17.03.1933
Efri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í C-deild Alþingistíðinda. (4978)

103. mál, æðsta dóm

Flm. (Jón Jónsson):

Ég hafði satt að segja ekki búizt við svona mikilli gagnrýni frá hv. 5. landsk., og finnst mér margir hlutir benda til, að ég hafi heldur ekki haft ástæðu til þess.

Ég verð að segja, að ég varð forviða á, að það virtist hneyksla hv. 5. landsk., að ég skyldi hafa leitað aðstoðar lögfræðinga. Mér finnst það einmitt hafa verið skylda mín að leita aðstoðar lögfræðinga í jafnmiklu máli og því, sem hér er um að ræða. Hitt tók ég áður fram, að það, sem aðallega vakti fyrir mér, lagði ég til sjálfur, þótt það sé ekki að öllu leyti mín upphaflega hugsun.

Ég vil hér leiðrétta lítilsháttar misskilning í sambandi við það, sem ég sagði um hv. 2. þm. Árn. Ég sagði ekki, að hann væri höfundur frv., heldur las hann það yfir fyrir mig.

Hv. þm. fann frv. það til foráttu, að þar gætti Reykjavíkuráhrifa. Sé ég ekki, í hverju þau geta verið fólgin, og ekki nefndi hv. þm. nein dæmi máli sínu til stuðnings.

Þá sagði hann, að ég hefði mátt rekja sögu málsins lengra, hvernig það varð til upphaflega. Það mætti rekja það til hæstv. dómsmrh.; tilgangurinn væri að búa til hreiður fyrir hann, þegar hann væri farinn frá ráðherraembætti. Þetta er algerlega tilhæfulaust og auðvirðilegur skáldskapur hjá hv. þm.

Ég hefi ekki minnzt á frv. við hæstv. dómsmrh. eða aðra lögfræðinga en þá 3, sem ég nefndi áður, fyrr en það var komið fullprentað hingað í d. Stend ég því hvorki í sambandi við dómsmrh. eða nokkra aðra en þá, sem ég hefi nefnt, um þetta mál.

Þá sagði hv. þm., að þetta frv. væri ekki annað en grínmynd af fimmtardómsfrv. fræga. Finnst mér, að hann ætti að vera þakklátur fyrir það, að það líktist fimmtardómi nokkuð. Hélt ég, að hann hefði borið fram fimmtardómsfrv. af umhyggju fyrir dómstólum landsins. Eftir því, sem hann hefir skýrt mér frá hafði hann viljað leggja mesta áherzlu á opinbera atkvgr. í réttinum. En í þessu frv. er hún alveg eins vel tryggð og hjá honum. Hann hefir undanfarið haldið því fram, að réttarfarið væri betur tryggt, ef dómarar væru fleiri en 3. En þar geng ég heildarlegar að verki, með því að gera 5 aðaldómara fasta. Er því ekki rétt af hv. þm. að kalla þetta grínmynd af fimmtardóminum, hafi hann ekki meint tómt grín með frv. sínu. En því vil ég ekki trúa.

Það er engin ný uppfynding mín að hafa dómarana 5, og hefi ég aldrei haldið því fram, eins og hv. þm. vill leggja mér í munn. Hafa menn jafnan litið svo á hér á landi, að svo þyrfti að vera, og hefir þetta verið krafa Íslendinga allt frá 1850.

Hv. þm. sagði, að meðan dómstóllinn var skipaður 5 dómurum hafi gætt mests ósamræmis í dómsniðurstöðum hans. Nefndi hann þar til 2 dóma. A. m. k. annar sá dómur var kveðinn upp af þremur dómurum, en ekki fimm. Ósamræmið í þeim dómi afsannar því ekki þá kröfu, að dómarar skuli vera 5.

Þá sagði hv. þm., að ósamræmi væri í því hjá mér, að ég sagði, að álitamá1 væri, hvort núv. æðsti dómstóll landsins nyti nægilegs trausts, og því, er ég sagði seinna, að hann nyti allmikils traust. Í þessu get ég ekkert ósamræmi séð.

Þá eru orð hv. þm. viðvíkjandi niðurlagsákvæði frv., þar sem gert er ráð fyrir, að dómarar gegni þessum störfum fyrir þjóðfélagið endurgjaldslaust. Hann hélt, að af því myndi leiða, að þeir fengju ekki full eftirlaun, er þeir færu frá embætti. Ég skil nú ekki, að þetta geti haft nokkur áhrif á eftirlaunin, því að hér er aðeins um að ræða lítilfjörleg aukastörf, sem veita dómurum engar tekjur.

Þá sagði hv. þm., að ég hefði talið samningu þessa frv. mikið þrekvirki af þeim lögfræðingum, sem hefðu hjálpað mér. Ég held, að ég hafi alls ekki nefnt orðið þrekvirki í þessu sambandi. Það var, eins og kunnugt er, Magnús Stephensen, sem breytti dómaskipuninni eins og gert var, þegar landsyfirrétturinn var reistur, og það var þrekvirki.

Þá sagði hv. þm., að ekki væri meiri trygging fyrir réttu vali dómara eftir mínu frv. en áður var. Skil ég ekki þá hugsun. Sú breyt. er gerð, að það er ekki dómsmrh. einn, sem ræður, hverjir verða dómarar, heldur ráðherrafundur, og ber forsrh. málið fram. Má öllum vera ljóst, að slíkt tryggir miklu betur réttlátt val. Dómararaunin skapar og trygging fyrir, að góðir lögfræðingar einir komist í dóminn. Hinsvegar felst engin veiting í þessu, heldur er þetta eins og hvert annað embættispróf, sbr. dómarapróf. Hv. þm. sagði, að þrátt fyrir þetta ákvæði um próf hefði það aldrei verið notað, og vil ég í því sambandi benda á, að það mun ekki oft hafa komið fyrir, að embætti hafi losnað í dóminum síðan 1919. Veit ég þó eitt dæmi, frá síðasta ári, en þar hlaut maður embættið, sem staðizt hafði dómaraprófið. Tel ég þessi andmæli því ekki á rökum byggð. Eins held ég, að það sé augljóst, að betur muni takast val á dómurum, ef allir ráðh. bera sig saman, en ef einn maður réði þessu algerlega.

Þá sagði hv. þm., að sem varadómarar myndu verða skipaðir einhverjir skuldheimtumenn. Getur vel verið, að það myndi geta komið fyrir, en mér skilst, að frv. hans leggi heldur ekki bann við þessu, svo að í því efni sé ekki mikill munur á þessum 2 frv.

Hv. þm. vék að nafninu og taldi það mjög virðulegt og minna jafnvel á guðsdóm. Ég vil auðvitað leggja þar til lið mitt, að æðsti dómstóll landsins fái sem virðulegast heiti. Er ég fús til samkomulags, ef aðrir hafa virðulegra nafn, en annars finnst mér þetta nafn forsvaranlegt.

Þá kem ég að uppistöðunni í gagnrýni hv. þm., sem sé þeim orðum hans, að með þessu frv. ætti að tryggja það, að sama klíkan gæti haldið áfram að veita dómaraembætti í það endalausa. Ég get nú ekki fallizt á það, að nein klíka hafi hingað til veitt þessi embætti, og í annan stað vil ég benda hv. þm. á það, að með þessu frv. er gerð mikil breyt. á því, hverjir veiti embættin. Ef hann lítur svo á, að einhver ósköp séu í veði, ef dómarar eigi að standa fyrir prófi á þessum mönnum, þá vil ég benda honum á það, að í frv. er ákvæði um, að 2 fyrstu dómararnir, sem skipaðir eru í dóminn, séu undanþegnir þessu prófi.

Hv. þm. sagði, að meiri trygging væri í því, að varadómarar, eða litlu dómararnir, eins og hann komst að orði, væru ekki skipaðir af dómsmrh. Vil ég þá ganga til móts við hann um það, að þeir verði útnefndir af ráðuneytinu eins og aðaldómarar.

Þá talaði hv. þm. um það, að nýr flokkur manna hefði samkv. frv. rétt til að skipa dómarasæti, sem sé fulltrúar lögreglustjóra og bæjarfógeta í Rvík. Þetta er rétt, en það er af því, að þessir menn hafa óvenju mikla æfingu í slíkum málum. Hjá annari þessari skrifstofu koma jafnvel stundum fyrir 1000 mál á ári, og er það meira en hjá sjálfum hæstarétti, svo að ég tali ekki um sýslumenn. Fulltrúar í dómsmrn. hafa einnig mikla æfingu í þessum málum, en vantar þó mikið til þess að það sé sambærilegt við hina 2 flokkana, sem ég nefndi.

Af þessu öllu held ég, að meiri hl. af gagnrýni hv. þm. hafi við lítil rök að styðjast, sérstaklega þó þungamiðjan í þessari gagnrýni, sem sé það, að hér sé verið að stofna til þess, að sama klíkan geti valdið veitingu þessara embætta ár frá ári. Það nær auðvitað engri átt.