30.03.1933
Neðri deild: 40. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í C-deild Alþingistíðinda. (4997)

115. mál, áfengislög

Jóhann Jósefsson:

Ég hefi að undanförnu ekki tekið neinn þátt í þeim háværu umr., sem farið hafa hér fram í þessari hv. þd. um afnám bannlaganna, þing eftir þing. Ég var eins og margir aðrir á sínum tíma hlynntur því, að bannlögin voru sett, þó að ég væri þá að vísu svo ungur, að ég hefði lítil áhrif á löggjafarmálefni. En ég var banninu hlynntur, eins og sennilega margir aðrir, í þeirri góðu trú, að með því mætti takast að útrýma víninu úr landinu; þá trú hafa líklega allir haft, sem stóðu að samþykkt bannlaganna. En ég dreg það mjög í efa, að nokkur maður með opnum augum og snefil af reynslu hafi þessa trú nú orðið í raun og veru. Og þegar verið er að deila á þá, sem vilja afnema bannlögin, þá er mest talað um skaðsemi vínnautnarinnar. En reynslan hefir einmitt sýnt, að takmark bannlaganna um útrýmingu vínsins hefir ekki náðst. Og þau hafa meira að segja haft öfug áhrif við þann upphaflega tilgang. Bindindisstarfsemin hefir sljóvgazt í landinu, af því að bindindisvinirnir reiddu sig á bannlögin, og drógu þau þannig mjög úr hinni heilbrigðu viðleitni bindindismanna. Bannlögin hafa orðið einskonar pólitískt vígi fyrir suma stjórnmálamenn hér, en á hinn bóginn eru þau aðeins til ills og óhamingju fyrir mikinn hluta þjóðfélagsins, einkum unglinganna, sem mest þarf að varðveita fyrir óhollri vínnautn. Ég þarf ekki að gefa neina persónulega játningu um sjálfan mig sem bindindismann, enda þótt því hafi verið haldið fram í málgagni því, sem stórstúkan stendur að, að ég sé víndrykkjumaður. Ég þekki vel til vínnautnarinnar, þó ég hafi verið mörg ár bindindismaður, og get því dæmt um hana af eigin reynslu. Og þess vegna verð ég að segja það, að þegar hv. þm. Str. og þm. Borgf. eru að tala um þetta mál, þá geta þeir ekki gert sér grein fyrir ástandinu í landinu, sjálfir hafa þeir engin persónuleg kynni af vínnautninni. Það er allt öðru máli að gegna um þá, sem þekkja til vínnautnarinnar, hafa neytt áfengis og umgengizt aðra, sem hafa vín um hönd, þeir eru miklu betur færir til þess að dæma um áfengismálin heldur en hinir. Þegar ég hlustaði á hina háværu og hvössu ræðu hv. þm. Borgf., sem hann flutti í þessu máli fyrir nokkrum dögum, þá datt mér í hug gamla sagan af fuglinum, sem stingur höfðinu ofan í sandinn, til þess að þurfa ekki að horfa á staðreyndirnar. (ÓTh: Er það fuglinn Felix?). - Þegar bannlögunum var breytt og undanþága veitt um innflutning á hinum svokölluðu Spánarvínum til landsins, þá var vínbannið í raun og veru upphafið. Okkur, sem eldri erum og munum eftir, þegar brennivínið var selt í verzlunarbúðunum hverjum sem hafa vildi, mun enn í fersku minni, hver áhrif brennivínssalan við búðarborðið hafði á okkur. Það, sem þar bar fyrir augu unglinganna, var ekki sérstaklega heillandi freistingarefni fyrir þá. Karlarnir stóðu við búðarborðið, þar sem hinum gráhvíta vökva var hellt á flöskurnar, og grettu sig, þegar þeir voru búnir að dreypa á þeim. Það var ekkert erfitt fyrir óspillta unglinga að forðast þessa freistingu. En eftir að Spánarvínin komu, var farið að gylla vínnautnina á allan hátt fyrir unglingunum með fallegum miðum og auglýsingum. Þessi vín eru gómsæt á bragðið, og þykir fínt að hafa þau um hönd. Sannleikurinn í þessu máli er sá, að afleiðingar bannlaganna hafa ruglað huganyndum manna um það, hvað sé bindindi. Tilætlun þeirra, er börðust fyrir banninu upphaflega, var sú, að saman færi bindindi og bann. Reynslan sýnir, að þessi hugtök fjarlægjast hvort annað með ári hverju. Þegar því er hreyft að breyta áfengislöggjöfinni, vegna þess að hún nær ekki tilgangi sínum, heldur verkar jafnvel í gagnstæða átt, þá verða sumir bannmennirnir fast að því hamstola og kalla þá fjandmenn bindindis, sem benda á, að nú er svo komið, að það er hvergi nærri hið sama að vera með banninu og það að vera í vínbindindi eða með bindindisstarfsemi. Meðal bannmanna er líka stór hópur af hræsnurum, mönnum, sem á mannfundum kalla sig bann- og bindindismenn, en snapa eftir víni hvar sem þeir geta þess á milli. Það er þetta ástand, sem hv. þm. Str. og hv. þm. Borgf. virðast vilja láta haldast. Upp á þetta horfir hin unga kynslóð; hún horfir upp á alla hræsnina, ósómann og lygina í þessu efni. Við, sem setjum okkur á öndverðan meið við þessi bannl., sem hv. þm. Str. sagði, að væru ekki orðin annað en slitur, viljum hafa hreinar línur í þessu máli. Ég fullyrði, að bæði hér og í öðrum löndum hafi reynslan sýnt, að það duga engin bannlög til þess að útrýma lönguninni í áfengi, bannlögin ná þar of skammt. Sú siðferðiskennd, sem ein getur útrýmt því, að menn séu á röndum að leita að áfengissopa í tíma og ótíma, kemur ekki frá lögunum, hún kemur innan frá. Meðan bindindisstarfsemin hneig í þá átt, að útbreiða þekkingu á því, hvað ofnautn áfengra drykkja hafi skaðleg áhrif á líkamlega líðan manna, þá var rétt stefnt, en þegar bindindisstarfsemin gengur út á það að lifa á lagaboði, sem vitaskuld er fyrirfram vitað, að ekki verður haldið, þá er rangt stefnt og þá er stefnt til full ósigurs fyrir þetta málefni. Sá ósigur, sem íslenzk bindindisstarfsemi hefir beðið við það að fara út á bannlagabrautina, er þegar að koma svo glöggt í ljós, að ekki er um að villast. Þeir, sem ekki vilja viðurkenna þennan ósigur í dag, þeir eiga eftir að viðurkenna hann, þó seinna verði. Ég vil ekki skipa mér í hóp þeirra manna, sem ætla að láta þetta þjóðfélag búa við hræsnislöggjöf. Þegar unglingarnir horfa á Pétur og Pál brjóta bannlögin, svo að segja leynt og ljóst, og heyra með fyrirlitningu talað um þessa löggjöf, það leiðir til þess, að sú kynslóð, sem upp vex í slíku andrúmslofti, lærir líka að fyrirlíta önnur lög, sem sett eru í þessu þjóðfélagi. - Við skulum líta rólega á þetta mál og koma okkur saman um, að það verði hollast fyrir löggjöfina að takmarka afskipti sín af nautnum manna við það, sem unnt er að láta fram fylgja, en það er vitanlegt, að á sér ekki stað með bannl. eða áfengislöggjöfina, sem við nú eigum við að búa. Hv. þm. Str. taldi það mjög ósæmilegt, ef það væri höfð sem ástæða fyrir því að bera fram breyt. á áfengislögunum, að ríkið þyrfti að hafa tekjur af áfengisnautn, og í því sambandi sagði hann, að búið væri að sýna fram á með tölum, að hér á landi væri minni áfengisnautn en í öðrum löndum. Það má kannske sýna fram á með tölum, hvað áfengisnautnin sé mikil í útlöndum, en hver getur sýnt fram á, hve mikið sé drukkið hér á landi? Það má kannske vita, hvað Áfengisverzlunin selur mikið áfengi, en hver telur alla landabrúsana, sem seldir eru hér á landi? Og hver telur það, sem flutt er inn ólöglega? Fyrst mikið er brúkað af áfengi í landinu, áfengi, sem gefur engar tekjur í ríkissjóð, heldur þvert á móti, en menn vilja samt vinna það til að brjóta lögin til að ná í það, er þá nokkuð ósæmilegt að stinga upp á því, að ríkissjóður fái tekjur af því áfengi, sem brúkað er í landinu? Ég sé ekki þann ósóma vera frekar í sambandi við víninnflutning samkv. þessu frv. en nú er t. d. hvað Spánarvínin snertir. Á það má benda í þessu sambandi, að þrátt fyrir takmarkanir ríkisstj. á þörfum og óþörfum vöruinnflutningi flytur Áfengisverzlunin inn Spánarvín eins og ekkert hafi í skorizt. Munu það ekki vera tekjur ríkissjóðs af Áfengisverzluninni, sem hér ráða mestu um? Ég ætla, að svo sé, a. m. k. þangað til háttv. þm. Str. hefir bent á aðra líklegri ástæðu fyrir þessum aðförum ríkisstj. í sambandi við takmörkun á innflutningi óþarfavarnings.

Hv. þm. Str. drap réttilega á þá bindindishreyfingu, sem ungmennafélögin á sínum tíma komu af stað. Það er alveg rétt, að ungmennafélagsskapurinn hratt af stað mikilli hreyfingu í þá átt, að gera menn bindindissama, og í þessu sambandi skildist mér á hv. þm., að nú væri einhver hreyfing að vakna hjá hinni ungu kynslóð í bindindisáttina. Það kann að vera, að svo sé, ég veit ekki, hve margir geta borið hv. þm. vitni um það, að sérstakur bindindisáhugi sé nú vaknaður hjá unglingunum í landinu. Ég verð að segja það, að ég hefi ekki komið auga á þessa vakningu, því miður. Ég hefi hinsvegar komið auga á hina mestu afturför í því, að unglingarnir yfirleitt hafi áhuga fyrir bindindi og forðist áfengisnautn. Einstakar undantekningar eru og verða auðvitað alltaf til í þessu sem öðru. Ég hefi komið auga á það, að fjöldi af unglingum og m. a. s. á mjög ungum aldri eru sólgnir í áfengi, eitthvert áfengi, fengið með einhverju móti. Þetta gerist vitaskuld að mestu leyti í skúmaskotunum að því er snertir sumar drykkjarvörurnar. Allt áfengi, sem ekki er Spánarvín, verður að hafa um hönd eins og ófrjálsan hlut, vegna bannlaganna, en það er haft um hönd eigi að síður. Ég er bindindissinnaðri í dag en ég hefi verið nokkru sinni áður, en þó geng ég að því með glöðu geði að rífa niður þann svikahjúp, sem menn nefna bannlög hér á landi, vegna þess, að ég veit, að hin einasta frelsun í þessu efni fyrir unglingana, frelsun frá því að lenda á refilstigum ofdrykkjunnar, er sú, að það skapist hreinar línur í þessu máli, en þær skapast ekki með bannlögunum og með þeirri breytni, sem af hálfu þjóðarinnar fer fram gagnvart bannlögunum. Meðan unga kynslóðin vex upp undir þeim skilyrðum, sem skapazt hafa við bannlögin, þá er engin von til þess, að hjá henni risi upp heilbrigð bindindissannfæring. Þá fyrst, þegar búið er að skapa hreinar línur í þessu efni, þá fyrst, þegar unglingarnir þurfa ekki að horfa upp á það, að hinir eldri brjóti lögin til þess eins að fá sér í staupinu, þá fyrst þegar þeir hætta að heyra talað með lítilsvirðingu um bannlög og bindindi þá fyrst er von til þess, að hægt sé að innræta ungdóminum í landinu sanna virðingu fyrir bindindi og bindindisstarfsemi. Ég staðhæfi, að hinn einasti rétti grundvöllur fyrir bindindisstarfsemina í landinu sé sá, að við getum innrætt unglingunum þessa virðingu fyrir bindindi, virðingu, sem er sprottin af þekkingu og bindindisáhuga, og sem er framknúin af manndómi þeirra yngri og eldri, sem af frjálsum vilja sneiða hjá því að neyta skaðlegra drykkja. Það er sá rétti grundvöllur fyrir holla bindindisstarfsemi í landinu. Að vísu eru enn til einlægir bindindisvinir, sem þrátt fyrir alla annmarka bannlaganna vilja enn halda í bannlagaslitrið, eins og hv. þm. Str. nefndi það, af ótta við það, að ástandið kunni að versna, ef við þessu er hróflað. Þessum mönnum mun þó óðum fara fækkandi, eftir því sem augu manna opnast fyrir því hyldýpi spillingarinnar í opinberu lífi, sem leiðir af því að hafa bannlög, sem allur fjöldinn brýtur og þverbrýtur kinnroðalaust. En þetta ástand, sem nú er, og bannlagahræsnin, er sá akur, sem er bezt til þess fallinn að rækta í illgresi og pólitísk dusilmenni, sem reyna að „slá sér upp“ í augum fólksins, með því að berja sér á brjóst á strætum og gatnamótum, þakkandi fyrir það, að þeir séu ekki af sama sauðahúsi og við hinir „ölkæru“ menn, sem þeir kalla svo, sem ekki vilji hafa bannlög eða bindindi í landinu. Má vel vera, að það fari svo, að þingið láti undan fallast að gera skyldu sína í þessu máli í þetta skipti. Það virðist svo sem menn séu hræddir við að hreyfa við þessari löggjöf, en þeir, sem nú standa í vegi fyrir framgangi þessa máls, þeir gera það - ég vil ekki segja vísvitandi -, en þeir gera það til hagsmuna fyrir lögbrotastefnuna í landinu, þeir gera það til hagsmuna eiturdrykkjunni í landinu og þeir gera það til hagsmuna fyrir hræsni og yfirdrepskap í opinberum málum yfirleitt. En sá dagur kemur, þegar þjóðarþing Íslendinga varpar allri þessari hræsni fyrir borð og byggir meira á hinu rétta hugarfari þjóðarinnar en lagabókstaf, sem allir brjóta. Þungamiðjan í afstöðu minni til þessa máls er sú, að vegna þess að ég er hlynntur bindindi og andstæður ofnautn áfengis, vil ég afnema það ástand, sem gerir allt bindindisstarf vonlaust, en það tel ég vera, meðan bannlagahræsnin situr í öndvegi hjá þjóð og þingi.

Ég álít eins og nú er komið afnám bannlaganna vera nauðsynlegt skilyrði fyrir því, að sönn bindindisstarfsemi, sprottin af innri hvötum, geti þrifizt hjá þjóðinni.