31.03.1933
Efri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Bjarni Snæbjörnsson:

Skattur sá, sem hér er farið fram á að lögfesta áfram, bifreiðaskatturinn, kemur vitanlega þyngst niður á þeim, sem mest þurfa bifreiðanna við, og verða það því aðallega kaupstaðir landsins, sem verða fyrir þessum skatti. Það er auðvitað sjálfsagður hlutur, að þar sem skatturinn kemur þyngst niður, þar komi einhver fríðindi á móti. Þess vegna er það, að fram er komin brtt. frá n. um það, að kaupstaðirnir fái framvegis eitthvað af þessum skatti til eigin afnota. En ég sé ekki betur en að með brtt. þeim, sem fram eru komnar við brtt. n., sé reynt að koma því þannig fyrir, að kaupstaðirnir fái ekki þann hluta af skattinum, sem n. ætlar þeim að fá. Till. eru ekki þannig orðaðar að vísu, en þær miða að því að gera kaupstöðunum svo erfitt fyrir með að verða þessa styrks aðnjótandi sem mögulegt er.

Það liggur í hlutarins eðli, að margir af þeim vegum, sem í kaupstöðunum eru og sem kaupstaðirnir leggja, eru ekki einungis notaðir af kaupstaðarbúunum sjálfum. Þeir liggja oft á milli landsjóðsvega og eru því notaðir af landslýðnum yfirleitt. Ég veit t. d., að það er þannig suður frá hjá okkur, að sá vegur, sem langmest er notaður og kostar okkur árlega langmest viðhald, það er einmitt vegarbúturinn milli landssjóðsveganna héðan og suður á Reykjanesskaga. Það mun ekki ofmælt, að 1/5—1/4 af umferðinni um þennan vegarspotta sé af mönnum, sem ekki búa í Hafnarfjarðarkaupstað. Undanfarið hefir það mjög verið til umr. að gera þennan vegarstúf á einhvern hátt varanlegan, vegna þess hvað erfitt er að halda honum við eins og hann er nú. Það má vera, að það megi sletta því í Hafnfirðinga, eins og mér virtist hv. 3. landsk. hálfvegis gera, að þeir hafi ekki gert mikið að því að malbika vegi hjá sér. En það er ekki af því, að þeir hafi ekki haft vilja á slíkum framkvæmdum, heldur er það getuleysi, sem hefir hamlað þeim á þessu sviði, eins og svo mörgum öðrum. Ef það fé, sem kaupstaðirnir eiga að fá af bifreiðaskattinum, er lagt í sérstakan sjóð, eins og n. leggur til, og hann ávaxtaður, og kaupstaðirnir gætu svo fengið úr honum til malbikunar, eftir því sem þeir sæju sér fært og hefðu efni á að ráðast í slíkar framkvæmdir, þá batnaði vitanlega nokkuð afstaða þeirra til þess að leggja í slík fyrirtæki. Og ef 1. um bifreiðaskatt eiga að gilda áfram, þá er það sjálfsagður hlutur, að bæirnir, sem harðast verða úti, fái einhver slík hlunnindi, að þeim verði gert kleift að bæta vegakerfi sitt.

Það hafa komið fram skiptar skoðanir um það, hvernig skilja beri brtt. hv. 3. landsk. og hv. 2. þm. Eyf., hvort það, sem varið er til vegaviðhalds, eigi að telja framlög til nýrra vegalagninga. En ég verð að segja, að ef það er meiningin, að vegaviðhaldið eigi að vera þar fyrir utan, þá getur það orðið þungur skattur á bæjarfélögum að ráðast í slíkt. Það ætti t. d. að krefjast þess, að við Hafnfirðingar verðum a. m. k. 15½ þúsundi (2%, af verði fasteigna) til vegaviðhalds á þeim sama tíma, sem við leggjum fram tvöfalda þá upphæð, er fæst úr ríkissjóði til malbikunar á vegi eða vegum í bænum, en slíkt virðist mér brtt. á þskj. 284 fara fram á. Ef þessar brtt. komast inn í þessi l., þá verður það sama sem að neita kaupstöðunum um þessi 15%, sem þeir eiga að fá samkv. nál., því þeir geta ekki staðið undir því að leggja fram helmingi meira en ríkissjóðsstyrk næmi, og þar að auki til vegaviðhalds 20/00 af verði fasteigna, sem verður ca. 15½ þús.

Á síðustu fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar var ætlað til vega, holræsa og vatnsveitu 20 þús. kr., sem er lítið hærri upphæð en ég áður hefi nefnt, hærra sáum við okkur ekki fært að fara. Ef þar að auki ætti að leggja fram úr bæjarsjóði 2 hluti mót 1 úr ríkissjóði á því ári, sem ráðizt væri í malbikun, þá sér hver heilvita maður, að það verður dýrt spaug fyrir bæinn að ráðast í þetta nauðsynlega fyrirtæki. Ég verð líka að segja það, að hv. 3. landsk. hefir ekki leyfi til þess að segja, að það sé spursmál, hvort malbikun sé hentug, af því að bæir hafi yfirleitt ekki gert mikið af því nema Rvík og Akureyri lítilsháttar. Það er ekkert spursmál, hvort það er heppilegt eða ekki, heldur er það bara af getuleysi, að þeir hafa ekki gert það. Það kostar svo mikið að byrja á þessu verki og það þýðir ekki neitt að malbika lítinn spotta, það verður helzt að vera nokkur vegalengd og þá hlýtur það að verða töluverð fjárupphæð úr bæjarsjóði, þó ekki sé farið fram á meira en helming af því framlagi, sem kemur frá bifreiðaskattinum. — Hv. 3. landsk. talaði líka um það, að ef horfið væri að þessu, þá mundi ekki líða langur tími, þangað til kaupstaðir væru búnir að fá allar sínar götur malbikaðar af þessum bifreiðaskatti. Það finnst mér vera nokkuð mikil bjartsýni af honum, því þessum 15% á að skipta niður á svo marga kaupstaði í landinu. Það tekur fleiri ár að safnast til hvers einstaks bæjar, svo honum verði kleift að fá nægilegt fé til malbikunar. Þeir eru litlu bættari með að leggja út í slíkt fyrir kannske nokkra tugi þús., því það er ekki stór spotti, sem fæst malbikaður fyrir það. Ég býst ekki við, að hv. þm. þurfi að vera hræddur um það, að kaupstaðir fái malbikun fyrir sama og ekki neitt á örstuttum tíma. Ég segi fyrir mig, að ef gerðar verða þær breyt. á frv., að skatturinn verði hækkaður ennþá meir, og kaupstöðum og bæjum, sem verst verða úti, gert erfiðara með að verða aðnjótandi þessara hlunninda, sem nál. fer þó fram á, þá hika ég ekki við að greiða atkv. móti frv.