31.03.1933
Efri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Jón Baldvinsson:

Við umr. um þetta mál í fyrra gerði ég ráð fyrir, að þessi skattur, benzínskatturinn, og annað, sem honum fylgdi þá, mundi gera það að verkum, að atvinnurekstur þeirra, sem hefðu flutningsbíla, mundi eiga örðugt uppdráttar og margir ganga frá með öllu, þegar frá liði. Nú hefir hv. 2. þm. Árn. lýst ástandinu í sínu héraði og skýrt frá því, að fjöldi manna, sem við bíla hafa fengizt, hafi skilað númerum sínum aftur til þess að komast hjá því að greiða af þeim skatt. Fyrir skömmu var birt löng auglýsing í hlöðunum, þar sem taldir voru upp þeir bílar, sem eiga ógoldna skatta, og þeir voru ekki færri en 90. Þessa bíla átti að selja á uppboði, en mér er ekki kunnugt um það, að hve miklu leyti öll þessi sala hefir verið framkvæmd. Þetta sýnir, hvað mikla erfiðleika þeir menn eiga við að stríða, sem hafa þessa atvinnu. Ég er ekki í vafa um það, að þessi skattur hefir átt sína stóru hlutdeild í því, að svo er komið fyrir bílaeigendum, að svo margir þeirra hafa orðið að láta tæki sín af hendi. Með vaxandi erfiðleikum hjá almenningi og þar af leiðandi minnkandi ferðalögum, hefir ástandið versnað hjá bifreiðaeigendum, en skatturinn hefir gert það sem þurfti með, að menn geti ekki haldið þessum atvinnurekstri áfram, svo nauðsynlegt sem það er fyrir okkur í þessu erfiða landi hvað samgöngur snertir, að halda uppi þessum einu tækjum, sem við hófum til skjótra flutninga.

Nú fer hæstv. stj. fram á að framlengja þetta frv. óbreytt, en fjhn. hefir gert nokkrar till. til lækkunar á skattinum, sem ég tel að vísu sjálfsagt að samþ., enda þótt ég muni ekki þrátt fyrir það treysta mér til að greiða frv. atkv. áfram.

En út af þessu skattafrv. finnst mér ástæða til að beina því til hv. 1. landsk., að í umr. um verðtoll lét hann þá skoðun í ljós, eins og hann hefir gert oft áður, að hann mundi því aðeins greiða fyrir, að það frv. gengi, til 2. umr., að hann geymdi sér að öllu öðru leyti óbundna afstöðu til málsins og annara skattamála, þangað til séð væri um undirtektir þingsins í stjórnarskrármálinu. Nú er þetta að vísu 2. umr. málsins og má vel vera, að allt geti staðizt, sem hv. 1. landsk. talaði, en það er ein brtt. frá n., sem mér finnst benda dálítið í aðra átt, 5. brtt. á þskj. 156, þar sem n. gerir þá till. við 11. gr. l. frá 1932, að í staðinn fyrir að þau voru bundin til ársloka 1933, þá skulu þau gilda áfram og ekki vera tímabundin og verða þannig fastur tekjustofn fyrir ríkissjóð. Ég mun því eins og ég hefi sagt greiða atkv. með till., sem fara fram á lækkun, en móti till. hv. 3. landsk., en ég mun ekki sjá mér fært að fylgja frv., jafnvel þó till. verði samþ.