07.04.1933
Neðri deild: 47. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (5007)

52. mál, friðun fugla og eggja

Bjarni Ásgeirsson:

Ég hefi nú hlustað á hin háu vísdómsorð, er drupu af vörum hv. 2. þm. Rang. Var það sami svanasöngurinn og ég hefi séð í blöðum hér undanfarið, og svipaður öðrum svanasöng að því, að þar var fátt af ófölskum tónum. Hv. frsm. talaði um eitthvað hlægilegt í málinu. En það er aðeins eitt hlægilegt í því, sem sé þessi tryllingskennda móðursýki, sem gripið hefir karla og konur, síðan hreyft var við þessu máli. Læknar hafa ýmsar aðferðir til þess að kanna það, hvort fólk gangi með leynda sjúkdóma. Ég held, að þetta mál gæti verið góður prófsteinn á það, hvort menn gengju með hysteri. Fólk er hér búið að æsa sig upp í þá hugmynd, að svanirnir séu einhverjir heilagir fuglar, sem ekki megi hrófla við. Dettur mér í hug í þessu sambandi saga ein frá Grænlandi. Tveir Eskimóar sáu svani tvo fljúgandi og héldu, að þetta væru englar. Englarnir settust á klett, og gengu mennirnir þangað. Þegar þeir komu á staðinn, sáu þeir, að fuglarnir höfðu skilið þar eftir það, sem flestar jarðneskar verur verða að gefa frá sér við og við, og þóttust þeir þá sjá, að þarna gætu ekki verið neinar ódauðlegar verur á ferðinni. Veit ég ekki, hvort slík dæmi myndu nægja hér til þess að útrýma þeirri, ég vil segja heiðnu skurðgoðadýrkun á þessum fuglum, sem hér er risin upp.

Þessi dýrkun á svanasöngnum er ekki ný. Gamalt máltæki segir, að svanirnir hafi himneska rödd, en helvízkan anda. Gat þessi skoðun á söngrödd svananna myndazt á þeim túnum, þegar hámark hljómlistar hér á landi var fólgið í rímnakveðskap og menn höfðu ekki næmara eyra en sem því svaraði. En orðin um „helvízkan anda“ benda á, að menn hafi þá verið búnir að koma auga á það, að þetta væru engir himneskir fuglar að öllu leyti.

Mótbárurnar gegn frv. hafa fyrst og fremst verið þær, að svanirnir hefðu fagra söngrödd. Það er að vísu rétt, að skáldin hafa mjög ort um svanasönginn og gert hann dýrðlegan í kvæðum sínum. En þeim hefir sjálfsagt mörgum farið eins og skáldi einu, sem var nýbúinn að yrkja eitt hið fegursta kvæði sitt um svanasöng. Hann kom þar að, sem mikið var af álftum, og þegar hann heyrði til þeirra, spurði hann: „Hvaða garg er þetta?“ Hann hafði aldrei heyrt til þeirra áður. Er þetta enda enginn söngur, heldur argasta garg, sem minnir á negramúsik, sem stundum heyrist hér í útvarpinu. Enda hefi ég heyrt eftir manni, sem mun hafa einna mest vit á sönglist hérlendra manna, að svanirnir hafi aðeins 2 nótur í barkanum, og báðar falskar. Það er ekki nema þegar svo sem 2 álftir eru saman og kvaka öðruhverju, að brugðið getur fyrir einhverju, sem líkzt gæti söng. Mér þykir leitt, að hv. þm. Dal. er hér ekki viðstaddur, því að annars myndi ég ráðleggja honum að fá sér fáeinar álftir og láta þær syngja í útvarpið, eða þá að láta taka sönginn á plötu. Myndu menn þá sennilega sannfærast um, að ekki er þörf að friða þær söngsins vegna.

Sumir segja: „Um hvað eiga skáldin að yrkja, þegar búið er að drepa svanina?“ Það er að vísu rétt, að mörg skáld hafa ort um þá, en þau kvæði eru einmitt kveðin á þeim tímum, þegar samskonar friðun þessara fugla ríkti og sú, sem ég vil lögleiða, eða fram að 1913. Síðan hefir ekki verið ort eitt einasta almennilegt kvæði um svanina. En núna, þegar þessu máli er hreyft hér á þingi, þá sprettur upp hver maður af öðrum, og þ. á m. menn, sem skaparinn sýnilega hefir aldrei ætlað að fást við þessa göfugu list, skáldskapinn, og syngur svönunum lof og prís. Hvað skyldi þá verða um hina stærri spámenn? Það er því helzt svo að sjá, að einmitt friðunarlögin hafi haft svæfandi áhrif á „svanastefnuna“ í íslenzkum skáldskap.

Þá er fegurð álftanna. Mér finnst nú margir fuglar, sem ekki eru alfriðaðir, mun fallegri, t. d. stokkendur, og meira að segja mörg hænsn. Álftirnar eru bæði elskulegar og óliðlega vaxnar. En þó að mönnum kynni nú að þykja þær fagrar, þá er fleira, sem taka verður til greina. Það er eins og þegar bóndinn sagði : „Fallegt er hér, þegar vel veiðist“. Sóley er falleg út af fyrir sig, en þegar tún er alþakið sóleyjum, þá eru þær ekki lengur fallegar. Menn hafa það þá á tilfinningunni, að þetta sé illgresi. Líkt er um baldursbrána. Hún er ekki lengur fögur, þegar svo mikið er af henni, að hún útrýmir öðrum nytjagróðri, eins og ég hefi séð dæmi til. Þar, sem svo hefir verið, hefi ég ekki séð í allri fegurð þeirrar jurtar annað en viðurstyggð eyðingarinnar. Svanir eru ef til vill fallegir, þar sem þeir eru ekki annað en luksus, en þegar þeir eru orðnir að landplágu, sem eyðileggur lífsskilyrði manna, þá eru þeir beinlínis ljótir.

Ég vil enn benda mönnum á, að með frv. er ekki farið fram á að útrýma álftunum, heldur það eitt, að takmarka viðkomuna, eða að sömu 1. gildi um þetta og þau, sem í gildi voru fyrir 1913, og var þó þá aldrei hætta á, að svönum yrði útrýmt af manna völdum. Í frv. er auk þess ákvæði um, að ríkisstj. geti tekið í taumana, ef útlit yrði fyrir, að svanir eða aðrir fuglar þyrru um of. Annars eru svanir mjög varir um sig, og stafar þeim lítil hætta af skotum. Það eina, sem getur útrýmt þeim, er, að þeir séu eltir uppi, meðan þeir eru í sárum, en þann tíma yrðu þeir friðaðir samkv. frv.

Það hafa komið fram óskir um það frá Dýraverndunarfélagi Íslands, að frv. yrði fellt. Vildi ég óska, að stjórn þess félags hefði tækifæri til að sjá svipaða sjón og ég hefi séð, þegar svanir liggja tugum og hundruðum saman hálf- og aldauðir, frosnir niður í ísa og ófærir um að veita sér nokkra björg, þegar maður verður að brjóta lög til þess að fremja það miskunnarverk að skjóta þessa vesalinga til að stytta eymdarstundir þeirra. Ef minna væri af svönunum, þá væri í harðindum frekar mögulegt fyrir þá að lifa á þessu takmarkaða svæði hér á landi, þar sem þeir geta bjargað sér, þegar að sverfur. En ef svönunum er leyft að fjölga ótakmarkað í góðærum, verður það til þess, að þeir falla hrönnum saman á ísaárum. Þessi dauði verður þeim þá miklu kvalafyllri en dauði fyrir skotum t. d. Álít ég, að ef nokkur hugur fylgir máli um það, að reyna að draga úr kvölum þessara dýra, þá beri að halda fjölguninni svo í skefjum, að þeir geti lifað af hörðu árin, en hrynji ekki niður af hungri og hor. Menn skyldu ætla, að þetta atriði væri nægilegt til að mæla með frv. En svo er annað: Þegar svönum fjölgar um of, verða þeir hreinasta landplága. Hefi ég fengið bréf úr mörgum sýslum, þar sem mér er þakkað fyrir þetta frv. Þar, sem svanir hafa setzt að hundruðum eða þúsundum saman, geta þeir eyðilagt á einni nótt heil engjasvæði. Troða þeir og éta grasið og ganga svo frá því, að það rís ekki allt sumarið. Nenni ég ekki að lesa upp þessi bréf, en get sýnt þau þeim, sem vilja. Ég vil tilfæra hér nokkur atriði úr grein eftir bónda einn, sem hefir meira vit á þessu en allir þeir til samans, sem um þetta mál hafa talað og ritað. Segir hann, að svanir séu sumstaðar svo ágangssamir, að þeir drepi fullorðið fé. Í Grímsnesi drápu þeir í fyrra 5 kindur. Þá vissi hann til þess, að svanur drap á frá lambi. Veit hann til þess, að þeir hafi ráðizt á menn, sem sloppið hafa rétt með naumindum bláir og blóðugir. Svo er ætlazt til, að menn friði þessa óvætti og syngi um „álftavatnið bjarta“.

Mér finnst ég aðeins hafa gert eitt skakkt í þessu máli; sem sé að leggja til, að ófriðunin verði takmörkuð. Þar, sem álftir eru mestir vargar, ættu þær að vera ófriðaðar allan ársins hring. Eru dæmi til þess, að menn verða að vaka um nætur yfir búum sínum og fara með hunda til þess að verja tún og engi fyrir svönum. Þegar menn eru búnir að girða fyrir öðrum ágangi, þá kemur þetta úr loftinu og veldur því, að þeir verða að vaka til þess að geta varið land sitt fyrir þessum óþokkadýrum.

Það má vera, að þetta frv. verði fellt, að menn vilji heldur friða þessa skaðræðisgripi en að friða landsnytjar. Treysti ég þá hv. þm. Ísaf. til að hjálpa mér til að koma fram breytingu á l. um skemmtanaskatt, svo að hægt sé að láta þá, er gaman hafa af þessum fuglum, borga þann skaða, sem þeir vinna öðrum.

Þá er uglan. Menn hafa talað um, að hér væri svo lítið til af uglu, að óþarft væri að gera neinar ráðstafanir gagnvart henni. Get ég þó fullvissað hv. dm. um, að hún er til, og sumstaðar hinn mesti skaðræðisgripur. Hefir hún lagzt á varp og eyðilagt góð varplönd nú í 2 ár. Sé ég ekki ástæðu til að friða slíka ránfugla. Þótt lítið sé til af henni, er það engin sönnun fyrir því, að hana beri að friða. Allt, sem verður til að spilla afkomu manna í þessu lífi, hvort sem það eru fuglar, dýr eða sóttkveikjur, skoða ég sem meinsemd eða sjúkdóm á tilverunni, er beri að uppræta algerlega. Myndi nokkur læknir berjast fyrir því, að berkillinn væri friðaður, ef svo væri orðið lítið til af honum, að útlit væri fyrir, að hann liði alveg undir lok? Hvaða ástæða er þá til að friða þessa fugla, sem gera ekki annað en spilla velferð manna, sem eiga að drottna yfir heiminum? Auk þess eru uglurnar engir prýðifuglar. Sýnist þá helzt sem svanirnir eigi að vera friðaðir vegna þess, hvað þeir eru fallegir, en uglurnar af því, hvað þær eru ljótar. Hv. þdm. vilja kannske heldur friða þessa fugla en þá menn, sem verða fyrir skaða af þeirra völdum og eiga að annast framfærslu sína og sinna og borga gjöld til ríkis og sveitar. En þeir, sem það gera, virðast álíta, að mennirnir séu til vegna fuglanna, en ekki öfugt.