01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. lauk máli sínu með því að segja, að við, sem nú andmæltum þessu frv., mundum á sínum tíma, þegar fjárl. koma til umr., ekki sitja hjá með fjárbeiðnir til vegamálanna. Ég er honum alveg sammála um þetta. Hvort sem þessum ummælum hæstv. ráðh. hefir verið stefnt til okkar jafnaðarmanna sérstaklega eða ekki — ég get vel búizt við því, hann hefir stundum áður sent okkur þann sama tón, og a. m. k. má ganga út frá, að við eigum þó okkar skerf af þessum ummælum, — þá vil ég taka fram, að það er ekki rétt, að við höfum nokkurntíma flutt till., er valdið hefðu ríkissjóði útgjöldum án þess að benda á leið til tekjuöflunar jafnframt. Hitt er annað mál, að hæstv. ráðh. hefir ekki allténd líkað okkar till.

Það er ekki ætlun mín að fara að lengja mikið umr. frá því, sem orðið er, en ég vil þó benda á það, sem orðið er alveg ljóst af umr. og ræðum hæstv ráðh., að þessu frv. er aðeins ætlað að auka almennar tekjur ríkissjóðs, og að það er aðeins fyrirsláttur, að benzínskatturinn eigi að þýða aukna vegagerð í landinu. Reynsla síðasta árs sannar þetta mjög ljóslega. Framlag ríkissjóðs til vega hefir verið miklu minna en undanfarin ár, þrátt fyrir það þó að þessi skattur kæmi til. Útkoman verður því sú, að því meiri sem bifreiðaskatturinn verður, því minna leggur ríkissjóður til veganna af öðru fé.

Hér er því um hitt að ræða, hvort þessi skattur er réttlátur eða ranglátur tekjustofn fyrir ríkið. Ég álít hann mjög ranglátan. Hann kemur á gjaldendurna alveg af handahófi, en ekkert eftir gjaldþoli þeirra. Hann kemur jafnt á fátæka sjúklinginn, sem er að fara á sjúkrahúsið, bóndann, sem þarf að flytja nauðsynjar sínar með bifreiðum, og ríkismanninn, sem ekur sér til skemmtunar um héruð landsins. Slíkur grundvöllur er alveg bandvitlaus. Og mér er það ekki grunlaust, að hæstv. forsrh. viti þetta og þess vegna sigli hann frv. undir þessu fallega flaggi, að skatturinn eigi að fara til þess að bæta vegi landsins.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri ekkert undarlegt, þó stj. hefði neyðzt til þess að draga úr verklegum framkvæmdum á síðasta ári meir en ætlazt hefði verið til, er fjárl. fyrir 1932 voru samin, því þá hefðu þ.m. ekki gert ráð fyrir því, að kreppan yrði eins alvarleg og raun hefir orðið á. Ég held, að hér sé um að ræða alveg sérstaka gleymsku hjá hæstv. ráðh. Ef ég man rétt, þá var gengið frá þessum fjárl. í ágúst 193Í. Þá var mikið rætt um kreppuna og samþ. þál., þar sem stjórninni var falið að gera sérstakar ráðstafanir til varnar gegn kreppunni, en sem hún hinsvegar sveikst um að framkvæma, eins og hennar var von og vísa. Enda sagði hæstv. ráðh. um fjárl. fyrir 1932, að með þeim hefði verið skorið svo nærri kviku, sem þingið hefði séð sér framast fært.

Ég mun svo að sjálfsögðu greiða atkv. móti frv. sjálfu, en brtt. mun ég samsinna eða neita, eftir því, sem mér þykir við eiga.