31.03.1933
Efri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Jón Jónsson [óyfirl.]:

Eins og hv. frsm. hefir nú þegar minnzt rækilega á, þá höfum við hv. 2. þm. Eyf. leyft okkur að bera fram brtt. á þskj. 284 við brtt. n. á þskj. 156. Hann hefir skýrt þær frá sínu sjónarmiði, og vil ég nú skýra þær frá okkar sjónarmiði.

Fyrsta brtt. er um það að hækka benzínskattinn til þess að vega á móti þeirri lækkun á hjólaskattinum, sem verður, ef till. um það verður samþ. Ég skal geta þess, að við getum fallizt á till. um lækkun á hjólaskattinum eða gúmmískattinum, af því að hann kemur mjög óréttlátlega niður; hann er þungbær þar sem vegir eru slæmir og slysahætta fyrir hjólabörð er mikil. Þetta er ekki sízt í afskekktum héruðum. Benzínskatturinn kemur náttúrlega réttlátlegar niður, því að hann fer aðallega eftir því, hve mikið er keyrt. Hins vegar er hækkunin svo lítil, að hún gerir ekki meira en að vega á móti lækkuninni, sem stafar af hinni brtt.

Ég vil geta þess, að ef brtt. n. eru samþ. eins og þær liggja fyrir, þá verður það til þess, að framlag til beins viðhalds þjóðvega verður ekki meira en eftir l. þeim, sem giltu hér áður. En vitanlega er tilgangurinn með þessari lagasmið fyrst og fremst sá, að fá aukið þetta framlag til viðhalds þjóðvega.

Hv. frsm. tók nú fyrstu brtt. okkar vel, svo að ég vona, að ég þurfi ekki að fjölyrða meira um hana.

Þá er 2. brtt. í tveim stafliðum. Mér virtist hv. frsm. telja það nokkra ósanngirni að áskilja svona mikið framlag á móti eins og gert er í a-lið, til þess að gera varanlegt slitlag á bæjarvegi. En ég efast um, að þetta sé svo óeðlilegt. Fyrst og fremst er það, að til þess að koma í framkvæmd svo dýru vegaviðhaldi eins og það er að gera varanlegt slitlag, þá vinnst lítið, ef ekki er lagt eitthvað þó nokkuð meira fram en ríkissjóði er ætlað með þessu móti. Mér þykir ekkert óeðlilegt, til þess að tryggja framgang verksins, að áskilja nokkuð mikið framlag á móti. Í annan stað virðist ekki óeðlilegt að áskilja meira framlag frá bæjum en sýslum. Því að með tíð og tíma getur svo farið, að bæirnir eftir þessu ákvæði geti fengið framlag úr ríkissjóði til endurbóta á öllum sínum vegum. En eftir núgildandi löggjöf fá sýslufélög ekki framlag frá ríkissjóði til meiri hl. vega, nefnilega allra hreppavega. Í þeirri sýslu, þar sem ég er kunnugastur, er meiri hl. vega hreppavegir, sem fá ekkert framlag. Það sýnist því ekki óeðlilegt, þótt bæjarfélögin leggi töluvert meira til. Það er ekki líklegt, að þau verði neitt harðar úti fyrir því heldur en sýslufélögin. Í flestum sýslum mun kostnaðurinn við hreppavegina vera eins mikill og við sýsluvegina, og sumstaðar tvöfalt meiri.

Ég skal geta þess um þessa brtt., að hún er samin í samráði við vegamálastjóra, og hann mun leggja töluvert mikla áherzlu á hana, bæði að framlagið sé áskilið svona mikið, og eins að hægt sé að setja skilyrði, sem tryggi betur framkvæmd verksins, svo að hann geti haft hönd í bagga um, að fénu sé vel varið og þar, sem mest þörf er á.

Annars skal ég geta þess, að ég veit ekki, að hve miklu gagni það er fyrir bæjarfélög yfirleitt eins og nú standa sakir, að hafa ráðagerðir um að gera svona slitlag á vegi. Ennþá hafa þau ekki treyst sér til að leggja í það nokkuð að ráði, nema Rvík ein. Þykir mér því spursmál, hvort heppilegt sé að miða eingöngu við þessa gerð vega. Þótt æskilegt sé, að vegirnir kæmust í þetta horf, og það sem fyrst, þá býst ég við, að þessi ákvæði verði notuð fyrst um sinn í Rvík einni.

Þá er seinni liður okkar seinni till., sem hv. þm. fór mjög hörðum orðum um, og taldi, að hvorki gæti staðizt að efni né formi. Um formið er það að segja, að í b-lið 8. gr. þessara 1., sem verið er að breyta, er gert ráð fyrir, að þessu framlagi, 15%, megi verja til akfærra sýsluvega. Ég get þess vegna ekki séð annað en að þetta sé í raun og veru réttnefndur styrkur. Ég sé við nánari athugun, að hv. þm. hefir kveðið svo fast að orði um þessa nýju liði til bæjarfélaganna, að hann gerir ráð fyrir, að 15% af hvers árs tekjum skuli verja til malbikunar o. s. frv. Samt sem áður verð ég að skoða bæði þessi framlög sem styrk frá því opinbera til hlutaðeigandi sýslufélaga og bæjarfélaga.

Þá sagði hv. frsm., að þetta yrði ekki unnt að framkvæma, vegna þess að ekki er hægt að sjá fyrirfram, hve miklu yrði varið til vega. En vitanlega höfum við gert ráð fyrir, að við úthlutun yrði byggt á áætlun og borgað samkv. henni. Skil ég ekki, að þetta sé meiri vandkvæðum bundið en gagnvart sýslufélögunum. Um þau gilda þau ákvæði samkv. sýsluvegasjóðslögunum, að þau fá ekki fé úr ríkissjóði, nema þau verji meiru en 2% af verði fasteigna til vega. Ef viðhaldskostnaðurinn eða vegagerð nemur ekki nema 20/00, þá finnst mér hann ekki það þungbær, að ástæða sé til að trygggja framlag ríkissjóðs með sérstökum ákvæðum. Þess vegna held ég, að ekki sé neinum sérstökum annmörkum bundið að fylgja þessu ákvæði í bæjum frekar en í sýslufélögum. Hv. frsm. kvað allt viðhald hverfa úr sögunni þegar búið væri að malbika. Betur, að svo væri. En ég býst við, að það taki alllangan tíma. Svo sýnist mér hér í Rvík, því miður, að þessar malbikuðu götur vilji slitna og skemmast fljótt. Mér sýnist koma í þær holur, og að þær muni þurfa eitthvert viðhald.

Þá hefir verið talað um, að brtt. okkar komi harkalega niður á Rvík, því hún muni ekki verja til vega sem svarar 20/00 af matsverði fasteigna í bænum. Ég hefi ekki kynnt mér þetta fyllilega. Ég sé, að Rvík hefir varið eitthvað um 400 þús. kr. til gatna- og holræsagerða, en ég veit ekki nákvæmlega, hvernig það skiptist. Það má vera, að það sé rétt, að Rvík verji ekki sem svarar 20/00 af matsverði fasteigna til vegaviðhalds. En sé svo, þá finnst mér ekki vegakostnaðurinn hvíla svo þungt á bæjarbúum, að ástæða sé til að veita styrk vegna hans. A. m. k. fyndist okkur það ekki úti um sveitirnar. Hitt göngum við inn a, að það sé ekki nema sjálfsagt að láta einhvern hluta af skattinum koma bæjunum til góða. En okkur finnst ekki nema sanngjarnt að binda það þeim skilyrðum, sem tryggja, að eitthvað verulegt verði úr framkvæmdum, eða m. ö. o. þeim skilyrðum, sem yfirleitt eru sett fyrir framlögum til, sýsluvega. Vona ég því, að hv. d. samþ. þær brtt. báðar, sem við höfum borið hér fram.