11.03.1933
Neðri deild: 22. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

4. mál, bifreiðaskatt og fl.

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Fjhn., sem haft hefir mál þetta til meðferðar, leggur til, að þetta litla frv. verði samþ. með lítilsháttar breyt. Þó að það verði samþ., sem ég geri ráð fyrir að verði, þá breytir það ekki miklu frá því, sem nú er. Því að nú er Kristneshæli rekið á sama hátt og heilsuhælið á Vífilsstöðum. Má sjá það m. a. á gildandi fjárl., að útgjöld til Kristneshælis eru ákveðin nákvæmlega á sama hátt og til Vífilsstaðahælis. N. fellst á, að það sé sanngjarnt og rétt að staða læknisins í Kristneshæli sé tryggð með því að taka hana upp í launalögin, á sama hátt og staða læknisins við heilsuhælið á Vífilsstöðum er nú í þeim, þar sem algerlega er um samskonar störf að ræða. Það eina, sem sumum nm. fannst athugavert við þetta, var það, að formleg afhending á heilsuhælinu í Kristnesi til ríkisins hefði víst ekki verið framkvæmd beinlínis enn. Ég fyrir mitt leyti get ekki séð, að þetta geri mikinn mismun, þar sem Kristneshælið er rekið á sama hátt sem væri það ríkisstofnun. Það hefir samt orðið ofan á í n. að leggja það til, að þessi l. um að tryggja stöðu læknisins þar, öðlist fyrst gildi, þegar hælið hefir formlega verið afhent ríkinu. Hún hefir því flutt brtt. um það, að í stað þess, að frv. öðlist lagagildi 1. jan. 1934 komi: þegar Kristneshæli hefir formlega verið afhent ríkinu.