31.03.1933
Efri deild: 39. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Einar Árnason:

Brtt. okkar hv. 3. landsk. hafa nú sætt miklum andmælum hér í d. Ég bjóst líka alltaf við því, af því að það er ekki nýtt að heyra það hjá ýmsum hv. þm., að þeir vilji víkja sér undan því að gera ráðstafanir til þess að fé verði fyrir hendi til að endurbæta vegi landsins, svo að þeir séu sæmilegir fyrir bifreiðar.

Það, sem vakir fyrir okkur flm. þessara brtt., er það, að unnt verði að verja meiru fé hér eftir en hingað til til að gera bifreiðavegi landsins sæmilega úr garði, svo að þeir geti yfirleitt kallazt þolanlegir umferðar og slíti ekki bifreiðum um skör fram og geri bifreiðaakstur yfirleitt ódýrari en hefir verið. Og við getum verið alveg vissir um það, að við fáum okkar löngu vegi aldrei í lag með öðru en því, að leggja fram mikið fé til þess.

Nú er það svo með bifreiðaskattinn, að upphaflega er hann lagður á sem skattur fyrir það slit, sem bílar gera á vegum fram yfir önnur farartæki, sem um vegina fara, og það er ekki nema sanngjarn skattur á þá menn, sem bílana nota. Deila hefir staðið um það, hvort þessi skattur ætti að vera meiri eða minni, eða á hvern hátt ætti að leggja hann á. Allir þekkja þann skatt, sem áður var, þ. e. a. s. hestorkuskattinn, sem virtist ekki geta talizt sanngjarn að neinu leyti. Talsverðum erfiðleikum var það bundið að fá þm. til að skilja það, að benzínskatturinn væri sanngjarnari, en að lokum sigraði þó sú stefna á þinginu í fyrra. Það hefir raunar verið gert alltof mikið úr því, hvað benzínskatturinn geri bílflutninga dýrari en áður var með hestorkuskattinum. Það er hægt að sýna fram á, að þetta munar ekki miklu. Sú hækkun, sem yrði samkv. þessum benzínskatti, mundi nema á 7 manna bifreið á 100 km. aðeins 1 kr., og þegar því er skipt niður á alla farþegana, þá verður ekki sagt, að hækkunin sé mikil. Ég held því, að það sé ómögulegt að halda því fram með nokkrum rökum, að þessi skattur verði til þess að gera bílunum ómögulegt að ganga kostnaðar vegna. Fyrir okkur flm. þessara brtt. vakir ekki það, að gera bílaeigendum erfiðara fyrir um rekstur bílanna, heldur hitt, að gera vegina svo úr garði, að slit bifreiða verði ekki um skör fram, og þá jafnframt á þann hátt að gera akstur bíla ódýrari bæði fyrir eigendur þeirra og notendur.

Hv. 2. þm. Árn. talaði mikið um það, hvað vegirnir væru vondir, og þar eystra létu menn bíla sína standa aðgerðarlausa, og því væru nú fáir bílar á vegunum þar. Þetta vildi hann kenna benzínskattinum. Ég held, að þetta sé ekki skattinum að kenna, heldur því, hvað vegirnir eru vondir. Hinsvegar get ég fallizt á lækkun þá á gúmmískattinum, sem ráðgerður er í frv., aðallega sakir þess, að það er nokkuð erfitt fyrir fátæka bílaeigendur að leggja fram eins mikið fé og þarf til að endurnýja alla hjólhringa, sérstaklega á vörubifreiðum. Þykir mér því rétt að lækka skattinn af gúmmíinu, en hækka þá jafnframt benzínskattinn, svo að tekjur ríkissjóðs ekki rýrni til muna.

Hv. 2. landsk. minntist á það, að margir bílar hefðu verið auglýstir til sölu vegna vangoldins skatts. Þetta er rétt, en það getur tæplega verið, að það hafi verið vörubílar, af því að þeir greiða í raun og veru skattinn jafnóðum og þeir ganga. Á þeim hvílir enginn þungaskattur. Er það einn af kostum benzínskattsins, að hann er greiddur jafnóðum, og er því minna um að skatturinn sé vangoldinn en annars mundi vera.

Þá vil ég líka geta þess út af þessu bílauppboði, að þegar til kom, voru aðeins örfáir bílar, sem boðnir voru upp, og um þá mátti segja það, að þeir voru að meira og minna leyti ónýtir. Ég spurði nákvæmlega um þetta manninn, sem hefir eftirlit með bifreiðum, og hann sagði, að þeir hefðu verið meira og minna ónothæfir. Hér hefir því verið um að ræða vangoldinn þungaskatt af hálfónýtum fólksbílum.

Annars ætla ég ekki að deila um þessar brtt. við hv. þm. Það fer eins og auðið er um þær, og vitanlega legg ég lítið kapp á þær, a. m. k. ekki sumar þeirra. Ég vildi aðeins sýna með þessum till., að við flm. töldum nauðsynlegt að ýta undir, að sem mest fé væri hægt að leggja fram til þess að koma vegunum í sæmilegt ástand.