24.04.1933
Efri deild: 54. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 773 í C-deild Alþingistíðinda. (5012)

164. mál, síldarbræðslustöð dr. Pauls á Siglufirði

Flm. (Jón Baldvinsson):

Ég gerði ráð fyrir því, þegar þáltill. um þetta efni var til umr. hér í þd., að bera fram þetta frv., sem er svipaðs efnis. Eins og hv. þdm. muna, þá átti með þáltill. að heimila stj. að taka á leigu síldarbræðslustöð dr. Pauls á Siglufirði. En sjútvn. breytti till. í það horf, að ákveðin bræðslustöð var ekki nefnd, heldur að leigð yrði og starfrækt síldarbræðslustöð á Siglufirði eða annarsstaðar, sem ella mundi verða óstarfrækt næsta síldveiðitímabil. Það gæti að vísu verið um fleiri síldarbræðslustöðvar að ræða, en nú stendur svo á, að síldarbræðslustöð dr. Pauls er hentugri en aðrar stöðvar til starfrækslu í sambandi við ríkisverksmiðjuna, og þess vegna hefi ég helzt komið auga á hana sem nauðsynlegan hjálparmöguleika til þess að bæta úr hinni miklu þörf síldarútvegsmanna til þess að selja síld á Siglufirði, þar sem svo mörg skip eru þar á síldveiðitímabilinu. Í þáltill., sem samþ. var hér í þd., felst að vísu nægileg heimild fyrir stj. til þess að semja um leigu á síldarbræðslustöð. En það gæti farið svo, að slíkir samningar tækjust ekki við eiganda bræðslustöðvarinnar, og þess vegna vildi ég leggja það til, að Alþingi heimilaði stj. að taka sér til handa eignarnámi afnotarétt verksmiðjunnar. Ég álít, að aðstaða stj. sé sterkari, ef hún hefir þessa lagaheimild til þess, svo framarlega sem samningar takast ekki um leigu á bræðslustöðinni. Ég hygg, að samkv. þáltill. hafi stj. heimild til að taka fleiri síldarbræðslustöðvar á leigu, og mætti það gjarnan standa, þó að þetta frv. verði samþ. Það er svo mikið búið að ræða þetta mál, að ég sé ekki ástæðu til að fara út í einstök atriði þess. Hv. þdm. þekkja það svo vel; hvað síldarbræðslan er nauðsynlegur liður við rekstur síldarútvegsins hér á landi og þeir vita, hvað það hefir mikla þýðingu fyrir síldveiðiskipin, ef hægt er að auka síldarbræðsluna.

Ég legg til, að þessu frv. verði vísað til hv. sjútvn., og vildi ég jafnframt mælast til þess, að n. afgreiddi það sem fyrst til d. aftur, til þess að útgerðarmenn gætu sem fyrst gert sér grein fyrir því, hvers vænta má á þessu sviði í sumar, og hvaða vonir þeir mega gera sér um það, að stj. semji um aukna möguleika fyrir síldarbræðslu á komandi vertíð. - Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en vænti þess, að hv. þd. taki vel í málið, enda ber þinginu skylda til þess að draga sem mest úr þeirri skaðsemi, er stafar af norsku samningunum, sem nú er búið að samþ. og afgr. frá þinginu.