landsmenn að halda þeirri tryggingu, sem er fyrir því, að dómararnir geri þetta, og það er verkefni stjskr. og dómaskipunarl. að ganga svo frá l. í þessu efni, að dómararnir geti leyft sér að virða þingflokka og stj. að vettugi að því er snertir dómsniðurstöður allar, og fari eftir 1. Stjskr. tryggir þetta með ákvæðinu um það, að ekki megi skerða á nokkurn hátt efnalega afstöðu dómaranna, og gerir þá þannig fjárhagslega óháða valdhöfunum, svo að dómararnir geta látið sér í léttu rúmi liggja, hvort þeim líkar betur eða verr. Er ég sannfærður um það, að sú er hin ríkjandi skoðun hér á landi sem annarsstaðar, að einmitt með slíku ákvæði sé það tryggt, að smælingjarnir nái rétti sínum fyrir dómstólunum, enda þótt þetta kunni á einhvern hátt að rekast á vilja eða hagsmuni valdhafanna. Það er þessi grundvöllur, sem hv. landsk. vill draga dómstólinn í brott frá, og hefir hann nú fundið það feginsráð að reyna að koma því skipulagi á dómstólinn, sem var algengt á miðöldum, og að vísu enn lafir nokkuð af í 2 lýðveldum heimsins.

Þegar hv. 5. landsk. spyr mig að því, hvort ég muni ekki geta fallizt á samskonar samvinnu milli dómaranna í æðsta dómstóli landsins eins og nú er á milli 2 stjórnmálaflokka á þinginu, segi ég bara það, að hv. þm. talar eins og hann viti ekki, hvað hann er að tala um, að innan dómsins mega stjórnmálaskoðanir ekki hafa áhrif á dómsúrslitin. (JónasJ: En ef þær gera það?). Þá er um brot á skyldum dómarans að ræða, sem verður að kippa í lag, og ég hugsa, að þetta sé fátítt, en ég vil vekja athygli á því, að hv. þm. vill bæta úr því, sem hann ímyndar sér, að áfátt sé í þessum efnum, með því að gera dómstólinn pólitískan og háðan flokkavaldinu, og veit ég, að allir skilja, hver fjarstæða það er að bæta úr því böli með því að líða annað meira, ef mannlegur veikleiki í einhverjum tilfellum skyldi reynast sterkari en lagaskyldan, með því að nema í burt alla tryggingu fyrir því, að skyldan geti þó fengið að verða yfirsterkari. Það er ekki snefill af réttri hugsun í því hjá hv. þm., þegar hann þykist vilja bæta úr þessu með því að kasta burt öllum tryggingum, sem eru til fyrir því, að þetta geti komið fyrir.

Þarf ég ekki að eyða fleiri orðum að því, hver fjarstæða þetta er, jafnvel frá sjónarmiði sjálfs flm., sem eftir að hafa flutt þetta mál hér þing eftir þing, ætlar sér nú að bæta úr því, sem að vísu getur komið fyrir, að æðsti dómstóllinn sé ekki nægilega óhlutdrægur, með því að gera þá skipun á dómstólnum, er gerir dómarana algerlega háða umboðsvaldinu, með því að fella niður þá tryggingu, sem dómararnir hafa nú fyrir því, að þeir geti haldið áfram að ala önn fyrir sér og heimilum sínum, þótt dómar þeirra séu ekki valdhöfunum að skapi. Ég þarf og ekki að minnast á það, sem hv. þm. lýsti, að vesturfararnir flýðu af Englandi undan pólitíska valdinu þar og undan þeim dómstólum, sem þjónuðu því pólitíska valdi. Það var miðaldatilhögunin, sem þeir voru að flýja, en þeir gerðu það svo snemma, að þegar þeir sköpuðu sér sitt nýja skipulag, hugsuðu þeir ekki svo skýrt, að þeir gætu að öllu leyti losað sig við þá tilhögun, sem þeir voru að flýja, af því að þetta var löngu fyrir 1789 og áður en sú alda sigraði, er þá reis.

Ég get fullvissað hv. 5. landsk. um það, að þessari tilraun hans til að lögleiða miðaldaskipulagið í þessum efnum var réttilegar lýst en hann sjálfur gerði sér grein fyrir, þegar hann kom með þá samlíkingu, að þetta væri álíka og að fara með kolablað til Newcastle. Hv. þm. hefir grafið það úr námu útdauðra og útkulnaðra lífvera, eins og kolablað. (JónasJ: Eru Bandaríkin svona aum?). Svo aum, að þau eiga enn eftir marga dauða kvisti frá miðöldum. Og þegar hv. 5. landsk. kemur með þetta blað úr kolanámu liðinna alda til Newcastle, er ekki annað að gera en láta það í eldinn, ekki af því, að það hafi þýðingu fyrir neinn eða veiti nokkurn hita, heldur til þess að verða laus við óþrifnaðinn af því og láta það brenna.