31.03.1933
Efri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (511)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Frsm. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Þetta frv. er ekki fyrirferðarmikið, eins og sjá má af þskj. 77, enda er það eins og það þar liggur fyrir í raun og veru ekki annars efnis en að framlengd verði óbreytt um ótakmarkaðan tíma 1. þau um bifreiðaskatt, sem sett voru á síðasta þingi.

Við athugun hafa komið í ljós ýmiskonar missmíði á þskj. 77, og hefir n. með brtt. á þskj. 156 tekið burtu og lagfært þessi missmíði, auk þess sem hún hefir gert nokkrar efnisbreyt., þó ekki séu umfangsmiklar.

Ég get þess strax til athugunar, að með brtt. á þskj. 156 er ætlazt til þess . . . [eyða í hndr.].

Henni er að vísu skotið inn á skakkan stað. En eftir brtt. n. breytist greinatalan á þann hátt, að það, sem er 3. gr. í frv. og breyt. á 7. gr. 1., það á að halda áfram að vera 3. gr., sem ekki fengi staðizt að frv. óbreyttu að öðru leyti.

Efnisbreyt. þær, sem felast í till. n. á þskj. 156, eru tvær. Önnur er sú að lækka innflutningsgjald af hjólbörðum og gúmmíslöngum úr 1 kr. og niður í 50 aur. kg. Þetta er vegna þess, að slíkt innflutningsgjald er bæði tiltölulega þungbært fyrir bílaeigendur og auk þess lítt sanngjarnt. Þegar þarf að endurnýja gúmmí á bifreiðum, þá er það stór upphæð, sem þarf að greiðast í einu. Og sú mikla verðhækkun, sem þetta aðflutningsgjald hefir orsakað, hefir orðið bíleigendum alveg sérlega tilfinnanleg. Það má nú óhætt segja um atvinnurekstur með bifreiðar nú, t. d. vörubifreiðar, sem mjög margir ökumenn eiga sjálfir, að þar safnast ekki fé fyrir, þannig að menn eigi auðvelt með að hafa handbærar upphæðir til þess að kaupa á öll fjögur hjól á vagni sínum með núverandi verði. Bensínskatturinn er að þessu leyti ekki eins tilfinnanlegur, af því að sú vara eyðist og greiðist smám saman eftir því, sem atvinna þá er til og tekjur koma á móti.

Það er sérstaklega lítil sanngirni í þessu gjaldi hér á landi, þar sem vegir allir eru verri en í nálægum löndum, og verður því sérstaklega mikið slit á þessum hluta bílanna, gúmmíslöngum og hjólbörðum. Það er ekki sanngjarnt að bæta þessu óvenjulega háa gjaldi ofan á óeðlilega mikið slit vegna slæmra vega. Og það er ekki heldur hægt að vísa í fyrirmyndir frá nálægum löndum í þessu efni, því að yfirleitt hafa menn horfið frá bifreiðaskatti í þessari mynd.

En aðalbreyt. n., sem hún einnig er sammála um, er sú, að nokkuð af bifreiðaskattinum gangi til þess að malbika umferðavegi í kaupstöðum og verzlunarstöðum með fleiri en 300 íbúa, eða gera á þeim slitlag úr öðru varanlegu efni. Þetta byggist nú á því, að umferð bifreiða er náttúrlega hvergi meiri heldur en um fjölfarna vegi í kaupstöðum og verzlunarstöðum, og þess vegna er hvergi meiri þörf á því að gera varanlegt slitlag fyrir bifreiðaumferð en einmitt á þeim vegum. Hér við má bæta því, að mikill hluti af þessum fyrirhugaða bifreiðaskatti hlýtur að liggja beinlínis á atvinnurekstri bifreiða innan þessara kaupstaða og verzlunarstaða, og er þess vegna í raun og veru sjálfsagt, að slíkir staðir njóti líka hæfilegs hluta af þeim tekjum.

Um þetta stingur n. upp á að setja ákvæði, sem eru samstæð ákvæðum núgildandi l., um þau 20% af bifreiðaskatti, sem á að verja til að malbika þjóðvegakafla, þar sem mest er umferð bifreiða. V. stingur upp á, að ráðh. sé heimilt að krefjast jafnmikils framlags á móti þessum skatti frá hlutaðeigendum. Er ætlunin með því auðvitað sú, að ýta á eftir því, að nauðsynlegar umbætur helztu umferðaveganna í kaupstöðum og verzlunarstöðum komist sem fyrst áfram. Að þessu leyti fer n. fram á, að gerðar séu harðari kröfur til kaupstaða heldur en t. d. sýslufélaga, sem líka eiga að nota nokkuð af þessum skatti án þess að áskilja sér þar framlag á móti.

Með þessum breyt. hefir n. svo getað fallist á, að þessi löggjöf yrði sett án tímatakmarks, eins og stjfrv. fer fram á.

Við þessar till. n. eru nú komnar fram brtt. á þskj. 284 frá hv. 3. landsk. og hv. 2. þm. Eyf. Fyrsta brtt. þeirra fer fram á, að jafnframt þessu verði benzínskattur hækkaður úr 4 aur. og upp í 5 aur. Skil ég, að það muni eiga að vera til uppbótar fyrir þá lækkun á tekjum, sem stafar af niðurfærslu gúmmískattsins eftir till. n. N. hefir nú ekki borið sig saman um þessar brtt., og ég segi þess vegna aðeins fyrir mig persónulega, að ef frv. annars fengi framgang í þeirri mynd, sem ég get fallizt á, þá mundi ég ekki gera þessa hækkun benzínskattsins að ágreiningsatriði. Og þessari skoðun minni hefi ég þegar lýst við meðferð málsins í n.

En svo flytja þessir sömu hv. þm. tvær brtt. undir stafl. a. og b við ákvæði um þann hluta skattsins, sem n. vill láta ganga til kaupstaða og verzlunarstaða með fleiri en 300 íbúum. Þar fara þeir nú fyrst og fremst fram á, að heimilað verði að krefjast tvöfalds framlags á móti. Ég veit ekki, á hverju þetta er sérstaklega byggt. En mér finnst ekki neinn jöfnuður í því að heimta tvöfalt framlag móti þessum skatti af kaupstöðum eða verzlunarstöðum, sem eru hreppar út af fyrir sig, þar sem ekki er heimtað nokkurt framlag á móti frá sýslufélögum. Mér finnst ekki á neinn hátt sanngjarnt að fara lengra í þessu efni en n. stingur upp á, að heimila, að krafizt sé jafnmikils framlags á móti.

Um b-lið brtt. hefi ég það að segja frá mínu sjónarmiði einnig, að mér finnst sú till. eiginlega hvorki geta staðizt að efni né formi. Sú till. byrjar með því að tala um styrk samkv. b- og d-lið þessarar gr. En það er enginn styrkur, það fé, sem hlutaðeigandi sveitarfélög, sýslufélög eða kaupstaðir eiga að fá af þessum sjóði. Það er þeirra eign og verður þeirra eign l. samkv., alveg jafnt og það, sem á að ganga til þjóðvega, verður ríkiseign.

Þá vill brtt., að mér skilst, binda notkunarheimild kaupstaða, verzlunarstaða og sýslufélaga á þessu fé því skilyrði, að hlutaðeigendur verji á því ári til vegaviðhalds a. m. k. sem svarar 20/00 af verði fasteigna innan bæjar, sýslu eða kaupsins, eftir fasteignamati. Ég vil leiða athygli að því, að það er í rauninni ekki unnt að tryggja framkvæmd þessa skilyrðis. Þegar á einhverju ári á að gera tilteknar framkvæmdir hjá þessum aðiljum fyrir fé af bifreiðaskattinum og framlagi á móti, þar sem þess er krafizt, þá verður það gert á því ári. En ekki verður séð fyrr en að loknu því ári, að reikningar eru gerðir upp, hversu miklu hefir verið varið til vegaviðhalds í því umdæmi. Er þess vegna ekki mögulegt að tryggja það, að þetta skilyrði, sem hér er sett, verði uppfyllt.

Hins vegar er skilyrðið sjálft alveg óeðlilegt. Tilgangurinn með því að vera að leggja á sig byrðar til þess að gera þetta varanlega slitlag fyrir bílaumferð, er einmitt sá, að losna undan viðhaldskostnaði veganna. Því að reynslan sýnir, að þar sem búið er að gera þetta fullkomna slitlag, og þar sem umferðin er eingöngu eða nær eingöngu bifreiðaumferð, þar hverfur viðhaldið. Þessir vegir slitna ekki. Hin alfjölfarnasta gata í Kaupmannahöfn slitnar minna en einn millimetra á ári. En slitlag það, sem á henni er, er ekki kostnaðarsamt að gera. Það er þess vegna algerlega ósamstætt að fara að setja þetta sem skilyrði fyrir því að mega gera þessa umbót, sem á að leysa kaupstaði undan vegaviðhaldi, að þeir á sama ári verji hárri upphæð til vegaviðhalds. Ég hefi litið eftir því, að hér í Rvík þýddi þessi krafa það, sem stendur, að bærinn ætti á því sama ári sem hann vildi fá að nota eitthvað af þessu sínu eigin fé úr bifreiðaskattssjóði, að verja 175 þús. kr. til vegaviðhalds. Þetta er hærri upphæð en bærinn, eins og nú stendur, sér fært að verja til vegaviðhalds. Og þegar þar við er búið að bæta, að hann eigi að leggja tvöfalt framlag til slitlagsins á móti því, sem má nota af bifreiðaskattsfénu, þá er orðinn úr þessu algerlega óeðlilegur fjötur af skilyrðum, sem ekki styðst við neina skynsemd, að ég get fundið. Ég vildi þess vegna mikillega fara fram á við hv. till.menn, að þeir tæki þennan b-lið seinni till. sinnar aftur. Ég álít ekki, að hann eigi heima í þessari lagasetningu. En um fyrri liðinn, hvort menn vilji gera kröfur um athafnir á þessu sviði svo miklar til kaupstaða og verzlunarstaða, að þeir leggi tvöfalt framlag á móti skattinum, um það álít ég, að atkv. verði að skera úr. Það er náttúrlega gott, ef efnahagur leyfir það, að hafa umbætur á slitlagi bifreiðavega þeim mun hraðari heldur en n. treysti sér til að stinga upp á. En þessi síðari liður finnst mér ekki á neinn hátt geta staðizt, eins og hann liggur fyrir.