17.03.1933
Efri deild: 27. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 760 í C-deild Alþingistíðinda. (4985)

103. mál, æðsta dóm

Flm. (Jón Jónsson):

Sá er galli á ummælum hv. 2. landsk., að hann hikstar í stað þess að nefna nafnið. Og meðan svo er, þá finnst mér verða að skoða orð hans sem hver önnur ómerk ummæli. Ég er sammála þm., að ef þetta er rétt, þá hefði dómarinn átt að víkja úr dómarasæti. (JBald: Þm. veit vel, hver það er). Þvert á móti. Ég hefi aldrei heyrt dómarann segja þetta. En ég hefi heyrt þennan hv. þm. segja þetta þing eftir þing, en aldrei hefir hann í mín eyru haft þá karlmennsku að þora að nefna dómarann. Og mér finnst þessi framkoma ekki vel heiðarleg eða karlmannleg.

Ég hefi víst ekki nema aths. og verð fljótt yfir sögu að fara.

Hv. 5. landsk. talaði með dálítilli áherzlu um það, að ég beri sérstaka ábyrgð á manninum, sem veitt var hæstaréttardómaraembætti síðastl. sumar. Þessu vil ég algerlega vísa frá mér. Ég segi ekkert, hvort hann er góður og gegn maður, - þar verður reynslan að skera úr. En ég hefi heyrt hv. 5. landsk. hæla honum mjög fyrir einn dóm a. m. k., merkan og mikið um talaðan. En það get ég sagt hv. 5. landsk., að hann sjálfur ber meiri ábyrgð á, að hann er kominn í réttinn. Fyrst og fremst með því að hafa vanrækt árum saman að skipa í dómaraembættið, sem laust var meðan hann var dómsmrh. Og í annan stað með því að berjast á móti þeim umbótum, sem ég vildi gera á hans frv. í fyrra, með því að láta fleiri ráðh. hafa atkv. um skipunina. Með þessu tvennu ber hann miklu meiri ábyrgð en ég, ef um nokkur mistök er að ræða viðvíkjandi veitingunni, sem ég skal ekki um segja.

Ég verð að segja, að mér finnst það svona og svona drengilegt af hv. 5. landsk. að vera með dylgjur og aðdróttanir til flokksmanna sinna, sérstaklega til forsrh. þegar hann er fjarverandi, um að þeir séu í raun og veru gengnir í Íhaldsfl. Þetta finnst mér miður sæmandi af þessum hv. þm. og veit hann þó vel, að hæstv. forsrh. er einhver einlægasti og bezti framsóknarmaðurinn, sem við eigum hér á þingi. Mér finnst það sannast að segja vera lítið þakklæti til okkar, sem árum saman höfum orðið að standa í því að verja hann fyrir ámæli, fyrir það, sem hann hefir mikið verið bendlaður við, nefnilega að vera sjálfur í öðrum flokki en þeim, sem hann er talinn tilheyra.