29.03.1933
Efri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í D-deild Alþingistíðinda. (5000)

130. mál, kaup hins opinbera á jarðeignum

Jón Jónsson:

Hér er um svo stórt og þýðingarmikið mál fyrir landbúnaðinn að ræða, að ég kann ekki við, að það fari órætt gegnum þessa umr. Þetta er vitanlega stórt stefnumál, er fer í alveg öfuga átt við stefnu undanfarandi ára, þar sem þjóðin hefir verið að selja í hendur einstaklinga þær jarðir, er hún hefir sjálf átt. Um réttmæti þess má vitanlega deila, en þetta hefir verið stefnan. En nú er lagt til, að alveg verði snúið við blaðinu og ríkið látið kaupa allar jarðir landsins, þær sem það ekki á nú. Þetta er vitanlega mál, sem skiptir landbúnaðinn afarmiklu. Og ég held, að réttast væri, að almennar óskir væru fram komnar frá bændastétt landsins, áður en málið er borið fram á Alþ. En mér er ekki kunnugt um, að slíkar almennar óskir hafi komið fram. Hið eina, sem hægt er að skjóta sér á bak við sem vörn fyrir, að þetta mál er fram borið nú, er núv. neyðarástand. Í einstaka héraði hafa kannske nokkrir menn fyllzt æðru og ekki séð aðrar útgöngudyr en þær, að biðja landið að hlaupa undir bagga á þann hátt að taka af sér jarðirnar. En það væru meira en lítil ósköp, að nota sér svo neyð bænda, að farið sé að taka af þeim jarðirnar, og það með slæmum skilmálum fyrir þá, því annað yrði ekki hægt á þeim erfiðleikatímum, er nú standa yfir. Og ég býst við, að bændunum mörgum hverjum mundi verða þetta viðkvæmt mál, sem sannarlega er að vonum.

En á þetta mál ber einnig að líta frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Það er nú einu sinni svo, að eiginhagsmunahvötin er töluvert sterkur þáttur til að hvetja menn til dáða og framtaks. Því er það, að þær jarðir eru meira bættar, sem eru í sjálfsábúð, en þær, sem eru í leiguábúð. Till. þessi fer að því leyti inn á varhugaverða braut. Menn segja að vísu, að þetta megi tryggja betur með bættri ábúðarlöggjöf. En þótt um þetta hafi verið rætt, þá er þetta þó svo skammt á veg komið enn, að við höfum enga reynslu í því efni. Mér þykir það ólíklegt og trúi því ekki, að erfðaábúð veki sömu hvöt til dugnaðar og framtakssemi eins og sjálfseignarábúð. Að jarðirnar séu eign bændanna sjálfra, ætti að skapa festu í þjóðfélaginu og festa menn við byggðina. Er það mikilsvert atriði fyrir landbúnaðinn, að þar sé ekki allt á hverfanda hveli.

Hv. flm. gat þess, að allt að helmingi jarða væri í leiguábúð. Það er rétt, að þetta er alvarlegur hlutur. Þingið hefir líka tekið þetta til athugunar og hefir á undanförnum þingum verið að undirbúa vandaða landbúnaðarlöggjöf, sem tryggir á mikilsverðan hátt rétt leiguliða. Vona ég, að þessu Alþ., er nú situr, takist að reka smiðshöggið á það mikla verk, sem þar er verið að vinna. En hitt teldi ég illa farið, ef þingið færi nú að láta undirbúa ríkisrekstur á jörðunum. Ég held, að bændum kæmi það nokkuð á óvart og mundi líka það illa. Það er jafnvel særandi fyrir bændur, ef að því ráði yrði horfið nú, þegar þeir eru í hinum mestu erfiðleikum, sem yfir þá hafa komið um langt skeið.