01.03.1933
Neðri deild: 13. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 682 í B-deild Alþingistíðinda. (503)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég vil svara fyrirspurn hv. þm. N.-Ísf. um það, hvort ég þekki til þess, að bifreiðar lækna séu „lúxus“-bifreiðar. Ég skal játa það, að ég hefi ekki mikinn kunnugleika í þessum efnum, en þau dæmi, sem ég þekki, styðja mína skoðun á því, að slíkar bifreiðar séu a. m. k. eins mikið notaðar til skemmtiferða.

Þá hélt hv. þm. því fram, að í nágrannalöndunum væri endurgreiddur tollur af öllu því benzíni, sem notað væri til annara véla en bifreiða. Þetta er ekki rétt hjá hv. þm., a. m. k. hvað snertir Danmörku og Noreg. Í Danmörku er ekki endurgreiddur benzínskattur á minni ársúttekt en 1000 1. og í Noregi eru 2000 1. lágmark fyrir endurgreiðslu. (JAJ: Ég átti við England). Það er því ekki hægt að vitna til nágrannaþjóðanna í þessu efni. Ekki heldur hvað skattinn sjálfan snertir. Í Noregi hækkaði benzínskatturinn úr 6 aur. í 8 aur. pr. lítra síðastl. ár, og gúmmískatturinn úr 2 kr. í 3 kr., en í hlutfalli við það er hann 1 kr. hér á landi. Og að síðustu liggja fyrir norska þinginu till. um að hækka benzínskattinn upp í 10 aur. pr. lítra. Þetta sýnir, hversu erfitt er að vitna í nærliggjandi lönd fyrir þá, sem eru mótfallnir skattinum.

Ég vil taka það fram, að ég álít, að lækkun á skatti af bifreiðum lækna og ljósmæðra, sbr. þskj. 58, kunni aðallega til góða fyrir lækna og ljósmæður í Rvík og ekki fyrir sjúklingana. Það er skiljanlegt, þar sem þessi lækkun mundi ekki verða nema frá 30 til 78 kr. á ári, þá muni ekki vera svo hárnákvæmur útreikningur á vinnusölu þessara stétta, að eftirgjöf skattsins kæmi til sjúklinganna. Brtt. á þskj. 58 er því aðeins hjálp til lækna og ljósmæðra. Þeir hv. þm., sem álíta sérstaka þörf á því að veita þessum stéttum ívilnun fremur en öðrum, greiða brtt. að sjálfsögðu atkv., en ég álít, að þar sé a. m. k. ekki meiri þörf en annarsstaðar.