17.02.1933
Neðri deild: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (553)

18. mál, ljósmæðralög

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Yfirsetukvennalögin frá 19. maí 1930 ná aðeins til skipaðra ljósmæðra, og sjálfsagt settra líka, en ekki til „praktiserandi“ eða starfandi ljósmæðra. Starfandi ljósmæðrum fer fjölgandi, og það er vitaskuld vöntun eða galli, hvort sem á það er litið frá sjónarmiði ljósmæðranna sjálfra eða frá sjónarmiði hins opinbera, og þarf væntanlega ekki skýringu á því. Þess vegna hefir landlæknir lagt það til og stjórnin fallizt á það, að bætt verði úr þessu. Þetta er gert með frv. þessu, sem landlæknir hefir samið, en stj. flytur. Það ætti og undir um flutning þessa máls, að þörf er orðin á að endurskoða reglugerð fyrir ljósmæður, sem nú mun vera orðin að sumu leyti úrelt.

Að öðru leyti en því, sem ég hefi sagt um skipaðar og starfandi ljósmæður, eru ekki miklar breyt. á gildandi lögum, svo að ég vona, að frv. mæti ekki mótspyrnu. Geta vil ég þó þess, að í gildandi löggjöf er ekki gert ráð fyrir, að stj. hafi neina hönd í bagga með, hversu ljósmæðraumdæmum úti um landið er raðað niður, né hve mörg þau eru. Þetta er tæpast rétt, þar sem ríkissjóður greiðir 2/3 launanna. Í þessu frv. er því gert ráð fyrir, að samþykki ráðherra þurfi, er ákveða skal niðurskipun ljósmæðraumdæma. Í framkvæmdinni geri ég ráð fyrir, að þetta verði þannig, að þegar breyta á þeirri skipun, sem nú er, þurfi til þess samþykki ráðherra. Þetta er sjálfsagður hemill til að fyrirbyggja of mikla fjölgun umdæmanna. Hinsvegar dettur mér ekki í hug, að farið verði að taka upp nýja skipun umdæmanna eða heimta breytingu á slíku.

Við launakjörum yfirsetukvennanna er ekki hreyft í frv.

Ég legg til, að frv. þessu verði vísað til 2. umr. og allshn., að lokinni þessari umræðu.