19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í C-deild Alþingistíðinda. (5008)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 2. þm. Rang. hefir nú borið fram þá brtt., sem ég benti honum á fyrir nokkrum mínútum, að nauðsynleg mundi verða til þess að ákvæði frv. njóti sín svo sem til er ætlazt af hv. flm., því það er t. d. engin ástæða til þess að fara að fella niður útflutningsgjald af dún, því hann er ein sú vara, sem enn er nokkurnveginn í fullu verði, miðað við það, sem var fyrir verðfallið. Eins og vafi hefði getað verið á því, hvort dúnninn heyrði undir landbúnaðarafurðir, hefði sömuleiðis getað orðið álitamál um laxinn, en nú tekur brtt. af allan efa í því efni. Þrátt fyrir þetta get ég ekki séð, að það eigi að samþ. þetta frv. Á Alþingi árið 1925 var samþ. að hækka útflutningsgjald af öllum útfluttum vörum um ½% af verði varanna. Þessi hækkun var þeim samningum bundin, að tollinum skyldi varið til eflingar landbúnaðinum og sjávarútveginum, þannig, að til ársloka 1926 skyldi hann allur renna til ræktunarsjóðs, en frá 1. jan. 1927 skyldu ¾ þess tekjuauka, er þessi hækkun á útflutningsgjaldinu orsakaði, fara til styrktar sjávarútveginum, en ¼ til ræktunarsjóðs. Það er því bert, ef frv. verður að lögum, að þá er það til mikils hnekkis fyrir ræktunarsjóð, og óneitanlega koma þær afleiðingar, sem þar af leiðir, eingöngu niður á bændum landsins. Það er og kunnugt, að aðalbankastjóri Búnaðarbankans, sem hefir umsjón með ræktunarsjóði, telur það misráðið að svipta hann þessum tekjum, og sömuleiðis hefi ég talað nýlega við hinn bankastjóra Búnaðarbankans, sem sæti á í þessari hv. d., og skildist mér, að hann vera sammála aðalbankastjóranum. Hér er verið að ræða um að taka af sjóði þeim, sem myndaður er til þess að hjálpa bændum, og skila því til bændanna sjálfra. Það er því að nokkru leyti verið að taka úr einum vasanum og láta í hinn með þessu frv. Það verður á það að líta, að það er alveg nauðsynlegt að efla ræktunarsjóð, til þess að hann nái því takmarki, sem honum var upphaflega ætlað að ná, og það er ekki hægt að ætlast til þess, að sjávarútvegurinn sætti sig við að greiða allt það gjald, sem ræktunarsjóður á að fá samkv. samningunum 1925, ef landbúnaðurinn dregur sig alveg til baka; afleiðingarnar af því mundu ganga út yfir bændur síðar. Ég held þess vegna, að það sé tvíeggjað sverð, að samþ. þetta frv. Hér er heldur ekki um svo mikilsvert atriði að ræða, að það taki því að fara að leggja það í hættu, sem í hættu kann að vera.