06.05.1933
Neðri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (5004)

81. mál, sjúkrasjóð ríkisins

Hannes Jónsson:

Mér þykir það einkennilegt, hvernig hv. fjvn. afgreiðir þetta mál. Kemur mér það undarlega fyrir sjónir, hversu lítið er tekið undir aths. hv. þm. Borgf. Er það búið að margsýna sig, hversu mjög ákvæðin um úthlutun peninga þeirra, er menntamálaráðið átti yfir að ráða, verka í þá átt, sem ætlazt var til. Þau áttu að taka út úr þinginu allar fjárveitingar í þessu efni, en reyndin hefir orðið þveröfug. Þegar menntamálaráðið er búið að úthluta þeim styrk, sem það ræður yfir, þá koma hinir til þingsins, sem menntamálaráð hefir ekki veitt styrk, og fá þá oft meira en hinir. Skyldi ekki geta farið svo hér, að þeir, sem landlæknir hefir ekki lagt til, að fengju styrk, kæmu til þingsins og fengju e. t. v. hærri styrk en hinir? Er ástæðulaust að fara nú að stíga sporið áfram til að auka á vitleysuna í úthlutun þeirra styrkja, sem hér er um að ræða.

Ég held, að misskilningurinn milli hv. þm. Borgf. og hv. 2. þm. Rang. sé meiri á hlið hv. 2. þm. Rang. Sjúkrahússtyrkur sá, sem settur var á sveitirnar með lagabreytingunum í fyrra, hefir litla þýðingu fyrir meðaltalssveitarþyngsli í landinu, en hann hefir aftur nokkra þýðingu fyrir þær sveitir, sem minnstan kostnað hafa haft af fátækraframfærinu, og er það ekki nema rétt, að þær borgi líka sinn hluta. Í l. þeim, sem afgr. voru hér í fyrra, var verið að reyna að skapa jafnvægi milli byrða hinna ýmsu sveitarfélaga. Vildi ég því óska, að hv. þingd. vildi athuga málið vel, áður en hún gengi inn á þá varhugaverðu braut, sem hér ræðir um. Sérstaklega kemur mér það einkennilega fyrir sjónir, að mikill hluti fjvn.manna gengur inn á þessa braut. Með þessari stefnu er verið að skapa aukið ósamræmi milli fjárveitinga þingsins og styrkja, sem menntamálaráðið veitir.