17.03.1933
Efri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í C-deild Alþingistíðinda. (4981)

103. mál, æðsta dóm

Flm. (Jón Jónsson):

Ég ætla fyrst að biðja hv. 2. þm. Árn. afsökunar á því, ef honum hefir mislíkað það, að ég minntist á, að hann hefði lesið yfir frv. mitt. Mér fannst ég ekki geta annað fyrir mitt leyti, en ég skal jafnframt taka það fram, að hann ber enga ábyrgð á þeim misfellum, sem á frv. kunna að vera, heldur er það ég einn. En það, sem hann minntist á Magnús heit. Stephensen, þá var það fjarri því, að ég minnist á hann til framdráttar mínu máli. En mér fannst það vel tilhlýðilegt að minnast á hann, vegna þess hve mikinn þátt hann átti í því að bæta réttarfarið í landinu með stofnun landsyfirdóms. En um afnám Alþingis, sem fylgdi þar með, var annað mál, þá var Alþingi ekki nema svipur hjá sjón hjá því, sem áður var, og þjóðin var enn ekki farin að átta sig á, hversu því skyldi skipa fyrir framtíðina. En draumur fólksins um það, að það risi upp aftur í nýrri og betri mynd, rættist síðar. Magnús Stephensen var misjafn eins og gengur og gerist, en stórfenglegur í hverju, sem hann snerti á, og mátti því margt gott um hann segja.

Út af því, sem hv. 2. landsk. sagði, er ekki ástæða til að segja mikið. Ég get bara sagt það, að ég skil ekkert í þeirri afskaplegu hræðslu um, að þetta frv. væri fyrst og fremst hugsað sem hreiður fyrir núv. dómsmrh. Ég get a. m. k. lýst því yfir fyrir mitt leyti, að mér hefir ekki dottið slíkt í hug, og ef það nær fram að ganga nú á þessu ári, þá kemur ekki til mála, að hann skipi þau fyrstu sæti. (JónasJ: Er hann of verðugur?). Ég skal engan dóm leggja á það, en geri eindregið ráð fyrir, að ópólitískari menn verði fyrir vali. Hv. 2. landsk. sagði, að þetta frv. væri eins og það væri flutt af svartasta íhaldi og færi allt í íhaldsáttina, en ég varð ekki var við, að hann nefndi nokkurt dæmi til sönnunar því. Hann er einmitt fylgjandi einni meginbreyt. frv., að fjölga dómurunum, og ég hefi líka skilið hann svo, að hann væri einnig fylgjandi opinberri atkvgr. Mér er því ekki ljóst, hvers vegna hann álítur það ganga svo mjög í íhaldsáttina.

Það fer nú að líða á fundartímann, og skal ég því ekki þreyta hv. d. á löngu máli. En ég get ekki stillt mig um að minnast á þau ummæli, sem hv. þm. hafði hér upp í d. eftir einum dómara í hæstarétti, óviðeigandi og ósæmileg ummæli gagnvart einum landsmálaflokknum. Ég tel það vart sæmandi fyrir hv. þm. að flytja þetta á þingi ár eftir ár, nema hann vilji nefna manninn, svo honum gefist tækifæri til að hreinsa sig af þessum ummælum, því að þau eru svo ósæmileg, ef þau eru rétt höfð eftir og í alvöru meint, að þá ætti dómarinn þegar að víkja úr réttinum. Ég skora því á hv. þm., úr því hann er að dylgja með þetta ár eftir ár, að tilnefna manninn, svo að hann eigi kost á að hreinsa sig af þessu, eða að öðrum kosti að víkja úr sæti.